Söfnuðu ríflega þremur milljónum til styrktar Vildarbörnum

Sérstök útgáfa Vaðfuglsins var seld til styrktar Vildarbörnum Icelandair.
Sérstök útgáfa Vaðfuglsins var seld til styrktar Vildarbörnum Icelandair. Ljósmynd/Icelandair

Icelandair, Epal og hönnuðurinn Sigurjón Pálsson tóku höndum saman og framleiddu sérstaka útgáfu af hinum vinsæla Vaðfugli Sigurjóns í nýjum litum. Fuglinn var framleiddur í takmörkuðu upplagi og allur ágóðinn af seldum fuglum rann til styrktar Vildarbörnum Icelandair. Viðtökurnar voru afar góðar og hefur ágóðinn sem nam 3,35 milljónum króna verið afhentur Vildarbörnum Icelandair. 

„Við erum afar þakklát fyrir samstarfið við Epal og Sigurjón Pálsson og það er algjörlega frábært að sjá hversu góðar móttökur fuglinn fékk. Sjóður Vildarbarna Icelandair er fjármagnaður að miklu leyti með framlögum frá farþegum og félögum í Saga Club og það er einstaklega ánægjulegt þegar fyrirtæki og einstaklingar leggja sitt af mörkum til þess að gefa langveikum börnum og þeim sem búa við sérstakar aðstæður tækifæri til þess að fara í draumaferðina,“ segir Dóra Elín Atladóttir, forstöðumaður Vildarbarna Icelandair í fréttatilkynningu. 

Glæsilegir litir.
Glæsilegir litir.

Spói, stelkur og sendlingur 

Sigurjón Pálsson er íslenskur hönnuður og rithöfundur sem hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir hönnun og skrif. Vaðfuglarnir, sem eru hans hönnun, hafa notið mikilla vinsælda og verið seldir víða um heim. Fyrirmyndirnar sækir hann í hina ástsælu íslensku vaðfugla; spóa, stelk og sendling.

Í yfir 20 ár hefur Icelandair hjálpað langveikum börnum og þeim sem búa við sérstakar aðstæður að láta ferðadrauminn rætast í gegnum ferðasjóð Vildarbarna. Sjóðurinn er fjármagnaður með framlögum farþega Icelandair með kortagreiðslu eða afgangsmynt, með framlögum félaga í Saga Club í formi Vildarpunkta og stofnframlagi Icelandair með rausnarlegum stuðningi Sigurðar og Peggy Helgasonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert