Eiginkonan svaf hjá öðrum á ferðalögum

Framhjáhald getur eyðilagt sambönd.
Framhjáhald getur eyðilagt sambönd. Ljósmynd/Colourbox

Karlmaður leitar ráða hjá ráðgjafa The Times. Kona hans til þrjátíu ára hefur verið honum ótrú.

Við hjónin höfum átt sterkt og gott samband í þrjátíu ár. Hún fór í ferðalag og ég studdi hana. Ég bókaði hótel og við vorum í stöðugum samskiptum á meðan. Þegar hún kom til baka úr ferðalaginu komst ég að því að hún hafði átt elskhuga á meðan á ferðalaginu stóð. Ég varð mjög reiður og fór á stjá. Þá komst ég að því að hún hafði líka sofið hjá stjúpbróður mínum nokkrum sinnum síðustu áratugina. 

Þetta var fyrir tveimur árum og ég er enn að glíma við þessi svik. Þetta er lifandi martröð. Ég get ekki hætt að hugsa um þetta. Ég elska hana og get ekki ímyndað mér líf án hennar. Mér óar við að þurfa að byrja upp á nýtt. Hún er hins vegar praktísk og finnst lífð stutt. Hún vill ekki hætta saman en mun samt spjara sig ágætlega án mín. En hvernig manneskja heldur við stjúpbróður manns síns? Hvernig jafna ég mig á þessu?

Svar ráðgjafans:

Þó að liðin séu tvö ár þá er samt enn mikið fyrir þig að vinna úr. Framhjáhöld og óvissa geta valdið áföllum sem mikilvægt er að takast á við.

Þú finnur til óöryggis í sambandinu. Þú vilt einkvæni en veist ekki lengur um afstöðu maka þíns til þess. Það öryggi sem þú bjóst við er nú kannski ekki til staðar og býr til ákveðin vandamál sem þú valdir þér ekki að þurfa að kljást við.

Þú getur annað hvort verið eða farið. Þú þarft að ákveða hvort það sé skárra að vera í sambandi þar sem þú nærð kannski aldrei að vinna þig úr martröðinni sem þú lýsir eða að taka stökkið út í hið óvænta.

Áfallastreituröskun eftir framhjáhald

Rannsóknir hafa sýnt að um 60% þeirra sem hafa upplifað svik og framhjáhöld finna fyrir kvíða og þunglyndi. Það að þú getir ekki hætt að hugsa um þetta bendir til þess að þú sért í áfalli og fréttirnar um stjúpbróður þinn gerði áfallið sérstaklega slæmt. Kannski er hægt að réttlæta merkingarlaus „fling“ í sumarfríi en hitt er eitthvað allt annað.

Ég álít að þú sért að glíma við áfallastreituröskun. Fyrir fólk í þinni stöðu þá er gjarnan talað um „post-infidelity stress disorder“ og eru einkennin sambærileg fyrir áfallastreituröskun eins og kvíði, ágengar hugsanir, tilfinningarót, svefnleysi, minni matarlyst og skortur á einbeitingu. Þessi einkenni geta varað árum saman. Gott er að þú leitir þér faglegrar aðstoðar vegna áfallsins. 

Hægt að vera einmana í hjónabandi

Þið hjónin þurfið líka að eiga hreinskilið og opinskátt samtal um það sem gerðist og hvort þetta gæti gerst aftur. Hver er hennar sýn á hjónabandið? Vill hún opna það? Vilt þú það?

Ef þú ákveður að yfirgefa hjónabandið þá þarftu að geta horft fram á við. Sársaukinn verður til staðar en þú þarft að velja að lifa með sársaukanum á uppbyggilegan hátt. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þú komist yfir svikin að fullu. Ekki gera þér óraunhæfar kröfur. En þú þarft að velja að láta þetta ekki sliga þig.

Þá er gott að muna að þó að það hræði þig að enda einn þá getur maður líka verið mjög einmana í hjónabandi. Það er ekki betra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert