Hefurðu horft á kvikmyndina The Holiday yfir hátíðirnar? Að minnsta kosti getur blaðamaður Euro News, Jen Marsden, séð fyrir sér að Jude Law birtist við útidyrnar á enska sveitabýlinu á meðan Kate Winslet uppgötvar snjalltæknina á höfðingjasetrinu í Hollywood.
Mardsen segir erfitt að ímynda sér, þegar hún horfir út um gluggann á gráan vetrarhimininn og linnulausa rigningu á heimili sínu í Skotlandi, að einhver frá veðursælla landi hefði áhuga á að skipta við hana um húsnæði í fríinu sínu.
Hún spyr einnig þeirrar spurningar hvort heimilisskipti hjálpi til við að opna hjörtu einstaklinga fyrir ókunnugum eða hvort það gerist einungis í Hollywood?
Heimilisskipti hafa verið til um langa hríð en voru hér áður aðeins fyrir mjög svo þröngan markhóp vegna þess að án allrar þjónustu og gæðatryggingar skiluðu síðurnar ekki þeirri upplifun sem fólk þurfti til að líða vel með að skipta út heimili sínu fyrir annað.
Síðan Kindred byrjaði í San Francisco fyrir fjórum árum hafa nú yfir 50.000 heimili verið skráð á síðuna, í 150 borgum í Evrópu og Norður-Ameríku.
Kindred er aðeins fyrir meðlimi og því er einungis hægt að skoða þau heimili sem í boði eru, sé heimili viðkomandi skráð á síðuna. Allt að 90% eigna á Kindred eru aðalíbúðir fólks en ekki fjárfestingareignir. Þannig er talið að meðlimir Kindred hafi samræmdan hvata og samkennd sem ekki finnist á öðrum sambærilegum.
Á síðunni eru viðhafðar leiðbeiningar og siðareglur sem meðlimum ber að fylgja. Séu þær einu sinni brotnar er viðkomandi gerður brottrækur.
Til að fá aðgang að síðunni þarf að framvísa skilríkjum og fá þau staðfest. Þá er boðið upp á samræmingu á þrifum fyrir og eftir dvöl, sólarhringsaðstoð við móttöku og alhliða gestagjafa- og ferðavernd.
Á síðunni er hægt að finna heimili á týpískum ferðamannastöðum eins og í París, Amsterdam og London, en þar eru einnig óvenjulegri staðir að ferðast á eins og Novi Ligure á Ítalíu, Graz í Austurríki eða Tallinn í Eistlandi. Þá er hægt að finna sumarhús í Braga í Portúgal, timburhús í Figeholm í Svíþjóð og nútímalegt sveitabýli í Andorra.
Heimilisskipti eru kjörinn vettvangur fyrir fjölskyldur, eftirlaunaþega og þá sem eru einfaldlega í leit að aðgengilegri og einstökum ferðalögum, enda hefur það færst töluvert í aukana að fjölskyldur bóki heimilisskipti.
Kindred heldur einnig persónulega viðburði og matarboð þar sem meðlimir geta komið saman og hitt hver annan. Það er allavega spurning um að taka með sér mistiltein í eitt slíkt boð, segir Mardsen að lokum.