Bestu smábæirnir í Evrópu

Derek Thomson/Unsplash

Ætli flestir geti ekki verið sammála um að fjölskyldufríið þarf að vera þægilegt og áreitið takmarkað. Fjölskyldan vill eflaust njóta menningar, greiðs aðgangs að útiveru og nægrar afþreyingar fyrir börnin á stað sem er ekki yfirþyrmandi sökum stærðar og fjölmennis. 

Travel and Leisure mælir með smábæjum sem gætu verið eitthvað sem þú ættir að íhuga fyrir næsta ferðalag fjölskyldunnar:

Pals á Spáni

Þetta heillandi þorp frá miðöldum er í um 90 mínútna fjarlægð norður af Barcelona og kjörinn áfangastaður fyrir fjölskylduna. Fallegar sandstrendur eru í nálægð við bæinn og hægt er að fara með bát inn í víkur við strandlengjuna. Hægt er að heimsækja dæmigerðan katalónskan bæ þar sem börnin geta lært um búskap af gamla skólanum. 

Hvar á að gista:

Travel and Leisure mælir með Mas de Torrent sem er uppgerður 18. aldar bóndabær, hótel með 39 herbergi. Á hótelinu er sundlaug, tennisvellir og önnur afþreying fyrir fjölskylduna, eins og stjörnuskoðun.

Pals á Spáni. Heillandi þorp frá miðöldum.
Pals á Spáni. Heillandi þorp frá miðöldum. Jan Dommerholt/Unsplash

Val Gardena á Ítalíu

Í Val Gardena dalnum eru mörg lítil þorp. Hægt er að fara í klifur sem er sniðið að allri fjölskyldunni og í fjallahjólreiðar. Í dalnum er að finna Sellaronda, eina fallegustu hjólaleið í Evrópu. Saman getur fjölskyldan notið þess að skoða kastala eða fengið sér máltíð í svokölluðu fjalla-rifugio, sem eru fjallakofar staðsettir á tindum í kringum dalinn. Tindar sem eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Hvar á að gista:

Hægt er að finna allt frá fimm stjörnu hótelum til notalegra gistiheimila, sem bjóða upp á lægra verð og meiri þægindi fyrir fjölskyldur. Travel and Leisure mælir með Gardena Grödnerhof, en á hótelinu er starfandi krakkaklúbbur, kvikmyndahús og klifurveggur. 

Í Val Gardena dalnum er að finna eina fallegustu hjólaleið …
Í Val Gardena dalnum er að finna eina fallegustu hjólaleið í Evrópu. Daniel J. Schwarz/Unsplash

Comporta í Portúgal

Comporta er lítill brimbrettabær með afslappað andrúmsloft. Bærinn er í um 1,5 klukkustunda fjarlægð frá höfðuborginni Lissabon. Á ströndinni er boðið upp á brimbrettakennslu fyrir börn og fullorðna. Í Sado Estuary-friðlandinu er að finna m.a. flamingóa, storka og höfrunga. Degi í bænum Melides gæti verið vel varið. Torgið í miðbænum er heillandi, hægt er að fá sér ís á Anguilla Surf Cafe og fara á Galé-ströndina. 

Hvar á að gista:

Mælt er með dvöl á Quinta da Comporta hótelinu þar sem útsýnið nær yfir breiður af ökrum. Á hótelinu er hægt að fara í jóga, spa, sund og leigja reiðhjól. Hótelið hefur hlotið fjöldann allan af viðurkenningum.

Portúgal kallar.
Portúgal kallar. Ben Hickingbotham/Unsplash

Tæmandi lista er að finna á vefsíðu Travel and Leisure.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert