„Borgin leiðir þig á rétta staði“

Elma Dís Árnadóttir starfar í markaðsdeild Play, hefur ferðast víða …
Elma Dís Árnadóttir starfar í markaðsdeild Play, hefur ferðast víða og segir Barcelona eiga sérstakan stað í hjartanu. Samsett mynd/Aðsend

Elma Dís Árnadóttir starfar sem markaðssérfræðingur hjá flugfélaginu Play og er ótrúlega ferðaglöð, að eigin sögn. Spurð um uppáhaldsborgir nefnir hún Lissabon og Porto í Portúgal, og Pula og Split í Króatíu, en þó er ein sem stendur upp úr og það er Barcelona.

„Hún á sérstakan stað í hjartanu mínu.“

Elma lýsir Barcelona sem mjög fjölbreyttri borg.
Elma lýsir Barcelona sem mjög fjölbreyttri borg. Ljósmynd/Aðsend

Elma var búsett í Barcelona í heilt ár og segir borgina, í einu orði, vera fjölbreytta. „Borgin hefur eiginlega allt sem mann dreymir um á einum stað; strendur, frábærar búðir, geggjaðan mat á góðu verði og síðast en alls ekki síst, vinalegt og afslappað fólk.“ Hún nefnir einnig dæmi um fjölbreytnina sem í boði er, t.a.m að leigja bíl og fara á skíði í einn dag eða hoppa í lest og enda í æðislegum strandbæjum eins og Castelldefels eða Sitges, á aðeins 20-40 mínútum.

Hvað kom þér mest á óvart við Barcelona?

„Mismunandi árstíðir! Þegar maður kemur frá Íslandi, þar sem árstíðirnar eru í raun bara tvær (vetrarveður og smá sumar inn á milli, ef maður er heppinn), þá var algjör draumur að upplifa alvöru vor og haust. Það var magnað að sjá trén blómstra á vorin og síðan breytast í litaða paradís á haustin.“

Borgin að komast í haustbúning.
Borgin að komast í haustbúning. Ljósmynd/Aðsend

Að horfa yfir borgina í sólsetri

Spurð um uppáhaldshverfi nefnir Elma fyrst L’Eixample. „Þar er hægt að rölta niður Concell de Cent, risastóra og æðislega göngugötu sem liggur alla leið frá Passeig de Gràcia, fallegri og stórri verslunargötu, og djúpt inn í L’Eixample-hverfið. Stemningin og lífið þar er eitthvað annað!“

Hún nefnir svo Gràcia sem hún segir vera yndislegt hverfi rétt við Parc Güell, eða Gaudí-garðinn.

„Þar er fullt af fallegum „local“ hönnunarverslunum, sjarmerandi torg til að koma sér vel fyrir með vermouth í hönd og auðvitað frábærir veitingastaðir. Það er líka aðeins rólegra þar en í kjarnanum og hefur hverfið mjög skemmtilegan karakter.“

Að grípa sólsetrið frá útsýnisstöðum er eitthvað sem Elma segir …
Að grípa sólsetrið frá útsýnisstöðum er eitthvað sem Elma segir ómissandi í Barcelona. Ljósmynd/Aðsend

Rétt eins og fjölbreytnin er mikil í Barcelona eru þar fjölmargir fallegir staðir og söfn sem vert er að skoða, að sögn Elmu.

„Ef þú hefur ekki komið áður er auðvitað nauðsynlegt að sjá Sagrada familia-kirkjuna og Gaudí-garðinn. Svo mæli ég alltaf með að rölta um Parc de la Ciutadella, þar er alltaf yndislegt að vera með teppi og jafnvel hafa með sér smá nesti og bók og koma sér vel fyrir. En mitt persónulega uppáhald er að labba upp að Palau Nacional de Montjuïc. Það er eitthvað alveg einstakt við að sitja í tröppunum og horfa yfir borgina í sólsetri. Og það sakar ekki að taka með sér smá „cava“, bara svona til að fullkomna stemninguna!“

Góður dagur á ströndinni.
Góður dagur á ströndinni. Ljósmynd/Aðsend
Innan í Sagrada familia-kirkjunni.
Innan í Sagrada familia-kirkjunni. Ljósmynd/Aðsend

Draumadagurinn í Barcelona

Draumadagurinn hefst á dögurði en Katlónar eru mjög hrifnir af slíku, segir Elma. Í Barcelona er fjöldi góðra staða sem bjóða upp á dögurð og nefnir hún dæmi um Milk, Brunch & Cake, Billy Brunch og Brunch and the City.

„Eftir það myndi ég stoppa í kaffi, eða jafnvel drykk, í Joan Miró Parc, sitja úti, njóta og reyna næla mér í smá lit. Svo myndi ég rölta eftir Concell de Cent, beygja niður í Sant Antoni, kíkja á útimarkaði og svo yfir í El Raval til að gramsa í „second-hand“-búðum.“

Elma var búsett í Barcelona í eitt ár.
Elma var búsett í Barcelona í eitt ár. Ljósmynd/Aðsend

Eftir búðarrölt segist Elma myndi fá sér sæti á Plaça dels Àngels, torginu fyrir framan stóra og fallega nútímalistasafnið, og fylgjast með hjólabrettaköppunum gera „nett trix“ eða bara detta á rassinn. „Hvort tveggja er jafngaman að horfa á!“ bætir hún við.

„Að sjálfsögðu myndi ég líka fá mér besta kebab í heimi á Bishmillah Kebabish.“

Elmu fyndist mest spennandi að enda á rölti í Gothic-hverfinu, fá sér góðan tapas einhvers staðar og færa sig nær ströndinni eða á þakbar í drykk.

„Svo bara sjá hvert kvöldið leiðir mig. Það er nefnilega það besta við Barcelona, þú þarft ekkert að plana of mikið, borgin leiðir þig á rétta staði!“

Það er ekkert leiðinlegt að versla í Barcelona og segir …
Það er ekkert leiðinlegt að versla í Barcelona og segir Elma sérstaklega gaman að gramsa í „second-hand“-búðum. Ljósmynd/Aðsend
Rétt eins og fjölbreytnin er mikil í Barcelona eru þar …
Rétt eins og fjölbreytnin er mikil í Barcelona eru þar fjölmargir fallegir staðir og söfn sem vert er að skoða, að sögn Elmu. Ljósmynd/Aðsend
Rölt um miðbæinn.
Rölt um miðbæinn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert