Einkafrí Höllu Tómasdóttur hefur verið til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum síðustu vikuna vegna óskýrra svara hennar hvers vegna hún hafi ekki mætt á minningarathöfn um helförina í Auschwitz 27. janúar. Hvorki Halla né Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra voru á svæðinu.
Í kjölfarið óskaði umboðsmaður Alþingis eftir upplýsingum um einkafrí Höllu.
Ferðavefur mbl.is óskaði eftir upplýsingum um hvert Halla hefði farið í frí og fékk svör frá Unu Sighvatsdóttur sem er sérstakur ráðgjafi á skrifstofu forseta Íslands. Í skriflegu svari Unu kemur fram að Halla hafi verið í Dóminíska lýðveldinu ásamt fjölskyldu sinni.
„Þetta var einkafrí fjölskyldunnar en ég get upplýst þig um það að þau hjónin fylgdu börnum sínum til New York þegar þau sneru aftur þangað við upphaf nýrrar annar í þeirra námi. Um leið tóku þau sér nokkurra daga frí með þeim á eigin vegum í Dóminíska lýðveldinu,“ segir í svari Unu Sighvatsdóttur.
Dóminíska lýðveldið nær yfir tvo þriðju hluta eyjunnar Hispaníólu og er í Karíbahafinu. Staðurinn nýtur sérlegra vinsælda hjá Bandaríkjamönnum sem vilja ná streitunni úr frumunum og hafa gaman.
Staðurinn státar af fallegum ströndum, glöðu og brosandi fólki og góðum mat. Svo er liturinn á sjónum öðruvísi en á öðrum stöðum í heiminum en lesa má um staðinn í grein sem birtist á mbl.is 2022.