Boeing 757-300 í íslensku fánalitunum úr flota Icelandair, eða Þingvallavélin, hefur fengið nýtt hlutverk en heldur sama útliti. Vélin var tekin úr flota flugfélagsins á síðasta ári.
Í dag flýgur hún fyrir flugfélagið Fly Khiva Uzbekistan, sem hóf fyrstu farþegaþjónustu sína í desember á síðasta ári og flýgur á milli höfuðborgarinnar Tasjkent og Urgench, í vesturhluta Úsbekistan. Þetta kemur fram á vef Airways Magazine.
Þá er áhugavert að sjá að einungis merki vélarinnar var breytt en lítið var haft fyrir að skipta út einkennislitum íslenska fánans á vélinni. Þess má geta að fánalitir Úsbekistan eru blár, hvítur og grænn.
„Vélin er komin í leiguverkefni í Úsbekistan en er ennþá í skráningu hjá Icelandair,“ segir Guðni Sigurðsson, samskiptastjóri Icelandair. „Þetta er nýtt félag. Þeir hafa verið með fragtflug og við höfum líka leigt þeim vélar í það. Núna eru þeir byrjaðir með farþegaflug og fengu okkar 757-300 sem hét Þingvellir, hjá okkur, og eru búnir að setja sitt merki á hana.“
Spurður um ástæðuna fyrir því að Icelandair sé að skipta út flotanum svarar Guðni: „Við erum að fasa út 757 vélunum okkar með endurnýjun flugflotans bæði með nýjum 737 Max-vélum og svo erum við komin með eina Airbus A-321 og verðum komin með fjórar fyrir sumarið.“
Guðni bætir því við að Þingvallavélin fari í skráningu hjá Fly Khiva Uzbekistan í vor og fái allsherjaryfirhalningu næsta haust.
Þangað til geta íbúar Úsbekistan notið þess að sjá íslensku fánalitina þeysast um fagurbláan himininn.