Gondólar eða „sandolo“ í Feneyjum, hver er munurinn?

Gondólarnir eru algengur ferðamáti í Feneyjum.
Gondólarnir eru algengur ferðamáti í Feneyjum. Kasia Derenda/Unsplash

Fornu bátarnir „sandolo“ hafa verið notaðir af íbúum Feneyja um aldaraðir. Þessir bátar komast á afskekktari staði í Feneyjum, þá staði sem feneysku róðrabátarnir eða kláfferjurnar „gondólar“ komast ekki.

Sandolo eru bátar með flötum botni og einskonar stálkrullu á stefninum, venjulega svartir á lit. Þeir hafa verið notaðir til að sigla um grunnan hluta Feneyjalónsins og einnig til að flytja fólk og vörur til meginlandsins.

Elstu heimildir um sandolo eru frá 1292. Bátarnir voru áður fyrr notaðir til veiða, auk þess að ferja fólk og byggingarefni um lónið. En bátarnir eru ekki eins íburðarmiklir og gondólarnir. Í gondólum stendur ræðarinn til hliðar en í sandolo stendur hann í miðjum bátnum, sem gerir það að verkum að þyngdardreifing í bátnum verður jafnari, hann kemst hraðar og hönnunin gerir sondolo kleift að bera þyngri byrðar með minni hættu á að velta. 

Venjulega er róið með einni ár á sandolo, líkt og á gondól, en einnig er hægt að róa með tveimur árum á þeim fyrrnefnda.

Eitthvað hefur sandolo fækkað þegar gondólum hefur fjölgað á lóninu og í dag eru einungis um tuttugu sandolo-ræðarar eftir í Feneyjum samanborið við um 430 gondóla-ræðara. Sandolo (sandoli í eintölu) eru forverar gondólanna og geta ferjað fólk á staði í Feneyjum þangað sem gondólarnir komast ekki. Það er því tilvalið að hafa það í huga næst þegar skroppið er til Feneyja.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert