„Allt frá eldfimum hátíðum til töfrandi himindans náttúrunnar, áhugi á næturhimninum fer ört vaxandi og næturferðamennska verður í tísku árið 2025.“ Svona hefst grein BBC Travel sem fjallar um fimm staði sem vert er að heimsækja 2025, þar á meðal Ísland.
Booking.com gerði könnun á meðal 27.000 ferðalanga og komst að því að tveir-þriðju íhuga að ferðast til staða með „dekkri næturhimni“ eða minni ljósmengun til að upplifa stjörnuböð og fleira í þeim dúr.
BBC fékk höfund bókarinnar 100 Nights of a Lifetime: The World's Ultimate Adventures After Dark, Stephanie Vermillon, til að finna fimm staði sem eru draumur fyrir ferðalanga sem huga að næturferðamennsku.
Ísland er númer eitt á listanum og segir Vermillon: „Heppnir ferðalangar, á réttum stað á réttum tíma, geta orðið vitni að minnistæðustu upplifunum jarðar; norðurljósunum.“
Norðurljósin verða til þegar rafhlaðnar agnir frá sólu rekast á lofthjúp jarðar og á meginvirknin sér stað fyrir ofan segulskautið og Ísland er þar í miðri hringiðu. Frá september til apríl er hægt að bera töfrana augum svo lengi sem skýin þvælast ekki fyrir líkt og segir á BBC. „Ég hef aldrei fengið eins mikla gæsahúð af náttúrunni eins og þegar sá norðurljósin,“ segir Vermillon. „Þú horfir á náttúruna dansa.“
Tilhugsunin um að bíða norðurljósanna úti í brunagaddi vafinn í mörg lög af klæðnaði er eflaust ekkert spennandi. Hins vegar er vel hægt að sitja í heitri náttúrulaug og vonast til að norðurljósin láti sjá sig á meðan slakað er á í lauginni.
Að lokum mælir Vermillon annars vegar með ION Adventure Hotel á Selfossi, þar sem hægt er að komast í náttúrulaug umkringdri hrauni með útsýni á ísilögð fjöllin, og hins vegar Heydal á Vestfjörðum, hótelgistingu og sveitabæ þar sem dýrin eru á vappi allt um kring og náttúrulaugarnar eru opnar allan sólarhringinn.