Rannveig Bjarnadóttir elti ástina til Þýskalands fyrir tveimur árum síðan og sér ekki eftir þeirri ákvörðun í dag. Hún er búsett í Magdeburg og algjörlega elskar lífið í hinni fögru og sögufrægu borg. Þar býr hún ásamt kærasta sínum, handknattleiksmanninum Gísla Þorgeiri Kristjánssyni, sem flestir landsmenn þekkja, enda lykilmaður í íslenska karlalandsliðinu í handbolta og SC Magdeburg.
Rannveig er eldklár, metnaðarfull og afar ævintýragjörn og vissi snemma að hún vildi sjá heiminn og mennta sig erlendis. Hún leggur stund á MBA-nám við Humboldt Universität zu Berlin og leggur sig fram um að læra þýsku, en til að ná betra valdi á tungumálinu er hún einnig í fjarnámi í þýsku við Háskóla Íslands.
Hvað varð til þess að þú fluttir erlendis?
„Já, það er nú einfalt að svara því. Ég elti kærastann minn til Þýskalands, hann spilar með SC Magdeburg þar í landi. Ég vissi að mig langaði, á einhverjum tímapunkti, að prófa að upplifa útlandið. Það var því upplagt að elta ástina út þegar þetta tækifæri kom upp í hendurnar á mér. Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið.“
Hvernig lýsir þú borginni?
„Magdeburg er dásamleg borg. Fólkið er mjög vinalegt og lætur manni líða eins og maður sé staddur í sínu heimalandi. Magdeburg er græn borg, blómleg, skemmtileg og rík af sögu. Hér er margt að sjá og gera. Borgin er í tveggja klukkstunda fjarlægð frá Berlín, en þangað ferðast ég regulega vegna náms. Ég elska Berlín.“
Hvað hefur komið þér mest á óvart?
„Örugglega bara það að lífið er stærra en á litla Íslandi. Maður mætir svolítið einn á stóra meginlandið og veit ómögulega við hverju maður á að búast. En ætli það hafi ekki komið mér einna mest á óvart hvað maður nær á endanum, á einhvern ótrúlegan hátt, að redda sér og halda áfram sama hvað. Eins og Íslendingar segja: „Þetta reddast“.“
Varstu fljót að aðlagast lífinu á nýjum stað?
„Já, ég myndi segja það.
Það var auðvitað erfitt að kveðja foreldra mína og vini en ég vissi að spennandi, krefjandi og ævintýralegir tímar væru fram undan. Ég hef kynnst góðu fólki og eignast góðar vinkonur. Ég er mjög lánsöm.”
Hvaða hverfi eru í uppáhaldi hjá þér?
„Af þessum tveimur heimaborgum mínum í Þýskalandi, Magdeburg og Berlín, þá er það Berlin Mitte, án efa. Ég elska ekkert meira en að eyða deginum mínum þar. Berlin Mitte er æðislegt hverfi sem býr yfir mikilli sögu. Þar er einnig að finna skemmtilegar búðargötur og gott kaffi.”
Hvernig er skemmtanalífið í borginni?
„Almennt er það nú frekar rólegt í Magdeburg en það er mjög líflegt og skemmtilegt í Berlín. Það er æðislega gaman að setjast inn á góðan veitingastað, slaka á með góðan drykk og fylgjast með mannlífinu.”
Hvað er ómissandi að sjá?
„Ég myndi segja að Magdeburg komi alveg skemmtilega á óvart, hún er mjög falleg. Það er ómissandi að heimsækja Dómkirkjuna, henni fylgir ótrúlega saga. Madgeburg hefur þrisvar, í gegnum söguna, verið gjöreyðilögð, en á einhvern ótrúlegan máta hefur Dómkirkjan staðist tímans tönn og stendur í dag sem tákn um seiglu og styrk borgarinnar.”
Hvernig er draumadagurinn þinn?
„Draumadagurinn minn væri einfaldlega að hafa bara voðalega lítið fyrir stafni og leyfa deginum að koma til mín. Ég elska að vísu að vakna snemma, helst áður en það fer að birta, og skella mér á æfingu. Á líkamsræktarstöðinni minni er skemmtileg hefð fyrir okkur morgunhanana, en eftir púlið setjast allir niður með ljúffengan kaffibolla og spjalla saman, það er mjög góð leið fyrir mig til þess að bæta þýskukunnáttu mína.
Eftir æfingu myndi ég örugglega halda heim á leið, slaka aðeins á og fara svo á uppáhalds kaffihús okkar Gísla sem heitir Thies wohnen und leben. Það er eitt það skemmtilegasta sem við gerum saman, drekka gott kaffi, tala saman og fara yfir málin. Svo tökum við yfirleitt góðan göngutúr í kjölfarið.
Þegar kvölda tekur er alltaf ljúft að koma heim, fara upp í sófa og horfa á skemmtilega mynd, eins og You've Got Mail, sem er ein af uppáhalds kvikmyndunum mínum, á meðan Gísli eldar mat.“
Áttu þér uppáhalds kaffihús og eða veitingastað?
„Já! Í Magdeburg er það Thies wohnen und leben og í Berlín er það örugglega á milli Father Carpender og Five Elephant. Ég mæli hiklaust með að prófa þá ef fólk er á leiðinni til Berlínar.”
Hvernig eyðirðu helgunum yfirleitt?
„Svona þessa dagana geri ég lítið annað en að læra en annars eru yfirleitt leikir hjá liðinu hans Gísla á sunnudögum sem ég kíki alltaf á. Sumar helgar erum við vinkonurnar búnar að plana hitting og förum stundum út á lífið, lyftum okkur aðeins upp. Ef að Gísli á helgarfrí þá förum við hiklaust eitthvað, oftast yfir til Berlínar.”
Ertu dugleg að ferðast um Þýskaland?
„Já, ég hef verið mjög dugleg að ferðast um Þýskalands og heimsótt flestar stórborgirnar. Það hefur auðvitað hjálpað að liðið hans Gísla hefur verið að komast mikið í úrslitakeppnir í handboltanum sem eru haldnar í Köln eða Hamborg. Við Gísli eyddum einnig tíma í Lemgo þegar hann fór þangað í uppbyggingarfasa eftir aðgerð. Þaðan ferðuðumst við til Bielefeld sem var mjög skemmtilegt.
Svo er Magdeburg staðsett frekar miðsvæðis í Þýskalandi sem gerir okkur auðvelt að ferðast víða. Við fórum meðal annars til München í ágúst og sáum Adele, eða ég dró Gísla með mér á tónleikana.”
Er komin mikil jólastemning?
„Ó já, heldur betur. Ég er mikið jólabarn, hef alltaf verið, og komst í jólagírinn 1. nóvember. Jólamarkaðirnir hér eru komnir á fullt og við búum aðeins í fimm mínútna fjarlægð frá stærsta jólamarkaði í Magdeburg. Það er yndislegt að ganga þar um, finna jólalyktina og fylgjast með fólki spjalla saman yfir góðum bolla af Glühwein.”
Hvar ætlarðu að verja jólunum?
„Í Þýskalandi. Ég er eiginlega tilneydd til þess vegna þess að Gísli spilar leik á annan í jólum. Við ætlum að hafa það mjög huggulegt saman. Gísli ætlar að elda nauta Wellington og ég ætla að gera Ris a la Mande. Ég hugsa að þetta verði bara nokkuð kósí hjá okkur.”
Hyggstu flytja aftur heim?
„Já, ég og Gísli stefnum nú á það. Þegar handboltaferlinum hans lýkur hér úti þá þykir mér afar líklegt að leiðin haldi heim til Íslands. Ef við verðum heppin að verða foreldrar þá viljum við vera aðeins nær fjölskyldum okkar. En hvað veit maður, ætli tíminn verði ekki bara að leiða það í ljós.”