Uppáhalds minningin varð til vegna misskilnings

Ungmennin skemmtu sér vel í ferðunum og heimsóttu fjölda landa.
Ungmennin skemmtu sér vel í ferðunum og heimsóttu fjölda landa. Ljósmynd/Aðsend

Ungmenni fædd árið 2006 geta nú sent umsókn í ferðahappdrætti Erasmus+ Discover EU, sem veitir fólki tækifæri til að ferðast um Evrópu í lest. Ísland fær í sinn hlut 50 miða en þeir sem dregnir verða út í happdrættinu fá flug til og frá meginlandinu.

Hægt er að sækja um til klukkan 10 þann 16. október. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Landskrifstofu Erasmus.

„Markmið DiscoverEU er að opna Evrópu fyrir 18 ára ungmennum til að þau fái tækifæri til kynnast menningararfleifð, sögu og fólki álfunnar. Hægt er að nota lestarpassann nánast ótakmarkað á lestarteinum í Evrópu en passinn gildir í 30 daga á 15 mánaða tímabili,“ segir í tilkynningunni.

Áskorun að skipuleggja

Um hundrað íslensk ungmenni hafa á hverju ári ferðast fyrir tilstuðlan happdrættisins frá því að Ísland tók fyrst þátt í verkefninu árið 2022.

Róbert Smári og vinur hans.
Róbert Smári og vinur hans. Ljósmynd/Aðsend

Þar á meðal er Róbert Smári Georgsson sem ferðaðist með besta vini sínum. Fóru þeir meðal annars á rapphátíðina Rolling Loud sem haldin var skammt frá Vín í Austurríki.

Í tilkynningunni segir að Róbert hafi skemmt sér konunglega með vini sínum.

Mesta áskorunin hafi falist í því að skipuleggja „allt sjálfir“ en það hafi á endanum verið lærdómsríkt.

Áttu að taka kláf

Vinkonurnar Vala og Helena ferðuðust einnig um Evrópu fyrir tilstuðlan happdrættisins.

Þær heimsóttu Þýskaland, Tékkland, Austurríki, Slóvakíu, Ungverjaland, Slóveníu og enduðu á Ítalíu. Þeir staðir sem voru í eftirlæti hjá Völu voru Bled í Slóveníu og borgirnar Prag og Flórens.

Uppáhalds minningin þeirra var fjallganga á fjallinu Wendelstein í Þýskalandi, sem samkvæmt upplýsingum sem þær fengu átti að vera auðveld og þægileg. Umhverfið var vissulega fallegt en á leið upp fjallið tóku þær eftir því að þær sáu einungis aðra ferðalanga á leið niður.

„Loksins komumst við á toppinn og þá föttum við að allir voru að taka kláf upp og taka svo gönguna niður á meðan við vorum að puðast við að ganga upp fjallið!“

Vinkonurnar heimsóttu Þýskaland, Tékkland, Austurríki, Slóvakíu, Ungverjaland, Slóveníu og enduðu …
Vinkonurnar heimsóttu Þýskaland, Tékkland, Austurríki, Slóvakíu, Ungverjaland, Slóveníu og enduðu á Ítalíu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert