Brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll voru um 35 þúsund í nóvember, það eru um tíu þúsund færri en á sama tímabili í fyrra, eða 22,1% fækkun. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Ferðamálastofu.
Það sem af er ári fóru Íslendingar utan um 557 þúsund sinnum og er það smávegis fækkun frá sama tíma 2023, eða 1,5%.
Í brottfaramælingum um Keflavíkurflugvöll eru farþegar flokkaðir eftir þjóðerni eins og það kemur fram í vegabréfi, bæði Íslendingar og útlendingar.
Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi, um Keflavíkurflugvöll, voru um 162 þúsund í nóvember. Það eru um fjórtán þúsund fleiri brottfarir en í nóvember árinu áður.
Bandaríkjamenn og Bretar voru stór hluti þeirra ferðamanna sem fór af landi brott um Keflavíkurflugvöll, eða 44,6%. Um ræðir 17,5% fleiri Bandaríkjamenn en á síðasta ári á meðan Bretum fækkaði um 9,3%.
Tæplega 2,1 milljónir erlendra farþega hafa farið frá Íslandi það sem af er ári, sem er 1,9% fjölgun frá sama tíma árið 2023 og alls 97,3% af brottförum sem mældust á sama tíma metárið 2018.