„Fólk er alltaf að koma og fara“

Melkorka Sigríður Magnúsdóttir var í dansaranámi við P.A.R.T.S. í Brussel
Melkorka Sigríður Magnúsdóttir var í dansaranámi við P.A.R.T.S. í Brussel Ljósmynd/Marcus Getta

Melkorka Sigríður Magnúsdóttir er höfundur sýningarinnar Hverfa sem Íslenski dansflokkurinn fer með á stóra svið Borgarleikhússins þann 1. nóvember. Aðeins 17 ára flutti Melkorka til Amsterdam þar sem hún lærði danssmíði við SNDO. Eftir tveggja ára nám þar fór hún til Brussel í dansaranám við P.A.R.T.S. 

„Ég byrjaði eiginlega á öfugum enda,“ segir hún um námið og á við að algengara sé að fara fyrst í dansaranám og síðan í danssmíði.

Tímann í náminu segir Melkorka hafa verið afar skemmtilegan og að þar hafi verið samsuða af skapandi fólki. „Ekkert endilega bara af dönsurum, heldur blaðamönnum, hafgræðingum og fleirum með dansbakgrunn.“ 

Melkorka Sigríður Magnúsdóttir er höfundur sýningarinnar Hverfa sem fer á …
Melkorka Sigríður Magnúsdóttir er höfundur sýningarinnar Hverfa sem fer á svið í Borgarleikhúsinu 1. nóvember. Ljósmynd/Aðsend
Árni Rúnar Hlöðversson úr FM Belfast og Mellkorka eru saman …
Árni Rúnar Hlöðversson úr FM Belfast og Mellkorka eru saman í dúóinu Milkywhales. Ljósmynd/Aðsend

Gott teymi semur vel saman

Melkorka starfar náið með Árna Rúnari Hlöðverssyni, sem er þekktur fyrir að vera í hljómsveitinni FM Belfast, en saman mynda þau teymið Milkywhale. Árni semur tónlistina við sýningar Melkorku en saman mynda þau einnig poppdúett.

Þau hafa verið að skoða hvort hægt sé að semja dansrútínu við tónleika. Þau áttu t.a.m dansverk sem var upphaflega sýnt á sviði í Tjarnarbíói en endaði uppi á sviði á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku. 

Sýning Milkywhales á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku.
Sýning Milkywhales á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku. Ljósmynd/Aðsend

„Við skoðum öðruvísi uppstillingar og leikum okkur svolítið með væntingar áhorfenda.“ 

Í verkinu Hverfa stíga tveir karlkyns dansarar saman á svið og segist hún hafa leikið sér með ranghverfuna þegar hún samdi verkið. Þemað er óður til alls þess sem er alltaf til staðar í leikhúsinu en áhorfendur taka aldrei eftir. 

„Til heiðurs fatarekkum, rafmagnssnúrum, hátölurum og skúringamoppunni.“

Úr danstíma í Brussel.
Úr danstíma í Brussel. Ljósmynd/Aðsend

Borgirnar tvær algjörar andstæður

Melkorka segir borgirnar Amsterdam og Brussel eiga það sameiginlegt að vera eins og strætóstoppistöð. „Fólk er alltaf að koma og fara.“

Hún segir að þær séu í sjálfu sér mjög ólíkar. „Allt er einhvern veginn á útopnu í Amsterdam.“ Þar sé allt svo aðgengilegt og blasi við. „En að búa þarna getur verið þreytandi.“

Brussel sé aftur öfugt við Amsterdam og ekki sé hægt að vita við hverju á að búast þegar sest er þar að. Þar er mikið skrifræði og margir diplómatar, enda ófáar Evrópustofnanir á svæðinu.

„En því lengur sem þú ert þarna því meira heillar umhverfið.“ 

Balletttími í Brussel.
Balletttími í Brussel. Ljósmynd/Aðsend

Dansaraheimurinn harður

Hvað varðar listina lýsir Melkorka borgunum sem allt öðrum heimi. „Í Amsterdam hef ég bæði séð verstu og bestu sýningar á ævinni,“ segir hún og bætir við að mikil gróska sé í listasenunni og umhverfið sé bæði skapandi og veiti innblástur.

Hins vegar sé dansmenningin stífari í Brussel. „Þar eru stærri dansflokkar, meira fjármagn og reglulegri sýningar. Allt öðruvísi andi.“

Dansaraheimurinn er harður í þessum borgum og samkeppnin mikil þar sem allt að 500-1000 dansarar sækja um einu og sömu stöðuna. 

Aðspurð um skemmtilega staði að heimsækja segir Melkorka eflaust margt hafa breyst eftir að hún átti heima þarna. Hún nefnir þó barinn L'Archiduc í miðbæ Brussel, heillandi kokteilbar af gamla skólanum.

„Þar fórum við í ófá skipti og mjög gaman að koma þarna. Þar úir og grúir af alls konar skrýtnum og skemmtilegum listatýpum.“ 

Teymið Milkywhales á sviði.
Teymið Milkywhales á sviði. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert