Nú þegar Hrekkjavakan er á næsta leyti er ekki seinna vænna en að koma sér í dularfulla gírinn og lesa um allt það sem er óeðlilegt og yfirskilvitlegt.
Á Travel and Leisure lýsir James Barrett þegar hann ók eftir þjóðvegi 50, „einmanalegasta vegi Bandaríkjanna“, á leið sinni til smábæjarins Eureka í Nevada. Hann hafði bókað svítu á hótelinu The Jackson House.
Eftir blómaskeið silfursins árin 1859-1893 varð algjör hnignun í eftirspurn eftir málminum og námugröftur á svæðinu lagðist niður, sem gerði Eureka að hálfgerðum draugabæ snemma á 20. öld. Í bænum eru aðeins 315 íbúar þar sem áður bjuggu um 20.000 manns.
Það sem blasir við eru byggingar og verslanir í niðurníðslu.
Sagan segir að sumir fyrrum gesta The Jackson House hafi í raun aldrei yfirgefið hótelið og segjast kunnugis hafa séð þar „konu í rauðu“, kúreka og unga stúlku.
Flestir hótelgestanna eru ferðalangar sem leita í hið yfirskilvitlega, spennu og svo aftur þeir sem hafa áhuga á sögulegum arkitektúr.
Barrett gisti á Jackson-svítunni. Þegar hann gekk eftir herbergisganginum fann hann hvernig hræðslan heltók hann. Ekki datt honum til hugar að líta í speglana af ótta við að eitthvað annað, ekki af þessum heimi, birtist honum í spegilmyndinni.
Klukkan 2:30 um nóttina vaknaði Barrett við að einhver eða eitthvað hamaðist á hurðarhúninum. Það brakaði í gólfjölunum fyrir utan herbergið.
Þegar Barrett hafði safnað kjarki til að kíkja fram á ganginn var ljósið næst herbergi hans kveikt. Barrett togaði í spottann á ljósakrónunni og bauð hverju því sem kunni að hafa verið á ferli góða nótt.
Síðar komst hann að því að Jackson-svítan er sögð vera herbergið með mesta reimleikann.
Íbúi á staðnum sagði honum að gestir hótelsins hafi greint frá því að hafa vaknað um miðja nótt og upplifað sig læsta niður í rúmum sínum. Eitthvað hafi strokið andlit þeirra og jafnvel fætur, fiktað við rúmfötin en að svo hafi sængin verið dregin hægt af þeim.
„Konan í rauðu“ hafi oft sést á rápi um 2:30, farið út úr eldhúsinu og upp stigann á herbergisganginn.