„Fólk hefur spurt mig fáránlegra spurninga um Grímsey“

Unnur Birta Sævarsdóttir segir frá Grímsey í viðtali við Smartland.
Unnur Birta Sævarsdóttir segir frá Grímsey í viðtali við Smartland. Ljósmynd/Aðsend

Unnur Birta Sævarsdóttir er 23 ára nemandi á þriðja ári í uppeldis- og menntunarfræði í Háskóla Íslands. Hún ólst upp á Árskógssandi fyrir norðan, þar eru m.a. Bjórböðin og Bruggsmiðjan Kaldi. Unnur hefur haft annan fótinn í Grímsey síðan hún man eftir sér og segir frá eyjunni í viðtali við Smartland.

„Systir mömmu giftist manni frá Grímsey og hefur búið þar í meira en 25 ár og alið þar upp fimm börn,“ segir Unnur og þess vegna hafi hún farið mikið þangað í fríum og á sumrin. 

„Það var svolítið verið að senda börnin í fjölskyldunni til Grímseyjar í náttúruna.“ 

Í Grímsey er eini staðurinn á Íslandi sem hægt er …
Í Grímsey er eini staðurinn á Íslandi sem hægt er að stíga yfir heimskautsbauginn. Ljósmynd/Aðsend

Með annan fótinn í Grímsey frá æsku

Til Grímseyjar er þriggja klukkustunda sigling frá Dalvík. Þegar Unnur var að alast upp á Árskógssandi starfaði móðir hennar, Halla Ingólfsdóttir, sem kokkur á Grímseyjarferjunni Sæfara. Síðar tók faðir hennar við sem stýrimaður um borð og hefur tenging fjölskyldunnar við eyjuna því ætíð verið sterk. 

„Árið 2007 byrjaði mamma að vinna við ferðaþjónustu í Grímsey á sumrin, á gistiheimili.“ Segist Unnur hafa aðstoðað hana mikið.

Það var svo árið 2015 sem móðir hennar stofnaði eigin ferðaskrifstofu. „Henni fannst hún þurfa að búa til meiri afþreyingu og fleiri atvinnumöguleika á eyjunni og hana langaði einnig að verja meiri tíma þarna.“

Alls 63 eru með lögheimili í Grímsey og færri sem …
Alls 63 eru með lögheimili í Grímsey og færri sem búa þar árið um kring. Á sumrin fyllist eyjan af lífi. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækið, Arctic Trip, sérhæfir sig í leiðsögn um eyjuna og starfrækir einnig gistiheimilið Sveinsstaði. „Þannig að frá árinu 2015 fer ég að dvelja þarna yfir allt sumarið.“

Unnur hefur starfað á gistiheimilinu, við herbergisþrif og umsjá morgunmatsins. Hún hefur einnig tekið vaktir á veitingastaðnum Kríunni, þeim eina í Grímsey, sem móðursystir hennar rekur. „Þar er hægt að fá allt frá samlokum og hamborgurum yfir í lunda og svartfugl.“

Unnur var ekki aðeins í tveimur vinnum sem unglingur heldur aðstoðaði hún einnig útgerðina á staðnum við að stokka upp bala, eins og það kallast, þegar leyst er úr línunni fyrir línuveiðarbátana.

Svo þarna var hún aðeins 15 ára í þremur vinnum og hafði gaman af. „Þetta var mjög gefandi og þroskandi.“

Fuglalífið í eyjunni er „sjúklega mikið“, að sögn Unnar Birtu.
Fuglalífið í eyjunni er „sjúklega mikið“, að sögn Unnar Birtu. Ljósmynd/Aðsend

Eyjan hefur mikið aðdráttarafl

Í Grímsey er mikið fuglalíf og nokkuð ljóst að náttúran og dýralífið höfði til Unnar. „Við erum með sjúklega mikið af fuglum, t.d. langvíur, álkur, lunda, kríur, máva og minni fugla.“ Hún bætir við að eitt helsta aðdráttarafl eyjunnar sé fuglalífið og að reglulega komi stórir hópar af fuglaljósmyndurum sem dvelja þar í allt að viku í senn. 

Spurð um hvað eigi helst að skoða í Grímsey segir Unnur að alltaf sé vinsælt að heimsækja kirkjuna og kirkjugarðinn. Gamla kirkjan, sem brann, hafi verið ein helsta sönnun þess hve lengi hafi verið búið á eyjunni. Þar var hægt að sjá lista yfir alla prestana við kirkjuna frá upphafi.

„Það er líka mikið af fólki sem kemur til að stíga yfir heimskautsbauginn,“ segir Unnur. Heimskautsbaugurinn (Arctic Circle) sker þvert í gegnum eyjuna frá vestri til austurs um norðurhluta hennar og er eini staðurinn á Íslandi þar sem hægt er að stíga yfir hann.

Ef áhugi er á að fara til Grímseyjar er best að fara þangað að sumri til, segir Unnur, því þá er mesta lífið. Hún mælir með að bóka einhvers konar leiðsögn. „Það kemur svo mikið fram um sögu eyjunnar í gegnum leiðsögn.“

Hægt er að fara í dagsferð með leiðsögn en ferjan siglir einu sinni á dag, fimm daga vikunnar á sumrin, til Grímseyjar og stoppar þar í fimm klukkustundir.    

Grímseyjarkirkja sem fuðraði upp í stórbruna fyrir þremur árum. Nú …
Grímseyjarkirkja sem fuðraði upp í stórbruna fyrir þremur árum. Nú hefur verið byggð ný kirkja sem er mikið aðdráttarafl. Ljósmynd/Aðsend

Í Grímsey er lítil verslun þar sem allt fæst milli himins og jarðar, að sögn Unnar. Þar er einnig lítið gallerí sem selur mikið af vörum búnum til af íbúum eyjunnar. „Þannig er hægt að styðja við heimamenn.“

Auk þess sé náttúran og fuglalífið eitthvað sem fólk verði að upplifa og hægt sé að bóka siglingu í kringum eyjuna.  

Þrátt fyrir dálæti sitt á eyjunni er Unnur ekki viss um að hún gæti búið þar í framtíðinni með manni og börnum því grunnskólanum var lokað tímabundið árið 2019. Þar er heldur enginn leikskóli.

„Skólinn var bara upp í 7. bekk svo fjölskyldur fluttu með fjölskylduna í land þegar börnin urðu eldri og þannig fækkaði börnum smám saman á eyjunni.“

Það er innisundlaug í Grímsey.
Það er innisundlaug í Grímsey. Ljósmynd/Aðsend
Unnur Birta unir sér vel í náttúrunni í Grímsey.
Unnur Birta unir sér vel í náttúrunni í Grímsey. Ljósmynd/Aðsend

Gerði TikTok-myndband með 200 þúsund áhorf

„Það þekkjast allir. Einungis 63 eru með lögheimili í Grímsey og aðeins færri búa þar árið um kring. Íbúafjöldinn rýkur auðvitað upp á hverju sumri þegar fjölskyldur koma heim og menn koma til þess að veiða í kringum eyjuna.“ 

Spurð um hvernig hafi verið að dvelja í Grímsey sem unglingur og vilja stunda félagslíf segir Unnur það hafa verið afar skemmtilegt.

„Stundum tók ég mér helgarfrí og fór til Akureyrar. Systir mömmu á tvær stelpur á mínum aldri og ég var mikið með þeim. Þegar margir krakkar eru í Grímsey þá erum við alveg dugleg að hittast og spila og svona. Við fórum mikið í fótbolta og kveiktum stundum brennu úti í fjöru.“

Unnur hefur fengið mikið af fyrirspurnum varðandi lífið í eyjunni og hvað hún geri sér til dægrastyttingar utan vinnu. Hún svarar því iðulega að hún geri nákvæmlega það sama og fólk í höfuðborginni, fer í ræktina, horfir á Netflix, skellir sér í sund o.s.frv.

Stórbrotið landslag á eyjunni.
Stórbrotið landslag á eyjunni. Ljósmynd/Aðsend

„Fólk verður alltaf jafn hissa því það heldur að það sé ekkert að gera þarna.“

En svo dettur allt í dúnalogn og þá er um að gera að kunna að redda sér. „T.d. seinasta sumar fór ég út með myndavélina klukkan ellefu á kvöldin og tók myndir í allt að þrjá klukkutíma, bara af einhverju. Manni þarf að kunna að leiðast og að finna sér eitthvað til dundurs.“

Vegna fjölda margra „fáránlegra“ spurninga um Grímsey gerði Unnur TikTok-myndband sem hefur fengið nær 200 þúsund áhorf. Spurningar á borð við hvort allir í eyjunni þekkist og hvort þar sé netsamband hafi kveikt hugmyndina að myndbandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert