„Eins og hasarinn í borginni rói mig niður“

Melkorka gekk í stóran grunnskóla í borginni.
Melkorka gekk í stóran grunnskóla í borginni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Listakonan Melkorka Katrín Tómasdóttir, oft kölluð Korka eða Korkimon, er á fyrsta ári í mastersnámi við myndlist í skólanum School of Visual Arts í New York. Það má segja að New York sé borgin hennar en hún bjó þar í tíu ár frá tólf ára aldri. Hún lét sig dreyma um að vera ein af þessum nemendum í listaháskóla í borginni og nú nokkrum árum síðar hefur það ræst.

„Ég útskrifaðist úr Sarah Lawrence árið 2017 og planið var að fara svo út í mastersnám til Ameríku. En ég ætlaði ekki aftur til New York. Ég bjó þar í tíu ár frá því ég var tólf til tuttugu- og tveggja ára. Ég hélt ég væri búin með þann kafla. Svo þegar ég var að sækja um nám síðasta vetur þá ákvað ég frekar í flýti að sækja líka um í School of Visual Arts, eða SVA. Það vildi þannig til að umsóknarfresturinn þeirra var nokkrum dögum lengri en annars staðar og mér fannst það vera einhverskonar merki. 

Fyrstu tvö árin mín í New York þá var ég í einum af þessum risastóru almenningsskólum, með 1200 nemendur í 6.-8. bekk. Á hverjum degi á leiðinni í skólann labbaði ég framhjá þessum háskóla og sá nemendurna labba þar inn og út. Ég man alltaf hvað mér fannst þetta kúl og lét mig dagdreyma um það að vera fullorðin í listaháskóla. Reyndar var SVA einn af skólunum sem ég var að velja úr þegar ég var að fara í bachelor-námið mitt en ég endaði á að velja Sarah Lawrence því þar gat ég verið á ekta skólavist fyrir utan borgina,“ segir Melkorka. 

Hún segir að þegar hún flaug aftur til borgarinnar í ágúst leið henni eins og hún væri komin heim. „Hitt heim. Það var mjög góð tilfinning.“

Melkorka Katrín bjó í New York sem unglingur og er …
Melkorka Katrín bjó í New York sem unglingur og er aftur flutt til borgarinnar í mastersnám í myndlist. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ver mestum tíma í Bushwick í Brooklyn

Hvaða hverfi eru í uppáhaldi hjá þér?

„Gamla hverfið mitt, Gramercy Park, þar sem ég ólst upp í á alltaf hjartastað hjá mér en það er líka erfitt að koma þangað. Önnur hverfi sem eru mér kunnug frá því í „gamla daga“ og mér þykir vænt um eru til dæmis Upper West Side þar sem ég var í grunnskóla (e. high school), Williamsburg þar sem bróðir minn og konan hans bjuggu og East Village þar sem ég og vinir mínir áttum til að slæpast og stelast til að drekka þegar við vorum unglingar. Ég var einu sinni tekin af löggunni þar sextán ára með áfengi, það var ekki gaman og ég þurfti að játa á mig sektina.“

Í dag segist hún eyða mestum tíma í Bushwick í Brooklyn þar sem hún á heima. „Ég elska það hverfi. Og svo eyði ég miklum tíma í Chelsea þar sem stúdíóin í skólanum eru og East og West Village.“

Það er erfitt að velja sér uppáhalds veitingastaði eða bari í borginni því það er einfaldlega of mikið að velja úr. 

„Corner Bar sem er á Nine Orchard-hótelinu er rosa smart. Um daginn fór ég á stað sem heitir Mister Paradise í East Village sem er kokteila, smárétta og hamborgarastaður með mjög flottu „interiori“ og lýsingu. Starfsfólkið er smart í verkamannaskyrtum með embróderuðum nafnamerkjum sem ég er algjör sökker fyrir. Annar smart staður rétt hjá skólanum sem ég dýrka heitir Cafeteria.“

Það er gríðarlegt framboð af góðum mat og drykk í …
Það er gríðarlegt framboð af góðum mat og drykk í borginni. Ljósmynd/Úr einkasafni
Melkorka eyðir mestum tíma í Bushwick í Brooklyn þar sem …
Melkorka eyðir mestum tíma í Bushwick í Brooklyn þar sem hún býr, í Chelsea í skólanum eða East og West Village. Ljósmynd/Úr einkasafni
Cafeteria er í miklu uppáhaldi.
Cafeteria er í miklu uppáhaldi. Ljósmynd/Úr einkasafni

24 tíma klúbbar

Hvernig er skemmtanalífið í New York?

Svakalega fjölbreytt og spennandi. Tveir klúbbar sem ég fýla eru Nowadays í Bushwick sem er bæði inni- og útiklúbbur og er með opið 24 tíma um helgar. Síðan er það Basement sem er í Knockdown Center og er alveg klikkaður. Annars er ég mest að vinna upp í stúdíói um helgar fer frekar út að borða með vinum á kvöldin. Það er eins og hasarinn í borginni rói mig í rauninni niður og stundum er nóg að fá að fylgjast með úr fjarlægð. Mér finnst gott að sofa vel og vakna snemma um helgar og það er eins og ég græði einhvernveginn auka tíma þannig.“

Basement-klúbburinn í New York.
Basement-klúbburinn í New York. Ljósmynd/Úr einkasafni
Nowadays-klúbburinn sem er opinn í 24 tíma um helgar.
Nowadays-klúbburinn sem er opinn í 24 tíma um helgar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvað er ómissandi að sjá?

„Þetta er kannski skrítið svar en mér dettur fyrst í hug bara amerískar matvörubúðir, þær eru eitthvað annað. Ég elska þær, það er allt til. Allar hillur eru fullar og flottar. Það er alveg verið að massa-feisa-selja hérna. Ég get ekki útskýrt.“

„Mín persónulega martröð“

Hvernig er draumadagurinn þinn í New York?

„Þetta er skrítin spurning fyrir mér því það er eins og að spyrja hvernig draumadagur hjá mér í Reykjvík væri. Það er svo venjulegt fyrir mér að vera hérna. En ætli það sé ekki að vakna snemma, búa mér til kaffi og drekka það á meðan ég dingla mér heima. Brjóta saman þvott, ganga frá eldhúsi, klæða mig og skipuleggja daginn. Mæta í ræktina! Heim í sturtu og koma mér út. Svo myndi ég kaupa mér ristaða „everything-beyglu“ með rjómaosti og tómötum og borða hana í lestinni á leiðinni upp í stúdíó. Vinna þar í nokkra klukkutíma og fá hugmynd, það er alltaf draumurinn, að fá hugmynd í dag.

Þá er klukkan kannski orðinn fjögur að síðdegi og þá er ég líklega orðin smá svöng og vill viðra mig. Rölti þá yfir í deli-inn á sjöunda stræti hjá skólanum og fæ mér kalkúnavefju og Coke Zero. Þar sest ég niður á einhvern bekk og borða. Hey, þarna er „mani-pedi-snyrtistofa“ og ég tríta mig og læt naglalakka mig. Ég fer að vinna meira í stúdíó en vil síðan fara annaðhvort að sjá bíó niðri í IFC Center í West Village, helst ein því mér finnst skemmtilegast að fara ein í bíó og svo eftir það vil ég fara með einhverjum að sjá uppistand í einum af klúbbunum þar í kring. Síðan tek ég lestina heim, fæ þar góðar þrjátíu mínútur ein að hlusta á eitthvað, hugsa og lesa eftir draumadaginn minn. Góða nótt.“

Eru einhverjar túristagildrur sem ber að varast?

„Mér dettur helst í hug að segja fólki bara að sleppa Times Square-bullinu. Eða þú veist, ég skil alveg að vilja fara þangað til að hafa farið. En þetta er mín persónulega martröð.“

Um helgar er hún oft að vinna í skólanum og …
Um helgar er hún oft að vinna í skólanum og segir hún hasarinn í borginni róa sig niður. Ljósmynd/Úr einkasafni
Amerískar matvörubúðir er eitthvað sem enginn ætti að láta framhjá …
Amerískar matvörubúðir er eitthvað sem enginn ætti að láta framhjá sér fara að mati Melkorku. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka