Nú býðst almenningi tækifæri á að upplifa Love Island umhverfið á eigin skinni en tvær lúxusvillur sem notaðar hafa verið sem tökustaðir þáttanna í sjöttu til elleftu seríu eru komnar í skammtímaleigu.
Raunveruleikaþættirnir Love Island hafa notið mikilla vinsælda á meðal heimsbyggðarinnar síðustu ár. Framleiðendur þáttanna segja áhorfið stigmagnast frá ári til árs og hafi það náð hámarki þegar síðustu þáttaseríu lauk sem var sú ellefta í röðinni. Alls fylgdust 3,4 milljónir með úrslitakvöldinu ef marka má tölur frá framleiðendum ITV.
Erlendu sumarhúsaleigurnar Ludus Magnus og Fincallorca bjóða upp á sitthvora villuna í útleigu sem staðsettar eru í Suður-Afríku og Mallorca. Villurnar virðast vera vinsæll kostur á meðal ferðalanga miðað við bókunarstöðu og lausar dagsetningar sem gefnar eru upp á vefsíðum beggja sumarhúsaleiganna. Enda þyrstir sennilega mörgum í að sleikja sólina í stórbrotnu umhverfi þar sem munaðurinn umlykur þig.
Svo má líka gera ráð fyrir að margir Love Island-aðdáendur þrái og dreymi um að skapa sín eigin ástarævintýri á framandi slóðum þar sem minningar um suðræna rómantík munu seint gleymast.
Þáttaseríur sjö og níu voru teknar upp í borginni Cape Town í Suður-Afríku. Þessi glæsilega lúxusvilla er vel staðsett þar sem framandi fjallgarður blasir við og fallegar vínekrur alltumlykjandi, hvert sem augað eygir. Þarna mun þig ekki skorta neitt. Villan er búin öllu sem því sem góðu sumarfríi sæmir. Þetta gæti verið svona „once in a lifetime“-upplifun svo nú er bara að finna lausar dagsetningar og byrja að hlakka til þessa ævintýris.
Þáttaseríur sjö, átta, tíu og ellefu voru teknar upp í bænum Sant Llorenc á Mallorca á Spáni í Villa Sa Vinyassa-lúxusvillunni. Útsýnið í kring er víðáttumikið og stórbrotið enda er villan staðsett uppi á hæð, umlukin gróðri og fallegu fjalllendi. Húsið er reist með spænskum stíl og er sérlega vel innréttað. Það er vel hægt að hugsa sér að njóta þess að vera til á þessum slóðum og eyða ófáum sólardögum á sundlaugarbakkanum í anda Love Island-stjarnanna.