Partípinninn og athafnamaðurinn, Ásgeir Kolbeinsson, heldur upp á fimmtugsafmælið sitt á Tenerife um helgina. Von er á yfir hundrað gestum í afmælið og hefur Ásgeir leigt glæsilega villu fyrir veisluna.
Ásgeir hefur lengi verið þekktur í íslensku samkvæmislífi og hefur komið að ófáum viðburðum í gegnum tíðina. Hann rak og átti skemmtistaðinn Austur á sínum tíma.
Húsið sem hann leigir heitir Finca La Rosa de Los Vientos og er staðsett á Adeje á suðurströnd Tenerife. Húsið er 2.400 fm að stærð. Í húsinu eru sjö svefnherbergi, tvær stofur, líkamsrækt og níu baðherbergi. Í húsinu má finna stóra sundlaug úti með útsýni yfir fjöllin, heitan pott, gufu og litla sundlaug inni. Einnig er afþreying í boði eins og billiard-borð og hægt er að setja upp kvikmyndasal úti á veröndinni.
Stíll hússins að innan er íburðamikill en þar mætir dökkur viður marmara- og granítborðplötum. Húsgögnin eru einnig úr dökkum við og kirsuberjavið og mikið er um leðurklædd húsgögn.
Á þessum árstíma kostar nóttin í kringum 290 þúsund krónur og verður að leigja húsið í lágmark fimm daga í einu.