Öskrandi kona í berginu við Hjörleifshöfða

Margt býr í fjöllunum og að því komst kvikmyndagerðarfólk við Hjörleifshöfða fyrir skemmstu. Þau voru að störfum við að taka upp nýja auglýsingu fyrir Viking Park sem er nýr áfangastaður fyrir ferðamenn á Suðurlandi. Við tökur á atriði þar sem jeppi ekur um Mýrdalssand með Hjörleifshöfða í bakgrunninum rak einhver úr hópnum augun í dularfullt andlit í berginu sem minnti helst á öskrandi konu.

„Þetta var óvæntur leynigestur,“ segir Svanur Gabriele Monaco tökumaður auglýsingarinnar í fréttatilkynningu. „Þegar við skoðuðum tökurnar þá blasti við þetta dularfulla og eilítið hrollvekjandi andlit sem stendur út úr klettunum.“

Aðspurður segir Svanur engar kenningar uppi með það hvort andlitið í berginu líkist einhverjum sérstökum eða þá hverjum. „Okkur sýnist þetta vera andlit konu. Það er auðvitað rík saga þarna í kringum Hjörleifshöfða og ekki endilega allt gott sem þar gerðist. En ef einhver lumar á góðri kenningu þá viljum við endilega heyra hana.“

Yoda-hellirinn

Það má finna fleiri furðuverur í bergi Hjörleifshöfða en á suðurhlið hans er hin víðfræga Gígjagjá sem gengur títt undir nafninu „Yoda-hellirinn.“ Þar er vísað í lögun hellismunnans sem minnir á grænleita spekinginn Yoda úr kvikmyndunum um Stjörnustríð. Talið er að nafn hellisins, Gígjagjá, tengist sögunni um hafgýgju sem hélt til í hellinum, sjóskrímsli sem var kvenmaður í ánauðum. Hellirinn sást síðan á hvíta tjaldinu árið 2016 þegar kvikmyndin Rogue One: A Star Wars Story var frumsýnd, en upphafsatriði myndarinnar var m.a. tekið upp í hellinum. 

Yoda-hellirinn svokallaði.
Yoda-hellirinn svokallaði. Unsplash/Kay Si Ying

Blóðug saga Hjörleifshöfða

Hjörleifshöfði er um 220 metra hár og staðsettur á Mýrdalssandi, en talið er að hann hafi verið eyja á öldum áður. Í dag umlykur sandurinn höfðann og er hann um tvo kílómetra frá ströndinni. 

Höfðinn er kenndur við landnámsmanninn Hjörleif Hróðmarsson, sem kom til Íslands árið 874 í samfloti með fóstbróður sínum, Ingólfi Arnarsyni. Þegar þeir nálguðust landið á tveimur skipum er sagt að Ingólfur hafi varpað öndvegissúlum sínum frá borði og heitið því að setjast að þar sem þær ræki að landi. Ingólfur tók fyrst land við Ingólfshöfða og hafði þar vetursetu en Hjörleifur við Hjörleifshöfða. Næsta vor drápu írskir þrælar Hjörleifs hann og menn hans, tóku konurnar með sér og flúðu til Vestmannaeyja en Ingólfur elti þá uppi og drap þá. Efst uppi á höfðanum er Hjörleifshaugur og er Hjörleifur sagður grafinn þar.

Búið var í Hjörleifshöfða til 1936 en bærinn var fluttur af sandinum upp á höfðann eftir að hann eyddist í Kötluhlaupinu 1721. 

Í Hjörleifshöfða höfðu landvættir verið svo máttugir og aðgangsharðir að þar höfðu engir þorað að nema land frá því Hjörleifur var veginn.

Landhelgunaathöfn að heiðnum sið fór fram í Hjörleifshöfða árið 2000. Tilgangurinn með athöfninni var að ná sátt við landið og landvættirnar þegar tekin var búseta. Landhelgunarathöfnin fór fram undir Hjörleifshöfða þar sem talið er að bæjarstæði Hjörleifs hafi verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka