Kollafjarðarheiði (F66) á Vestfjörðum er 24,5 kílómetra leið, einungis fjórhjóladrifnum ökutækjum. Heiðin er merkt sem sérstaklega hættuleg leið inni á dangerousroads.org og sögð ekki vera fyrir lofthrædda.
Leiðin liggur frá botni Kollafjarðar á sunnanverðum Vestfjörðum yfir til Ísafjarðar (ekki kaupstaðarins heldur fjarðarins) í Ísafjarðardjúpi.
Heiðin er stórgrýtt og á leiðinni þarf að fara nokkrum sinnum yfir litlar ár og læki. Á einum stað er þverhnípi öðrum megin vegarins svo ekki má keyra of utarlega í kantinum, vilji viðkomandi ekki húrra fram af brúninni.
Þrátt fyrir stutta leið er alveg hægt að gera ráð fyrir um tveggja klukkustunda akstri um heiðina því svo torfær er hún og símasambandslaust er á köflum.
Á vef Vegagerðarinnar er leiðin merkt óþekkt og þar segir að ekkert sé um vetrarþjónustu.