Róm er að búa sig undir afmæli, eina sjaldgæfustu hátíð kaþólskrar trúar. Afmælið, einnig nefnt hið heilaga ár, á eftir að laða að gesti alls staðar að úr heiminum. Talið er að fjöldinn geti náð 35 milljónum manns, samkvæmt National Tourist Research Institute (ISNART).
Hátíðahöldin, þar sem hefð er fyrir að kaþólikkar komi saman til að biðja um fyrirgefningu, hafa verið haldin með misjöfnu millibili frá árinu 1300.
Að þessu sinni hefst hátíðin á aðfangadagskvöld þessa árs, með opnun hinna heilugu dyra á Péturskirkjunni, og mun enda á helgum degi 6. janúar 2026. Vænta má að pílagrímar leggi flestir leið sína í kirkjuna einhvern tímann á þessu tímabili.
Mælt er með að huga að bókunum vel fram í tímann, á hótelum og vinsælum ferðamannastöðum, sjái fólk fyrir sér að ferðast til Rómar á árinu 2025, annars er einnig hægt að bíða með ferðalag þangað.
Þá er mælt með að nýta vetrarmánuðina eins og janúar og febrúar og t.d. að sleppa því frekar að koma um páskana.
Það gæti orðið sérstaklega erfitt að fá þar gistingu en áætlað er að á ákveðnum tímapunktum muni þau 400.000 rúm sem í boði eru, á hótelum víðs vegar um borgina, ekki anna eftirspurn. Að auki getur verið að ferðamenn þurfi að greiða auka ferðamannaskatt á hverja nótt á þessu tímabili, eða allt frá tveimur evrum upp í tólf evrur nóttina.
Eitthvað er um að pílagrímar gisti á tjaldsvæðum utan borgarmarkanna eða í klaustrum.
Undirbúningur undir hátíðina hefur staðið í marga mánuði og falist m.a. í endurbyggingu og hreinsun á helstu minjum borgarinnar.
Annars hafa ferðaráðgjafar ekki of miklar áhyggjur og nefna dæmi um að á hinu helga ári 1600 hafi mannfjöldi í Róm aukist um þrjár milljónir manna, þegar bjuggu þar einungis 117.000 manns.