Er frí yfir sumartímann kannski ofmetið?

Það er vel hægt að hugsa sér gott haustfrí á …
Það er vel hægt að hugsa sér gott haustfrí á meginlandi Evrópu. Marco Mons/Unsplash

Er frí yfir sumartímann kannski ofmetið? Í nýrri grein á Travel and Leisure segir að fríin á háannatíma ferðamennskunnar sé ekkert endilega besti tíminn að ferðast m.a. vegna sífellt heitara veðurfars og ofgnótt annarra ferðamanna sem geti breytt því sem kallast rólegt frí í að vera óþægileg og yfirþyrmandi upplifun.

Þess vegna gæti haustið verið ákjósanlegur tími ferðalaga og þrátt fyrir kuldann sem er farinn að bíta í kinnarnar hérlendis getur verið fínasta veður fyrir útiveru og ferðalög á meginlandi í Evrópu.

Hér eru fimm staðir sem Travel and Leisure mælir með:

Madeira 

Mælt er með heimsókn á portúgölsku eyjuna að hausti til. Hitinn á eyjunni á þessum tíma er yfirleitt í kringum 20 gráður. Eftir þurrt sumar geti verið að detta í rigningartímabil en þá lifnar gróskumikill skógurinn við, sem er kjarni eyjunnar. Flestir ferðamenn hafa klárað sumarfríin sín og yfirgefið staðinn. Þá er hægt að njóta friðar t.d. í kanósiglingum eða gönguferðum um skóglendið sem er á heimsminjaskrá UNESCO.

Madeira í Portúgal.
Madeira í Portúgal. Anja Junghans/Unsplash

Sardinía

Það getur verið afar heitt á Sardiníu yfir sumartímann, þess vegna er mælt með að heimsækja ítölsku eyjuna um vor eða haust. Besti tíminn fyrir hjólreiðar, gönguferðir og bátsferðir kringum eyjuna er í október og fram til byrjun nóvember. Á haustin er einnig hægt að fara í vínsmökkun, skoða svæði fornleifauppgraftar og fá sér sundsprett í tærum sjónum.

Sardinía á Ítalíu er þekkt fyrir fallegt skóglendið sem verður …
Sardinía á Ítalíu er þekkt fyrir fallegt skóglendið sem verður bara enn fallegra á hausin. Christopher Politano/Unsplash

Kaupmannahöfn

Á haustin er rétti tíminn til að „hygge sig“ í Kaupmannahöfn. Á þeim tíma er tilvalið að setjast inn á kósý kaffihús, fara í síðdegis hjólatúr eða kíkja í galleríin og verslanirnar á Jægersborggade. Matseðlar veitingahúsanna eru árstíðarbundnir og haustin færa gestum nýtt úrval rétta. Fyrir matarupplifunina er einnig mælt með heimsókn í Torvehallerne, eina helstu mathöll Kaupmannahafnarbúa.

Á haustin er rétti tíminn til að „hygge sig“ í …
Á haustin er rétti tíminn til að „hygge sig“ í Kaupmannahöfn. Shannon Gahagan Sibbesen/unsplash

Skoska hálendið

Það er fátt sem jafnast á við skoska hálendið á tíma haustsins. Dagarnir eru að vísu farnir að styttast en seint á morgnana líður þokan svo fallega um hálendið. Þá eru mýflugurnar farnar sem oft vilja pirra margan manninn. Landslagið er prýtt rauðum, appelsínugulum og gulum litum. Toppurinn gætu verið gönguferðir við Loch Ness vatnið, fjallganga á hæsta tind Skotlands Ben Nevis eða skoðunarferð í Eilean Donan kastalann.

Ætli Loch Ness skrímslið leggist í vetrardvala að hausti til?
Ætli Loch Ness skrímslið leggist í vetrardvala að hausti til? Konrad Hofmann/Unsplash

Franska rivíeran

Á frönsku rivíerunni má finna staði eins og Nice, kvikmyndabæinn Cannes, Antibes og formúlu- og konungsríkið Mónakó. Fyrir þá sem hafa brennandi áhuga á vatnaíþróttum og bátsferðum er Saint-Tropez kjörinn staður. Flestir dagar ættu að einkennast af rjómablíðu og sjórinn enn nægilega volgur til a.m.k að dýfa tánum ofan í. 

Það er að finna ótal fallegar borgir og bæi sem …
Það er að finna ótal fallegar borgir og bæi sem standa við frönsku rivíeruna. Jovan Vasiljević/Unsplash

Tæmandi lista má finna á síðu Travel and Leisure.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert