Tækifæri í Svíþjóð varð til þess að fjölskyldan flutti út

Göngu- og hjólamenningin heillar Hildi Erlu.
Göngu- og hjólamenningin heillar Hildi Erlu. Samsett mynd

Hildur Erla Gísladóttir ljósmyndari flutti ásamt fjölskyldu sinni til Stokkhólms þann 17. júní á síðasta ári. Nú nýtur hún þess að vera í fæðingarorlofi með nýfæddan son sinn. Fjölskyldan hefur verið á ferð og flugi undanfarin ár en þau voru ný flutt heim frá Bandaríkjunum þegar þau fengu tækifæri að flytja til Svíþjóðar. Hildur Erla fæddist sjálf í Svíþjóð og hafði alltaf dreymt um að flytja aftur.

„Ég flutti með dætrum mínum til að sameinast pabba þeirra sem hafði flutt nokkrum mánuðum áður vegna vinnu,“ segir Hildur Erla. „Maðurinn minn fékk atvinnutækifæri í Stokkhólmi og eftir miklar vangaveltur gátum við ekki annað en látið slag standa og flutt út. Þrátt fyrir að vera tiltölulega nýflutt heim frá Bandaríkjunum. Lífið maður.“

Hún segir veðurblíðuna hafi heillað sig við landið. „Það var dásamlegt að flytja yfir sumarið og lenda beint í sól og hita. Svo er það göngu- og hjólamenningin hér. Því þó svo að við eigum bíl þá notar maður hann allt öðruvísi og mikið minna en á Íslandi. Svo er ekki hægt að sleppa því að nefna hvað borgin er falleg, barnvæn, listræn, fjölbreytt og lifandi.“

Hildur Erla ásamt dætrum sínum.
Hildur Erla ásamt dætrum sínum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvaða hverfi er í uppáhaldi hjá þér?

„Hverfið okkar, Duvbo, sem er í um 15 mínútna fjarlægð frá miðbænum og fangaði hjörtu okkar allra í fjölskyldunni. En annars elska ég að vera í Vasastan. Södermalm og Östermalm eru með ólíkan en skemmtilegan sjarma sem ég mæli með að finna fyrir í næstu heimsókn. Þú finnur geggjuð kaffihús og veitingastaði í öllum hverfum.“

Áttu þér uppáhaldsveitingastað eða bar?

„Bar Nombre er geggjaður vínbar í Vasastan. Pom&Flora búa til bestu eggin og Café Volta er með yndislegasta starfsfólkið. STHLM Brunch Club, Cast Café, Mahalo, Nybrogatan 78, Lillebrors Bageri, La Neta, Ta'ameya, Basta, Meno Male, Stora Bageriet, ég gæti haldið svo lengi áfram,“ segir Hildur Erla. 

Þriðja barnið, drengur, bættist við fjölskylduna fyrir nokkrum vikum.
Þriðja barnið, drengur, bættist við fjölskylduna fyrir nokkrum vikum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Jólamarkaðirnir ómissandi að vetri til

Hún segir skemmtanalífið vera sér alveg ókunnugt enda hafa þau í nógu að snúast með þrjú lítil börn. „Ég gæti hins vegar sagt þér frá hinum fjölmörgu leikvöllum um alla borgina og þeir eru gríðarlega mikil skemmtun út af fyrir sig.“

Hvað er ómissandi að sjá?

„Að vetri til finnst mér ómissandi að finna jólamarkaði, jólahlaðborð og skauta í Kungsträgården. Fyrir þá sem elska að versla er það extra skemmtilegt þegar allt er á kafi í jólaskreytingum. Að vori og sumri til er ómissandi að hjóla um borgina, fara á ströndina, borða úti, hvort sem það er á veitingastað eða lautarferð í góðum garði, til dæmis Humlegården eða Djurgården. Fotografiska ljósmyndasafnið er æði og Gamla Stan er algjörlega ómissandi sem og að gæða sér á sænskum kjötbollum með tilheyrandi meðlæti á góðum veitingastað.“

Mikill munur er á Stokkhólmi á sumrin og veturna að hennar mati. „Á sumrin er allt svo lifandi og á veturna er öllu rólegra og ískalt. Draumadagur að sumri til myndi byrja á að drekka kaffibollann minn úti, fara á ströndina og vera þar að synda og leika fram eftir degi. Koma svo heim, grilla og vera frameftir kvöldi úti á palli í góðu spjalli. 

Þá væri minn draumavetrardagur að pakka saman góðu nesti, keyra út fyrir borgina, finna skemmtilegt göngusvæði og njóta dagsins í skóginum. Enda daginn á góðum mat, kveikja á arninum hér heima og spila frameftir kvöldi.“

Bakaríin eru frábær í Svíþjóð.
Bakaríin eru frábær í Svíþjóð. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ekki taka taxa“

Helstu túristagildrunar að hennar sögn eru Skansen og Gröna Lund. „Ég mæli eindregið með að hjóla bara lóðbeint í þær. Ekkert eðlilega skemmtilegir dagar að baki þar. Svo bara það klassíska; ekki taka taxa, taktu lestina.“

Kostir borgarinnar fyrir fjölskylduna er hversu barnvæn borgin er. „Ég elska að vera með börn í Stokkhólmi, þekki að vísu ekki annað en að vera með börn hér og bæti bara í barnahópinn. En borgin er svakalega barnvæn og það er alltaf eitthvað um að vera. Við dætur mínar höfum eytt ófáum stundum í Kulturhuset. Þar er stórt og æðislegt bókasafn, leikhús, uppákomur, verkstæði og hrikalega skemmtilegt „photobooth.“ Mælum með. Uppáhaldsleikvellina finnið þið svo í Vasaparken, Humlegården og Tornparken.“

Veðursældin í Svíþjóð kom fjölskyldunni á óvart.
Veðursældin í Svíþjóð kom fjölskyldunni á óvart. Ljósmynd/Úr einkasafni
Stokkhólmur er barnvæn, falleg, listræn, fjölbreytt og lifandi að mati …
Stokkhólmur er barnvæn, falleg, listræn, fjölbreytt og lifandi að mati Hildar Erlu. Ljósmynd/Úr einkasafni
Ofurgirnilegt bakkelsi.
Ofurgirnilegt bakkelsi. Ljósmynd/Úr einkasafni
Fjölskyldan á góðum sumardegi í Stokkhólmi.
Fjölskyldan á góðum sumardegi í Stokkhólmi. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka