„Pasta á Ítalíu er engin kaloríubomba“

Hjördís Hildur Jóhannsdóttir.
Hjördís Hildur Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hjör­dís Hild­ur Jó­hanns­dótt­ir var bú­sett á Ítal­íu í tíu ár. Hún var íengst af í Flórens en seg­ist hafa verið hepp­in að búa við Garda­vatnið í eitt ár þegar hún starfaði á hót­eli um tví­tugt. Suðræn menn­ing­in og mat­ur Ítala kalla á hana reglu­lega enda hef­ur hún farið marg­ar ferðir þangað sem far­ar­stjóri. Það er flogið beint til Veróna frá Íslandi og þaðan er stutt­ur spotti til para­dís­ar á jörðu, Garda­vatns­ins.

Ítal­íu­drottn­ing­in Hjör­dís Hild­ur Jó­hanns­dótt­ir, deild­ar­stjóri sölu­vers Úrvals Útsýn­ar, seg­ir borðhald Ítala öllu af­slappaðra en geng­ur og ger­ist hér­lend­is. Klukk­an sjö, þegar Íslend­ing­ar eru jafn­an að snæða kvöld­verð eða eru ný­bún­ir að því, eru Ítal­ir að byrja á „aper­iti­vo“ á bör­un­um, sem felst í for­drykk og snarli með. Klukk­an níu setj­ast Ítal­irn­ir niður og fá sér að borða og get­ur borðhaldið staðið fram und­ir miðnætti.

„Enda sérðu ekki oft litla krakka á veit­inga­stöðum,“ bend­ir Hjör­dís á þegar hún seg­ir frá ít­alskri menn­ingu.

Jor­ge Zapata/​Unsplash

Þegar minn­ing­arn­ar frá Ítal­íuæv­in­týr­inu skjóta sér upp í koll­inn sér hún sjálfa sig á reiðhjóli, með gott ít­alskt rauðvín í körfu á stýr­inu, á leið í laut­ar­ferð.

„Ég ferðaðist mjög mikið um Ítal­íu þegar ég bjó þarna og hef alltaf haft góð tengsl við landið. Ég hef farið þangað í marg­ar ferðir sem far­ar­stjóri,” seg­ir Hjör­dís, en hún var bú­sett á Ítal­íu árin 2000-2010, lengst af í Flórens, þar sem hún nam ferða- og markaðsfræði við ít­alsk­an há­skóla.

Eft­ir að Hjör­dís kláraði námið hóf hún störf við am­er­ísk­an há­skóla í Flórens og aðstoðaði nem­end­ur frá Banda­ríkj­un­um við að setj­ast að á Ítal­íu.

Hvernig er ensku­kunn­átta Ítala?

„Ítal­ir eru góðir í að passa upp á tungu­málið sitt og eru rosa­lega stolt­ir af því. Allt sjón­varp er tal­sett á ít­ölsku og þeir heyra því ekki mikla ensku.“ Hjör­dís seg­ir ferðamenn þó kom­ast vel af með ágæt­is ensku. „Í lest­un­um og svo­leiðis er hægt að bjarga sér enda kom­ast þeir ekki upp með neitt annað.“

Upp­haf­lega hófst þó Ítal­íuæv­in­týrið þegar hún var um tví­tugt og seg­ist Hjör­dís hafa verið svo hepp­in að búa við Garda­vatnið í eitt ár þar sem hún starfaði á hót­eli. Garda­vatnið og nær­liggj­andi borg, Veróna, eru ein­mitt til­efni viðtals­ins, en flogið er beint til Veróna frá Íslandi og er borg­in aðeins í hálf­tíma fjar­lægð frá para­dís á jörðu, Garda­vatn­inu.

Við Gardavatn er ekki hið hefðbundna strandarlíf en hrikalega gaman …
Við Garda­vatn er ekki hið hefðbundna strand­ar­líf en hrika­lega gam­an að vera þar. Unsplash/​Daria Stra­tegy

Garda­vatnið og um­hverfið

Veróna er í norður­hluta Ítal­íu, aust­an­meg­in við Garda­vatnið. Í borg­inni búa tæp­lega 642.000 manns og hef­ur íbúa­fjöld­inn nær tvö­fald­ast frá ár­inu 1950. Aust­an­meg­in við borg­ina eru Fen­eyj­ar, sem Hjör­dís seg­ir nán­ast skyldu að heim­sækja, en þangað er um tveggja klukku­stunda lest­ar­ferð frá Veróna.

„Það er gam­an að versla í Veróna en héraðið er einnig mikið vín­hérað og þar eru marg­ir búg­arðar með góð vín,“ svo að hægt er að fá sveit­ina beint í æð þegar farið er út fyr­ir borg­ar­mörk­in.

„Veróna­bú­ar eiga sitt eigið hring­leika­hús, líkt og Kó­losse­um í Róm, og þar eru haldn­ir óperu­tón­leik­ar með kanón­um á borð við Plácido Dom­ingo og fleir­um. Það er mikið lagt upp úr þess­um tón­leik­um á sumr­in.“

Frá Veróna er auðvelt að ferðast í all­ar átt­ir. Hjör­dís seg­ir t.d. spenn­andi kost að fara upp í fjöll­in til Madonna di Campiglio, en það gæti verið eins og dags­ferð. Skíðasvæðið sem er mörg­um Íslend­ing­um kunn­ugt er einnig frá­bær staður að sumri til, að sögn Hjör­dís­ar, hvort sem er til að fara í heilsu­lind á einu af hót­el­un­um, borða góðan mat eða ein­fald­lega til að njóta Dólómíta­fjalla.

Spurð um hita­stigið seg­ir Hjör­dís það geta verið frek­ar heitt þarna. „Fyrsta flugið frá Íslandi er í byrj­un júní og á þeim tíma get­ur hita­stigið verið allt að 25-30 gráður.“ Hún bæt­ir við að þá sé kjörið að fara að Garda­vatn­inu því þar sé gol­an meiri.

„Garda­vatnið er ein­stak­lega fal­legt og það er svo gam­an að fara út á vatnið, hvort sem er á hjóla­bát eða á bát.”

Við Garda­vatn er ekki hið hefðbundna strand­ar­líf, að sögn Hjör­dís­ar, en hrika­lega gam­an að vera þar. Svæðið er fjöl­breytt og býður upp á ýmsa mögu­leika. Ynd­is­leg­ir bæir eru meðfram vatn­inu og auðvelt að ferðast á milli þeirra með strætó. Þar er einnig ara­grúi veit­ingastaða og hót­ela sem hafa mörg hver aðgang að vatn­inu fyr­ir gesti.

„Svo má ekki gleyma að nefna Garda­land sem er þeirra Disney World, en all­ur skemmtig­arður­inn er í róm­versk­um stíl.“

Hinn full­komni dag­ur

Þá er kjörið að les­end­ur fái inn­sýn í full­kom­inn sunnu­dag við Garda­vatnið, að mati Hjör­dís­ar Ítal­íu­drottn­ing­ar.

Hvernig myndi sá dag­ur vera?

„Sunnu­dag­ar eru af­slapp­andi dag­ar á Ítal­íu og marg­ar versl­an­ir lokaðar. Ítal­ir klæða sig upp á þess­um helgi­degi og það snýst eig­in­lega allt um að hitt­ast og borða og gefa sér góðan tíma í það.“

Þá verða staðir eins og Garda­vatnið vin­sæl dægra­stytt­ing.

„Í kring­um vatnið eru marg­ir hjóla­stíg­ar og hægt er að leigja hjól á hót­el­un­um. Ég myndi fá mér góðan kaffi­bolla í morg­uns­árið og helst drekka það ein­hvers staðar þar sem ég hefði gott út­sýni yfir vatnið. Síðan myndi ég fara í góðan hjóla­t­úr.“

Eft­ir hjóla­t­úr­inn seg­ist Hjör­dís myndu fá sér árstíðabundið sal­at og „baða það“ í góðri ólífu­olíu. „Ég myndi ör­ugg­lega fá mér smá pasta með. Það þarf ekk­ert að vera stór skammt­ur. Þegar ég er á Ítal­íu fæ ég mikla löng­un í góða pasta­rétti. Með matn­um yrði það all­an dag­inn rautt eða hvítt og til að toppa máltíðina, kaffi og t.d. limoncello með, fyr­ir melt­ing­una.“

Á Ítal­íu er auðvelt aðgengi að góðum ís, en ísbúðirn­ar dúkka upp á hverju horni enda Ítal­ir þekkt­ir fyr­ir gelato-ís­inn.

„Eft­ir máltíðina myndi ég fá mér góðan ís og rölta um með hann. Þegar er rosa­lega heitt fara Ítal­irn­ir heim og leggja sig. Á heit­um degi er líka hægt að fara með kláfi upp í fjöll­in. Bær­inn sem ég bjó í heit­ir Malces­ini og þar er t.d. hægt að fara í kláfinn. Ann­ars myndi ég nú bara koma mér þægi­lega fyr­ir við vatnið með kalt hvít­vín.“

Mat­ar­menn­ing­in

Á spjall­inu við Hjör­dísi er ljóst að þegar á að hafa það gott á Ítal­íu spila mat­ur og drykk­ur stóra rullu. Hún er búin að segja frá því klukk­an hvað Ítal­ir borða kvöld­verð og hve lang­an tíma þeir gefi sér við kvöld­verðar­borðið.

„Ítal­ir borða svo há­deg­is­mat klukk­an eitt og þeir taka sér líka góðan tíma í há­deg­inu til að snæða.“

Eins og áður sagði er mik­il vín­rækt­un, sér­stak­lega á svæðinu í kring­um Veróna, af bæði hvít­víni og rauðvíni.

„Og þeir [Ítal­ir] fá sér rauðvín á hverj­um degi og það er bara í menn­ingu þeirra. Þú átt ekk­ert endi­lega við neitt vanda­mál að stríða þótt þú drekk­ir áfeng­an drykk dags dag­lega. Þeir eru afar vand­virk­ir um hvaða vín eigi að vera með hvaða mat.”

En hvað get­urðu sagt meira um mat­ar­menn­ingu Ítala?

„Mat­ur er mjög breyti­leg­ur eft­ir árstíðum. Þú finn­ur það þegar þú geng­ur í gegn­um mat­ar­markaðina hvað er í upp­sker­unni það skiptið. Á veit­inga­stöðum er mat­seðlun­um skipt út reglu­lega miðað við hvaða græn­meti og ávext­ir eru í boði. Það er ekk­ert sami mat­seðill­inn allt árið. Í nóv­em­ber þegar nýja ólífu­olí­an kem­ur verður fókus­inn á mat þar sem er notuð ólífu­olía með. Alls staðar skipta þeir út matn­um al­gjör­lega eft­ir árstíðum.“

Hjör­dís út­skýr­ir að mat­ar­menn­ing á Ítal­íu sé orðin þannig að alls staðar sé hægt að fá græn­met­is­rétti og sal­at, sér­stak­lega á sumr­in. Þá sé einnig mikið um ávexti.

„Ítal­ir fara mikið út að borða, sér­stak­lega á sumr­in, vegna þess að í hit­an­um nenna þeir ekk­ert endi­lega að kveikja á gaselda­vél­inni heima hjá sér og elda. Auk þess hve ódýrt er að fara út að borða.“

Mis­skiln­ing­ur­inn mikli

Ekki má gleyma að minn­ast á pastað, en Hjör­dís seg­ir mik­inn mis­skiln­ing gæta hér­lend­is varðandi hvernig mat­reiða eigi gott pasta.

„Pasta á Ítal­íu er eng­in kal­oríu­bomba. Við erum að mat­reiða þetta vit­laust hér heima með því að vera að dúndra hvít­lauk í þetta allt sam­an, rjóma og rjóma­osti. Þarna þarftu lítið annað en góða tóm­ata, græn­meti og smá ólífu­olíu og þá ertu kom­in með góðan rétt. Ítal­ir eru ekki með all­an þenn­an lauk og hvít­lauk. Ég held ég hafi aldrei smakkað hvít­lauks­brauð þarna úti. Það er ör­ugg­lega eitt­hvað am­er­ískt.“

Ja hérna, og eru Íslend­ing­ar að gera eitt­hvað fleira sem er á gráu svæði hjá Ítöl­um?

„Það er ekki hefð fyr­ir því að borða mik­inn morg­un­mat á Ítal­íu. Ítal­ir fá sér held­ur einn góðan kaffi og eitt­hvað sætt með.“

Hjör­dís út­skýr­ir að t.d. einn bolli af cappucc­ino sé morg­un­mat­ur fyr­ir Ítöl­um. „Þeim finnst magnað að fólk panti sér heil­an bolla af flóaðri mjólk eft­ir há­deg­is- eða kvöld­mat. Þeir skilja ekki hvernig mag­inn ræður við þetta eft­ir máltíð. Espresso er bara þeirra kaffi, líka eft­ir kvöld­mat.“

Hún bend­ir á að Ítal­ir séu ekki svona mik­il mjólk­ur- og jóg­úrtþjóð eins og Íslend­ing­ar. Þeir borði mik­inn ís, en þeirra ís er gelato og það er ekki mik­ill rjómi í hon­um.

Hvernig mat­ur er á svæðinu í kring­um Veróna og Garda­vatnið?

„Norður-Ítal­ía er svo ná­lægt Aust­ur­ríki og var hluti af gamla keis­ara­dæm­inu. Mat­ur­inn er af öðrum toga, meiri fjalla- og sveita­mat­ur held­ur en t.d. í bæj­un­um meðfram strönd­inni þar sem er meiri fisk­ur og sjáv­ar­af­urðir. Það er mikið um kjöt og pasta, sér­stak­lega þarna í fjöll­un­um. Svo nota þeir ólífu­olí­una mjög mikið.“

Eft­ir all­ar lýs­ing­arn­ar er und­ir­rituð kom­in með vatn í munn­inn af til­hugs­un­inni um að fá ekta ít­alsk­an mat og það sama á við um Hjör­dísi, sem seg­ist ekki geta beðið eft­ir að koma þangað aft­ur.

„Þetta land er bara svo mik­ill hluti af mér.“

Íslendingar hafa misskilið ítalska matargerð og nota of mikinn hvítlauk, …
Íslend­ing­ar hafa mis­skilið ít­alska mat­ar­gerð og nota of mik­inn hvít­lauk, lauk og rjóma. Unsplash/​Daria Stra­tegy
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert