Stórglæsilegum endurbótum á Hótel Búðum lokið

Umhverfið í kringum Hótel Búðir þykir fallegt.
Umhverfið í kringum Hótel Búðir þykir fallegt.

Hótel Búðir á Snæfellsnesi er í uppáhaldi margra og hefur verið kallað eitt fegursta sveitahótel á Íslandi. Ráðist var í miklar endurbætur á hótelinu sem nú er lokið. Fleiri herbergjum var bætt við, þægindi og aðgengi aukin umtalsvert. Upprunalegur stíll og sögulegur karakter hótelsins er þó enn á sínum stað. 

„Við réðumst í þessar endurbætur til að bæta aðstöðu og þjónustu fyrir gesti og aðlaga hótelið nútímalegum kröfum, án þess þó að tapa sjarma og sérstöðu byggingarinnar,“ segir Weronika Ondycz, hótelstýra Hótels Búða í fréttatillkynningu. 

„Við bættum við nýjum herbergjum til að mæta aukinni eftirspurn. Þá voru almenningsrými hótelsins endurnýjuð, auk þess sem bæði matsölustaðurinn og barinn eru nú stærri og betri.“

Hótelið hefur alltaf þótt hlýlegt en nú hafa barinn og …
Hótelið hefur alltaf þótt hlýlegt en nú hafa barinn og veitingastaðurinn verið stækkaðir.

Hráefni úr heimabyggð

Maturinn á Búðum þykir einnig góður en yfirkokkur hótelsins er Mateusz Mielecki. Áherslan er ferskt hráefni frá bændum og sjómönnum í heimabyggð. Matseðillinn tekur breytingum í takt við árstíma. 

„Við notum það besta sem íslenskt hráefni hefur upp á að bjóða, á einfaldan hátt með stílhreinum brögðum,“ segir Þráinn Freyr Vigfússon, ráðgjafi veitingahússins á Hótel Búðum „Við fáum þorsk úr Ólafsvík, jurtir og salat frá Lágafelli, kartöflur og rófur frá Hraunsmúla, rækjur, skyr og smjör úr nálægum sveitum og auðvitað lamb.“

Hráefni matarins er úr heimabyggð.
Hráefni matarins er úr heimabyggð.

Hótelið brann til kaldra kola

Sögu Hótels Búða má rekja aftur til ársins 1945, þegar áttahagafélag Snæfellsness og Hnappadals festi kaup á gömlu íbúðarhúsi á Búðum í þeim tilgangi að starfrækja þar gistiheimili. Hótelið átti að vera „brottfluttum Snæfellingum sem og þeim sem enn bjuggu í sveitinni vettvangur til að hittast fjarri amstri hversdagsins,“ eins og segir í sögu Hótels Búða sem rituð var af Andrési Erlingssyni.

Margir þekktir Íslendingar vöndu komur sínar á hótelið á upphafsárum þess, en meðal þeirra má nefna nóbelsskáldið Halldór Laxness, en hann kom á hverju sumri um langt skeið og skrifaði. Einnig var Jóhannes Kjarval tíður gestur á Hótel Búðum, en hann málaði mikið í nágrenninu og kom reglulega á Búðir til þess að fá sér hressingu.

Ýmsir komu að rekstri Hótel Búða á síðari helmingi 20. aldar, en það var síðan kvöldið 21. febrúar 2001 sem hótelið brann til kaldra kola. Blessunarlega var hótelið mannlaust þegar eldurinn kom upp, en verið var að vinna að endurbótum. Þess í stað var nýtt hótel byggt frá grunni.

Nýja hótelið hóf rekstur árið 2002, en það var reist á sömu lóð. Leitast var við að það félli sem best að umhverfinu og þeirri ímynd sem Hótel Búðir höfðu þegar skapað sér.

Það er nóg að gera á Snæfellsnesi.
Það er nóg að gera á Snæfellsnesi.

Ný Nóvember-hefð?

Nú í nóvember verður haldin metnaðarfull tónleikaröð á Hótel Búðum, þar sem margt af ástsælasta tónlistarfólki þjóðarinnar leikur listir sínar fyrir hótelgesti. Í þessari fyrstu tónleikaröð koma fram þau Una Torfa, Helgi Björnsson, Stefán Hilmarsson, Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar, auk hljómsveitarinnar Hipsumhaps.

„Saga Hótel Búða er einstök og á sér sérstakan stað í hjörtum margra Íslendinga, sem hafa átt ógleymanlegar stundir þar í gegnum árin. Þó að Búðir hafi verið vettvangur ótal viðburða, þá höfum við aldrei haldið tónleikaröð eins og þá sem við nú kynnum,“ segir Anna Gréta Hafsteinsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Hótels Búða.

„Hótelgestir munu njóta frábærrar tónlistar frá hæfileikaríku tónlistarfólki, þriggja rétta kvöldverðar, gistingu í heillandi herbergi -  og svo morgunverðar daginn eftir. Auk þess verður hótelið fallega skreytt, sem skapar töfrandi upplifun þar sem tónlist, matur, gleði og afslöppun mætast. Gestir mega því eiga von á eftirminnilegum viðburði. Miðað við viðtökurnar, þá virðist sem við séum að móta nýja og ógleymanlega hefð á Hótel Búðum. Hver veit nema Búðir verða fastur punktur í dagskrá fólks á þessum árstíma um ókomin ár?“

Stórglæsilegt herbergi.
Stórglæsilegt herbergi.
Baðherbergin eru hlýleg og stílhrein.
Baðherbergin eru hlýleg og stílhrein.
Hótel Búðir er í uppáhaldi margra.
Hótel Búðir er í uppáhaldi margra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert