Í útivist verður orkan til

Björn Víglundsson lætur gamlan draum rætast í St. Anton.
Björn Víglundsson lætur gamlan draum rætast í St. Anton. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er svo ótrúlega heppinn að foreldrar mínir settu mig á skíði fljótlega eftir að ég byrjaði að labba. Grænu plastskíðin sem smellt var á kuldaskóna eru mér enn í fersku minni. Það voru engir stálkantar á þeim og ég myndi sennilega ekki setja skinn undir þau heldur. Síðan hef ég verið á skíðum og fjölskyldan mín öll elskar að vera á skíðum,“ segir Björn Víglundsson viðskiptafræðingur sem staddur er um þessar mundir í St. Anton í Austurríki en þar réð hann sig tímabundið til fyrirtækisins Piste to Powder sem sérhæfir sig í utanbrautarskíðum. „Ég er hér fyrst og fremst til að njóta lífsins og láta gamlan draum rætast um að eyða löngum tíma á skíðum, en ekki alltaf bara dag og dag eða eina viku á ári. Þetta er því búið að vera mikið ævintýri sem ég sé ekki eftir,“ segir Björn sem segist þó ekki vilja kalla sig sérfræðing í íþróttinni og þaðan af síður leiðsögumann því til þess þarf að ljúka löngu námi. „Ég hef hins vegar það frábæra hlutverk að taka á móti viðskiptavinum þeirra á morgnana og skíða svo með hópnum á daginn, til aðstoðar við leiðsögumanninn.“

Á svæðinu hefur kyngt niður snjó sem aldrei fyrr.
Á svæðinu hefur kyngt niður snjó sem aldrei fyrr. Ljósmynd/Aðsend

Hræðist snjóflóð meira en nokkuð annað

Björn segir St. Anton vera einstakt skíðasvæði og þar sé að finna einstakt svæði til utanbrautarskíðaiðkunar auk þess sem fallið hefur meiri snjór núna í vetur en nokkru sinni. „Hér eru fjöllin há og brött og stórt svæði sem ekki er þjónustað af lyftum. Hér má því endalaust finna brekkur sem enginn hefur skíðað í og geyma púðursnjó mörgum dögum eftir að síðast snjóaði. Það er auðvitað yndislegt að skíða niður brekku sem enginn hefur komið í lengi, en það er líka ótrúlega róandi og skemmtileg tilfinning að ganga á skíðunum og reyna á líkamann. Ég er ekki mikill jógamaður, en ég ætla að leyfa mér að giska á að tilfinningin sé svipuð. Kyrrð og ró, áreynsla og auðvitað stundum farið aðeins út fyrir þann þægindaramma sem maður býr yfir. Reyndar hefur það gerst ansi oft í þessari ferð.“

Glaðir fjallaskíðakappar njóta sín í góða veðrinu.
Glaðir fjallaskíðakappar njóta sín í góða veðrinu. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður hvort Íslendingar séu hluti af kúnnahópi Piste to Powder segir Björn svo ekki vera en hvetur íslenskt skíðaáhugafólk til að ráða sér leiðsögumann því þeir viti allt um fjöllin. „Markmið þeirra er að koma sér og viðskiptavinum sínum ekki á þá staði sem kunna að vera hættulegir. Það getur breyst frá degi til dags, allt eftir snjóalögum, vindáttum og sólarlagi. Ég hræðist snjóflóð meira en nokkuð annað og finn fyrir mikilli öryggistilfinningu þegar ég ferðast með leiðsögumanni sem veit nákvæmlega hvernig landið liggur og hvar hætturnar leynast.“

Tekur fagnandi á móti áskorunum

Björn er mikill útivistarmaður og segist endurnærast á sál og líkama þegar hann stundar hreyfingu af einhverju tagi. „Í útivist verður orkan til. Maður endurnærir sál og líkama og hleður á tankana fyrir næstu verkefni. Það er sennilega einfaldasta leiðin til að útskýra það. Ég held að allir með skemmtileg áhugamál kannist við þá tilfinningu, hvort sem það er í formi útivistar eða einhvers annars. Þetta er sennilega hin endalausa leið af jafnvægi í lífinu.“

Björn réð sig tímabundið til fyrirtækisins Piste to Powder sem …
Björn réð sig tímabundið til fyrirtækisins Piste to Powder sem sérhæfir sig í utanbrautarskíðum. Ljósmynd/Aðsend

Hann segist þó ekki vera afreksmaður í neinu en þó áhugamaður um margt. „Á sumrin spila ég golf og svo finnst mér fjallahjólið frábært, enda á það margt sammerkt með fjallaskíðunum. Maður puðar upp og fær svo verðlaun á leiðinni niður. Ég hef líka látið plata mig í WOW Cyclothon og farið 2 eða 3 hringi með góðu fólki. Nú síðast lét ég plata mig í Landvætti Ferðafélags Íslands og er að læra að synda og ganga á gönguskíðum til þess að ná að klára þær þrautir sem í því felast. Það var konan mín sem plataði mig í það með sér eins og hún gerði með fjallaskíðin. Ég hef gaman af áskorunum og reyni að hafa þá reglu að segja bara „já“ þegar þær koma,“ segir Björn að lokum og er farinn að iða í skinninu að komast út í brekkurnar enda sól og blíða sem bíður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert