„Draumastaðurinn minn er einmitt þessi dásamlegi bær“

Birna Katrín hefur ferðast til fjölda áfangastaða sem flugfreyja, en …
Birna Katrín hefur ferðast til fjölda áfangastaða sem flugfreyja, en bærinn Kragerø í Noregi á sérstakan stað í hjartanu. Samsett mynd/Aðsend

Flugfreyjan Birna Katrín Sigurðardóttir er hálf norsk og hálf íslensk og hefur farið vítt og breitt. Hún á sinn uppáhaldsstað, af öllum þeim sem hún hefur ferðast til, í smábænum Kragerø í suðaustur Noregi. Hún er gift Erlingi Hjaltested húsasmíðameistara og saman eiga þau Höllu Karí og Atla og sex barnabörn.

„Ég hef starfað sem flugfreyja hjá Icelandair í fjörutíu ár einmitt á þessu ári.“

Á myndinni eru þær systur Birna og Sunna Miriam að …
Á myndinni eru þær systur Birna og Sunna Miriam að fara saman í flug. Ljósmynd/Aðsend

Gimsteinn í suðaustur Noregi

„Draumastaðurinn minn er þessi dásamlegi bær sem heitir Kragerø og er sirka tvö hundruð kílómetra frá miðborg Óslóar. Hjartað tekur kipp í hvert skipti sem ég keyri inn í bæinn því hann ljómar svo undursamlega í sólinni.“ Bærinn sem Birna talar um er staðurinn þar sem móðir hennar, Karólína Eiríksdóttir (Karí), ólst upp á.

Birna skildi ekki fyrr en síðar af hverju móðir hennar hafði flust á brott og farið til Íslands, en þar hafi hernám Þjóðverja spilað stórt hlutverk.

„Bærinn tengist lítilli eyju með brú þar sem baðstaður og litlar götur birtast manni, ásamt rómantík, blómum og fegurð, hvert sem litið er. Kragerø er líka kallaður „kunstnerbyen“ eða listabærinn,“ bætir hún við en listmálarinn Edward Munch málaði mikið í bænum og þar er gata nefnd eftir honum og stytta sem stendur honum til heiðurs.

Bátarnir líða um sæinn í kringum eyjarnar og skerin við …
Bátarnir líða um sæinn í kringum eyjarnar og skerin við Kragerø. Ljósmynd/Aðsend

Birna segist oftast hafa búið hjá ömmu sinni og afa í litlu, rauðu og hvítu bakhúsi, rétt ofan við aðaltorgið. Í garðinum var stærðarinnar kirsuberjatré sem Birna og systur hennar höfðu unun af að klifra í og næla sér í kirsuber.

„Þarna áttum við hamingjuríka daga, yfirleitt í sól og sumaryl við sjóböð, að veiða krabba og í bátsferðum með frænda mínum sem átti stóran trébát sem tók tuttugu manns.“ Í minningunni blakti norski fáninn fallega við sjóinn á meðan móðir Birnu og móðursystur dekkuðu morgunverðarborð með köflóttum dúk, á dekkinu.

„Í boði var nýbakað franskbrauð og jarðarber með sykri, sem voru uppáhaldið. Sólin, saltið, litlu rauðu og hvítu timburhúsin kúrðu svo fallega á eyjunum og bátarnir við bryggjuna.“

Hér séð yfir Kragerø.
Hér séð yfir Kragerø. Ljósmynd/Aðsend
Mikið af Oslóarbúum hafa reist sér glæsihýsi í Kragerø og …
Mikið af Oslóarbúum hafa reist sér glæsihýsi í Kragerø og una sér við að sigla á milli eyjanna á sumrin. Ljósmynd/Aðsend

Íbúafjöldinn tvöfaldast á sumrin

Kragerø er byggður í hlíðum við skerjagarð sem telur um 495 eyjar og sker. Flest húsin í bænum eru gömul timburhús sem er vel viðhaldið. Bærinn státar af þröngum strætum, gosbrunnum og tröppum: „Þar sem andi gömlu daganna svífur yfir vötnum,“ segir Birna.

Í Kragerø búa um tíu þúsund manns en á sumrin tvöfaldast íbúafjöldinn. Birna segir bæinn vera kallaðan „perlu Suðarlandsins“ og að það sé ekki að ástæðulausu.

Hún rifjar upp að bærinn hafi alltaf þótt fallegur en að vinsældir hans hafi aukist mjög í gegnum árin. Það er vinsælt meðal Oslóarbúa að byggja sér glæsihýsi á eyjunum og mæta í bæinn á hraðskreiðum bátum til að versla og „hygge seg“. Hún bætir við að bæjarbúum og sveitarstjórn hafi tekist að halda sem mest í sjarmann þótt byggðin hafi stækkað. 

Fjölskyldan við brennu í Kragerø.
Fjölskyldan við brennu í Kragerø. Ljósmynd/Aðsend

„Stór og löng eyja sem heitir Jomfruland eða Jómfrúareyja rammar inn skerjagarðinn og er yndislegt að fara í dagsferð þangað með ferju, sem tekur um fimmtíu mínútur, og fara á kaffihús með aflíðandi strendur öðrum megin en öldugang og steinaströnd hinum megin.“

Í miðbæ Kragerø er torg þar sem íbúar hittast á laugardögum og alla jafna er rölt eftir gönguleið sem er eins og einn góður hringur í kringum bæinn.

„Annað torg sem heitir Lilletorvet er við litla trébrú og þar iðar allt af smábátum, litlum sætum búðum og galleríum. Frænka mín rekur þar vinsæla fataverslun sem heitir Lise-Anns og hún er með flotta merkjavöru og vinsældir búðarinnar eru miklar.“

„Stór og löng eyja sem heitir Jomfruland eða Jómfrúareyja rammar …
„Stór og löng eyja sem heitir Jomfruland eða Jómfrúareyja rammar inn skerjagarðinn og er yndislegt að fara í dagsferð þangað með ferju, sem tekur um fimmtíu mínútur, og fara á kaffihús með aflíðandi strendur öðrum megin en öldugang og steinaströnd hinum megin.“ Ljósmynd/Aðsend
Birna segir Kragerø vera paradís líkast.
Birna segir Kragerø vera paradís líkast. Ljósmynd/Aðsend

Mikið um afþreyingu og himneska matarupplifun

Birna segir svo ótal margt hægt að gera, sjá og upplifa í Kragerø. Nálægt bænum er einn glæsilegasti golfvöllur í Noregi. Við golfvöllinn er hótelið Kragerø Resort, niðri við sjóinn er strandbar, sólbaðsaðstaða og huggulegur veitingastaður.

„Gunnarsholmen er lítill hólmi sem tengist bænum með flotbryggjur allt í kring.“ Þar er t.d. hægt að skoða gamlar fallbyssur úr stríðinu, skella sér í sund í kaldri útilaug og hægt að hoppa í sjóinn af klettunum.

Sjøbadet er annar baðstaður beint á móti og þar er einnig vinsælt að hoppa í sjóinn og fá sér sundsprett. Gangan að Sjøbadet er ævintýri líkust, að sögn Birnu.

Bærinn státar af þröngum strætum, gosbrunnum og tröppum: „Þar sem …
Bærinn státar af þröngum strætum, gosbrunnum og tröppum: „Þar sem andi gömlu daganna svífur yfir vötnum,“ segir Birna. Ljósmynd/Aðsend

Einfaldir hlutir á borð við að sitja á torginu og fylgjast með mannlífinu getur líka verið skemmtileg upplifun.

„Þá myndi ég næla mér í eina „skolebolle“ sem er mjög gott norskt bakkelsi, eins konar snúður þeirra Norðmanna. En best af öllu er Napoleonskaka. Ég mæli líka með að smakka norskar lefsur, sem líkjast tortillum en eru smurðar með smjöri og kanilsykri. Solo er mjög vinsæll gosdrykkur og Kvikk Lunsj súkkulaði með, þá er maður ekta Norðmaður.”

Birna mælir með ýmsum veitingastöðum og lætur vel af matnum. „Hos Gro er staður með ítölsku ívafi og stendur á skemmtilegum stað við Lilletorvet.“ Þá nefnir hún einnig El Paso, steikar- og hamborgarastað, kúrekastaður sem rekinn hefur verið í fimmtíu ár.

Hún segir ómissandi að kíkja á Haven restaurant & bar á Victoria-hótelinu, Smauet, lítinn og huggulegan stað í þröngri göngugötu og Stavelin bakeri, þar sem fást smurbrauð, kökur og annað góðgæti.

Ekki má gleyma að Norðmenn kunna vel að meta bjór og heimamenn fara helst á Stop en halv eða Jenseman Pub til að lyfta sér upp.

Spurð um verslanir segir Birna vera mikið um sætar og skemmtilegar búðir sem selji gæðavörur; bæði fatnað og gjafavöru. Hún mælir með antikbúð sem heitir Lilletorvet Antik og frændi hennar rekur. Búðin lætur lítið yfir sér en er líkust stærðarsafni þegar inn er komið.

„Það er gaman að segja að þessi frændi minn, Fredrik Brubakken, spilaði lengi með norska landsliðinu í handbolta og spilaði oft gegn landsliði Íslendinga. Hann hefði gaman af að spjalla um handbolta við landann.“

Birna ásamt eiginmanni sínum, Erlingi Hjaltested húsasmíðameistara, í Kragerø.
Birna ásamt eiginmanni sínum, Erlingi Hjaltested húsasmíðameistara, í Kragerø. Ljósmynd/Aðsend
Fjölskylda Birnu Katrínar.
Fjölskylda Birnu Katrínar. Ljósmynd/Aðsend

Uppskrift að fullkomnum degi:

  • „Vakna við mávana á Victoria-hótel sem er bleikt, stórt, og vel staðsett timburhús. Best er að vera í herbergi með útsýni yfir innsiglinguna að höfninni.
  • Fá sér morgungöngu áður en bæjarlífið fer á fullt. Ganga yfir á eyjuna umræddu að Veten viewpoint en þar er gott að stinga sér til sunds og fylgjast með bátunum á siglingu.
  • Eftir það myndi ég fá mér góðan kaffibolla á stað við höfnina sem heitir November en staðurinn er einnig með jógakennslu.
  • Af aðaltorginu eru tröppur sem liggja upp að útsýnisstaðnum Steinmann. Þangað er vert að fara því útsýnisstaðurinn liggur hátt og útsýnið ægifagurt.
  • Ég mæli með hádegismat, rækjum, á Tollboden.
  • Svo er stefnan tekin með ferju eða taxi-bát, t.d. til Skåtøy, sem tekur fimm mínútur. Þar er kaffihús og oft spilaður jass á sumarkvöldum. Gönguleiðirnar í kring eru afar fallegar. Ég mæli með að smakka brauð með brúnum geistaosti og jarðarberjasultu.
  • Það er lítið sund úti í skerjagarðinum sem heitir Eidkilkanalen og þar líða bátarnir rólega í gegn og uppi á berginu er máluð mynd af trölli sem öll börn hafa gaman af.
  • Jómfrúareyja er meira svona dagsferð ef fólk hefur lengri tíma. Það er þjóðgarður en að honum er frjáls aðgangur.
  • Að loknum degi er ómissandi að fá sér eitt hvítvínsglas eða óáfengt í garðinum hjá Hótel Tollboden, sem er falin perla á milli gamalla húsa.“
Það er alveg hægt að fá sér sundsprett þarna.
Það er alveg hægt að fá sér sundsprett þarna. Ljósmynd/Aðsend
Við golfvöllinn er hótelið Kragerø Resort, niðri við sjóinn er …
Við golfvöllinn er hótelið Kragerø Resort, niðri við sjóinn er strandbar, sólbaðsaðstaða og huggulegur veitingastaður. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert