Bestu skíðasvæðin í Evrópu

Sebastian Staines/Unsplash

Að finna hinn fullkomna áfangastað til skíðaiðkunar er líkt og að verða ástfanginn, eins og segir á vefsíðu Lonely Planet. Einhvers staðar í Evrópu bíður rétta skíðasvæðið eftir þér.

Eftirfarandi staðir eru sagðir fimm af bestu skíðabæjum Evrópu. 

Selva, Ítalía

Fyrir þá sem leita eftir lengstu skíðaleiðunum.

Hægt er að fara 40 kílómetra leið í Dólómítafjöllunum, þar sem hægt er að skíða milli svæða á aðeins einum passa. Ferðalag á milli fjallaskarða og ofan í dali, þar sem hægt er að vera dreginn áfram af hestum. 

Sumir tindar Dólómítafjallanna eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Theodor Vasile/Unsplash

St Anton, Austurríki

Skemmtilegasta „après ski“ sem hægt er að komast í.

Svæðið er þekkt fyrir stuð og stemningu og það er aldrei að vita nema skíðaiðkendur rekist á skeggjaða fjallagarpa, bera að ofan, dansandi uppi á borðum. Ímyndaðu þér fólk sem dansar eins og það sé árið 1999, við lagalista frá 1999. 

Gott ráð: Eftir langan dag í fjallinu má ekki gleyma hvar skíðin eru geymd því það gæti orðið erfitt að finna þau eftir allt fjörið.

Maarten Scheer/Unsplash

Crans Montana, Sviss

Tilvalið fyrir iðkendur í frjálsri aðferð (free-style).

Svæðið er vel þekkt sem heimili Bond-leikarans Roger Moore. Í Alaïa-garðinum er að finna afþreyingu á borð við trampólín, innandyra skautarampa, skautasvell og manngerða brimbrettalaug. 

Svæðið sem státar af alls 150 kílómetrum af brekkum er þekkt fyrir að hafa hýst Red Bull-leikana árið 2022.

Tim Arnold/Unsplash

Borovets, Búlgaría

Best fyrir budduna og fullkomið fyrir byrjendur.

Skíðasvæðið í Borovets er sigurvegari þegar kemur að lægra verði. Hægt er að fá skíðapassa fyrir um 43 evrur. Borovets er áfangastaður sem var enduruppgötvaður eftir kórónuveirufaraldurinn. Skíðasvæðið er í um klukkustunda fjarlægð frá flugvellinum í Sofíu, höfuðborg Búlgaríu. Það er um helmingi ódýrara að fara út að borða á kvöldin heldur en í fjallaskálunum í Frakklandi.

Megin markhópurinn eru byrjendur sem leita að hagstæðu verði. 

Antonia Chekrakchieva/Unsplash

Avoriaz, Frakkland

Þorpið sem fagurkerarnir elska.

Fjallaþorpið er ægifagurt og stendur á eins konar klettasvölum í um 1.800 metra hæð. Staðsetning þorpsins, þar sem það gnæfir yfir Morzine-dalinn, virðist nær ómöguleg. Rauðar sedrusviðarbyggingarnar, hver af annarri furðulegri, tóna vel við fjallið. 

Bærinn var byggður árið 1966 af þremur arkitektum með ákveðin umhverfissjónarmið í huga, löngu áður en sjálfbærni komst í tísku.

Svæðið er einnig talið snjómesti staður frönsku alpanna.

Adrien Tanic/Unsplash

Tæmandi lista er að finna á vefsíðu Lonely Planet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert