Alltaf með íbúfen, íþróttateip og vaselín

Ívar Finnbogason segir mikilvægt að sjúkrabúnaður sé aðgengilegur.
Ívar Finnbogason segir mikilvægt að sjúkrabúnaður sé aðgengilegur. Ljósmynd/ÍF

„Búnaður þarf fyrst og fremst að taka mið af ferðinni auk þekkingar og kunnáttu. Það kunna allir að nota plástur og verkjalyf þannig að það er augljóslega eitthvað sem á að vera til staðar,“ segir Ívar Finnbogason, rekstrarstjóri hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, en hann hefur mikla reynslu af fjallamennsku og heldur meðal annars utan um námskeiðið vettvangshjálp í óbyggðum eða Wilderness First Responder sem fer fram bæði í lok janúar og í maí hjá fyrirtækinu.

Ívar segir skyndihjálpartöskuna oft lenda á botni bakpokans og mælir því með því að hafa það sem mest sé notað á aðgengilegum stað. „Það að hafa töskuna aðgengilega gerir það að verkum að þröskuldurinn fyrir að taka réttar og góðar ákvarðanir er minni. Ég er alltaf með íbúfen, íþróttateip og vaselín í topphólfinu.“

Hann segir íbúfenið virka við öllum minni verkjum og geta komið í veg fyrir að litlar bólgur og eymsli verði að stærri vandamálum. „Íþróttateipið er það sem ég nota langoftast á hælsæri en það virkar ekki á blöðrur og sár. Ef fólk fylgist með og lætur vita í tíma þá leysir smá íþróttateip málið áður en hælsæri verður að vandamálið,“ segir Ívar og bætir við að sem betur fer séu nútímagönguskór orðnir léttari og þægilegri og núningssár fátíðari en áður.

Vaselín er einnig eitthvað sem Ívar mælir sterklega með að taka með í lengri sem og skemmri ferðir en varar við því að nota það sem hendi sé næst á viðkvæm svæði. „Vaselínið er frábært á alls konar minni nuddsár sem geta myndast á milli læra eða rasskinna, sem þó er ekki algengt en getur komið fyrir og er ákaflega óþægilegt. Ég lenti einu sinni í því sjálfur og var ekki með aðra feiti en varasalva sem innihélt frískandi menthol, slíkt setur maður bara einu sinni á viðkvæm svæði.“

Meiri búnaður í erfiðari ferðir

Ívar mælir með því að vera með stærri skyndihjálpartösku fyrir lengri ferðir og velti stærðin að sjálfsögðu á markmiði ferðarinnar og því hversu langt sé farið inn í óbyggðirnar. „Þannig erum við náttúrulega útbúnir með mikið magn lyfja og birgðir af sjúkrabúnaði til að skipta ítrekað um umbúðir á mismunandi sárum ef við erum í leiðöngrum eins og á Grænlandi,“ segir Ívar en bætir við að á Íslandi sé almennt ekki verið að ferðast með eins mikið af sjúkrabúnaði þar sem víðast hvar sé hægt að komast í vegasamgöngur og svo séu björgunarsveitir einstakar bjargir þegar þannig beri undir.

„Ekki svo að skilja að maður eigi að stilla hlutunum þannig upp að maður treysti á utanaðkomandi bjargir en það er samt alltaf eitthvað sem maður hefur bak við eyrað.“ Ívar segir mikilvægast að ná sér í þekkingu og mælir með því að sem flestir fari á skyndihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum. „Íslenskir fjallaleiðsögumenn og Landsbjörg bjóða svo upp á viðameiri námskeið sem henta þeim sem eru annaðhvort í útivist að atvinnu eða eru í lengri ferðum og leiðöngrum og vilja fá enn meiri þekkingu og undirbúning. Slík námskeið snúast ekki um það að hlaða á sig flóknum skyndihjálparbúnaði, frekar að leggja mat á hvað maður þarf og treysta á hyggjuvitið og smá skilning á því hvernig mannslíkaminn virkar.“

Neyðarskýli geta bjargað lífi

Svokölluð Bothy Bag eða neyðarskýli er nýjung sem Fjallaleiðsögumenn nota en það er sérsniðinn plastdúkur sem hægt er að kasta yfir lítinn hóp. „Inni í skýlinu er hægt að bíða af sér veður, nærast, hlúa að slösuðum eða bara taka smá pásu til að nústilla aðstæður og fá tíma til að hugsa og taka góðar ákvarðanir. Ég mæli eindregið með að gera þannig hluta af grunnútbúnaði. Á veturna er þetta sérstaklega þægilegt þar sem það er hægt að grafa út sæti og sitja þægilega inni í neyðarskýlinu. Ég er oftast með þannig með mér og ætla að fullyrða að a.m.k. einu sinni hefur það algerlega bjargað lífi mínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert