Alyssa Bonanno og Will Mayer ætluðu sér aldrei að halda hefðbundið brúðkaup. Markmið þeirra var að gera eitthvað nýtt og spennandi og velja áfangastað sem vinir og fjölskylda hefðu ekki komið á áður. Auðvitað varð Ísland fyrir valinu.
„Þetta er einn af uppáhaldsstöðum okkar í heiminum, og fólk er alltaf jafn hissa á því.“
Ferðatímaritið Condé Nast Traveler fjallar um ferð Bonanno og Mayer og 80 gesta í september 2024, allt frá móttökukvöldverði í Reykjavík til hvíldarstoppa við fallega fossa og svo aftur að brúðkaupsdeginum með húðflúrara og miðnæturpylsum.
Til að hafa brúðkaupsdaginn eins óhefðbundinn (anti-wedding) og kostur var, leituðu þau eftir þjónustu hjá fyrirtækjum sem höfðu ekkert með brúðkaup að gera, fyrir utan þann sem gaf þau saman og kökumeistarann.
Kristín Larsdóttir Dahl kvikmyndaframleiðandi var með í för og eins Mirra Elísabet Valdísardóttir, sem leiddi jógatíma fyrir gesti að morgni stóra dagsins. Tískuljósmyndararnir Louis Browne og Olav Stubberud fylgdu þeim einnig eftir. Margir af skipulögðum viðburðum ferðarinnar fóru fram innandyra vegna veðurs.
Eftir nokkra leit að dvalarstað varð hótel á hálendinu fyrir valinu, Highland Base Kerlingarfjöll, í um fjögurra klukkustunda akstursfjarlægð frá Reykjavík.
„Nokkrum vikum fyrir brúðkaupið skoðuðum við söguleg veðurgögn og sáum að það yrðu 80% líkur á snjókomu. Vindhraði gæti náð 5-22 m/s og hitastig gæti fallið í -12 gráður.“ Þá segjast hjónin hafa gefið gestum upplýsingar um hvernig best væri að klæða sig við slík veðurskilyrði.
Ferðin byrjaði í Bláa Lóninu, þaðan var farið til Reykjavíkur í kvöldverð á Hosiló, einum af uppáhaldsstöðum Bonanno og Mayer, og drykk á Röntgen. Síðan var farið á vinsæla staði í miðbænum. Daginn eftir var hópurinn sóttur og boðið var upp á bakkelsi frá Brauð & Co. Á leiðinni á áfangastað var stoppað við Gjána, Háafoss og Hjálparfoss og síðan á Geysi seinnipartinn. Íslenskir leiðsögumenn fylgdu hópnum eftir.
Dagskráin dagana á eftir fól m.a. í sér fjallgöngu og fjallahjólaferð í Hveradölum. Athöfnin sjálf fór fram utandyra og um kvöldið lék íslenska bandið Inspector Spacetime fyrir gesti. Bonanno segir þau hafa viljað tengingu við náttúruna og þar sem ekki var hægt að hafa borðhald úti við þá voru týndir hraunmolar og gróður úr nærliggjandi umhverfi og notað til að skreyta veisluborðin.
Í móttökunni fengu gestir tækifæri til að innsigla vináttuna að eilífu þar sem Brynjar Björnsson húðflúrari sat og skreytti þá sem vildu.
Draumadagur var að enda kominn og hvað gerðist annað en að norðurljósin létu sjá sig.