Þörfin fyrir að „komast í burtu“ fer ekkert minnkandi samkvæmt nýrri grein á BBC, hins vegar segja sérfræðingar í ferðamannaiðnaðinum að fólk sé að bóka sér lengri ferðir, þ.e. sem vari lengur, árið 2025 og sökkvi sér þannig betur inn í stað og stund.
Samkvæmt skýrslu Skift Research, 2025 Travel Outlook Report, búast ferðaþjónustufyrirtæki við 24% aukningu í fjölda ferðamanna fyrir árið 2025, samanborið við árið í fyrra.
Á heimsvísu virðast lengri ferðir standa upp úr sem vinsælustu ferðirnar, fram yfir helgarferðir og styttri ferðir. Skýrsla Skift nefnir 2025 „ár langra ferða“. Þetta á sérstaklega við um ferðamenn frá Kína, Indlandi og Þýskalandi.
Julia Carter, stofnandi lúxusferðafyrirtækisins Craft Travel, segir að ferðamenn hafi nú þegar reynt að hoppa frá einum áfangastað til annars til að taka af sér myndir umkringdir öðrum ferðamönnum. „Nú er fólk loks að sjá að áfangastaðir lifna við þegar hægt er á hlutunum og dvölin lengd.“
Þá segir stofnandi og forstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Zicasso, Brian Tan, að þeir sjái áframhaldandi lengingu á dvöl ferðafólks á hverjum áfangastað, sem nú eru 13,5 dagar, og að fólk kjósi að dvelja á einum áfangastað svo það geti kafað dýpra í menningu staðarins.
Einnig er meira um að fólk sæki í að geta unnið meðan á dvölinni stendur svo ferðalagið blandist af afslöppun og vinnu. Fólk sækist jafnframt í að brúa bilið milli frídaga og almennra vinnudaga með launuðum frídögum til að fá lengri frí án þess að það skerði um of launuðu frídagana.
Þessi þróun hefur verið vinsælt umfjöllunarefni í myndskeiðum á TikTok, t.a.m þar sem farið er yfir hvaða daga er best að ferðast 2025 sé tekið tillit til rauðu daganna.