Flestir þekkja eflaust stressið sem fylgir því að fara með þunga tösku út á flugvöll og engjast um í óvissu í röðinni um hvort hún sé undir leyfilegri þyngd.
Auðvitað er alltaf þægilegast að vera bara með léttan handfarangur og enga innritaða tösku en þannig geta og vilja ekki allir ferðast.
Það getur sparað kostnað og minnkað stress að vera undir þeirri þyngd sem flugfélögin leyfa. Hér eru nokkur gangleg ráð til að létta ferðatöskuna.
Ferðatöskur er hægt að fá í ýmsum stærðum og gerðum en það sem skiptir einna mestu máli er að þær séu ekki þungar. Fjárfestu í góðri millistærð af tösku úr léttu efni sem vegur ekki mikið meira en 2-3 kíló.
Gott er að íhuga hversu marga daga þú verður í burtu og veltu fyrir þér hverju þú ætlar að klæðast hvern dag. Þegar þú ert búinn að pakka, farðu þá yfir innihaldið og spáðu í hvaða hlutum þú myndir sleppa ef taskan væri of þung, taktu þá hluti úr töskunni því ef þú gætir verið án þeirra þá geturðu verið án þeirra.
Þegar kemur að því að pakka niður fötunum passaðu þá að velja flíkur sem hægt er að nota við mismunandi tilefni. Hafðu þrennt af hverju og veldu liti sem tóna saman. Þriggja hluta reglan virkar þannig að þú pakkar þremur flíkum að ofan t.d. svörtum og hvítum bol og einni ljósbrúnni skyrtu, gerir það sama þegar kemur að neðri hlutanum þá gæti verið sniðugt að taka t.d. svartar buxur, gallabuxur og eitt pils og svo eitthvað þrennt sem yfirflíkur, t.d. jakka eða þykka peysu. Með þessu er hægt að búa til margar mismunandi fatasamsetningar.
Alls ekki taka meira en þrenn pör af skóm, helst bara tvenn, eina íþróttaskó sem ganga líka spari og svo góða þægilega svarta skó sem henta við öll tækifæri. Reyndu að ferðast í þyngstu skónum, flugfélögin eru ekki farin að vigta skóna við innritun, alla vega ekki enn!
Pakkaðu fatnaði úr léttum efnum sem hægt er að nota á marga vegu. Fjölnota hlutir eins og gott sjal eða tréfill er alger snilld, því hægt er að nota bæði sem tréfil og golftreyjur, og jafnvel sem topp ef þú kannt að binda slæður og sjöl. Pasmínur eru frábærar og þær virka líka sem teppi í fluginu.
Notaðu pökkunarkubba sem er jafnvel er hægt að lofttæma. Pökkunarkubbar hjálpa líka til við skipulagið í töskunni og geta sparað tíma á áfangastað. Hægt er að flokka vel í kubbana og þeir gefa góða yfirsýn yfir hvað er í töskunni. Settu aukahluti eins og belti og sokka ofan í skóna, það sparar pláss en veldu fylgihlutina vel og út frá litasamsetningunni á fötunum. Góð leið, sérstaklega fyrir konur, er að taka 2-3 mismunandi hálsfestar með því þær geta breytt klæðaburðinum töluvert. Veldu eina klassíska handtösku til að vera með allan tímann og hafðu hana í lit sem hentar við allt og er í senn fín og praktísk.
Snyrtivörur og tæknibúnaður geta bætt mikilli þyngd við töskuna. Notaðu ferðastærðir eða settu kremin þín í minni ílát. Taktu með þér förðunarvörur sem hægt er að nota til margra hluta, t.d. er hægt að nota varalit sem kynnalit og sólarpúður sem augnskugga. Taktu ekki með of mörg raftæki, það eru góðir hárblásarar á flestum hótelum, taktu heldur með létt krullujárn eða sléttujárn. Margir taka fartölvuna með í ferðalagið en í dag er það ekki lengur nauðsynlegt þar sem flest er hægt að gera í gegnum símann.
Þá er ekkert annað eftir en að bóka ferð út í heim og byrja að pakka.
Góða ferð!