Hótelinu var líkt við líkhús en nýtur nú vinsælda

Nine-hours svefntilraunahótelið í Japan.
Nine-hours svefntilraunahótelið í Japan. Alec Favale/Unsplash

Fyrsta „hylkjahótel“ heims var stofnað í Osaka í Japan árið 1979 og var því líkt við líkhús. Með löngum röðum svefnhylkja sem hvert og eitt geymdi sofandi manneskju. Upphaflega hannað fyrir t.d. viðskiptamenn sem skutust á hótelið til að fá svefn eftir langan vinnudag í stað þess að ferðast langa vegalengd heim til sín. 

Þannig gátu þeir vaknað morguninn eftir og farið beint til vinnu. 

Hugmyndin breiddist fljótt út og fóru forvitnir ferðamenn að sækjast í ódýrari möguleika og gistirými sem voru svipuð að stærð og eins manns rúm. 

Á vef BBC má finna alls átta hylkjahótel sem talin eru vera þau ótrúlegustu í heimi. Hér eru talin upp fjögur þeirra: 

Svefntilraunastofa

Nine-hours keðjan í Japan samanstendur af 13 hótelum vítt og breytt um landið, allt frá Fukoka í vestri til eyjunnar Hokkaido í norð-austur hlutanum. Hótelið sem er einskonar tilraunastofa býður gestum upp á svefnrannsóknir þar sem skynjarar mæla allt frá öndun og andlitssvip yfir í hjartsláttartíðni og kæfisvefn. Þá er einnig hægt að fylgjast með hrotum.

Í takt við hugmyndafræði hótelsins er svefnaðstaðan í klínískum stíl, með sléttum og glansandi svefnbelgjum sem gætu minnt á tökustað fyrir kvikmynd með vísindaskáldskapar þema.

Svefnrými í klettunum

Nótt í gegnsæjum svefnbelg sem loðir við klettavegginn fyrir ofan Helga-dalinn í Perú er ekki beinlínis hugmynd fyrir afslappandi dvöl. Fyrir adrenalínfíklana gæti þetta aftur á móti verið ákjósanleg gistiaðstaða. 

Um 400 metra klifur lóðrétt upp klettavegginn er eina leiðin til að komast í hinar svokölluðu Skylodge Adventure Suites, en reynsla í klifri er ekki nauðsynleg. Heldur þarf að vera við góða heilsu og lofthræðsla er vitaskuld ekki inni í myndinni. 

Að ganga til hvílu í náttúrunni

Free Spirit Spheres í Vancouver í Kanada eru kúlur sem hengdar eru upp á milli barrtrjánna líkt og risastórar jólakúlur. Því er líkt og gestir dingli í lausu lofti á meðan sofið er í þessu framandi gistirými. 

Kúlurnar, sem eru alls þrjár, eru búnar hjónarúmi, borðkrók og vaski. Aðgangur að hverri kúlu er leið upp hringstiga sem vafinn er utan um tré. Lögun gistirýmanna gera það að verkum að innréttingar þurfa sérhönnun og eru húsgögnin m.a. úr valhnetum og hurðarhúnar úr bronsi. 

Sagði einhver innilokunarkennd?

Í Oud Zuid, einu glæsilegasta hverfi Amsterdam, greiða ferðamenn fyrir að fá að sofa í skáp. Hið sérkennilega hótel De Bedstee byggir á aldagamalli hefð hollenska rúmsins (box bed), rúm sem falið er á bakvið skáphurð til að mynda notalegan svefnkrók.

Rauðar gardínur hylja gluggana á gistiskápunum og litlir viðarstigar liggja upp í svefnplássið fyrir ofan. 

Tæmandi lista má finna á vef BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert