Í gönguferðum um fjöll og firnindi er mikilvægt að vera með vel útbúinn bakpoka hvort sem farið er í stuttar eða langar ferðir. Göngumenn ættu til dæmis aldrei að fara til fjalla öðruvísi en að taka með sér tæki til rötunar og vatns- og vindheldan klæðnað, enda er allra veðra von á Íslandi. Annar búnaður fer eftir eðli ferðarinnar, lengd og persónulegum þörfum göngumannsins. Dagsferðir eru mismunandi og geta tekið frá örfáum klukkustundum upp í hálfan sólarhring. Listinn hér að neðan, sem fenginn er frá sérfræðingum hjá Ferðafélagi Íslands, er því ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar, veðri og árstíma.