Bara ég og stelpurnar

Hólmfríður Vala Svavarsdóttir hefur veg og vanda af námskeiðunum.
Hólmfríður Vala Svavarsdóttir hefur veg og vanda af námskeiðunum. Ljósmynd/Aðsend

Á svæðinu er einnig að finna ein vinsælustu skíðagöngunámskeiðin sem völ er á og henta þau jafnt ungum sem öldnum, byrjendum sem lengra komnum. Konan sem hefur veg og vanda af námskeiðunum er Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, skíðagöngukennari og hótelstýra á Hótel Ísafirði. Hún segir námskeiðin vera þannig byggð upp að þau séu fjölbreytt og reyni á ólíka þætti sem fá svo allt til að smella að loknu námskeiði. „Á fjórða degi námskeiðsins fæðist svo fullkomin skíðamaður,“ segir Hólmfríður Vala og bætir við að þjálfarar á námskeiðunum séu fyrrverandi afreksmenn og með þjálfaramenntun og samanlögð reynsla þeirra sé gríðarlega mikil.

Eiga sinn eigin bjór

Bærinn hefur upp á margt að bjóða og á milli æfinga er upplagt að kíkja á kaffihús, fara í sund og jóga eða smakka á Bara ég og stelpurnar bjórnum sem framleiddur er af brugghúsinu Dokkunni. „Allar stelpur þurfa að eiga sinn eigin bjór, er það ekki?“ spyr Vala, eins og hún er af mörgum kölluð. „Þeim á Dokkunni fannst alveg nauðsynlegt að við fengjum okkar eigin bjór og strax í haust fóru þau í að hanna bjórinn svo hann myndi falla að krefjandi smekk skíðandi útivistakennara. Þetta heppnaðist svo sannarlega vel hjá þeim.“ Blaðamaður staldrar við nafnið Bara ég og stelpurnar og spyr af hverju bjórinn og kvennanámskeiðin séu kölluð því nafni?  „Eins aulalegt og það hljómar þá var lagið með Emmsjé Gauta á fóninum þegar ég var að skipuleggja fyrsta námskeiðið og þar kom nafnið,“ segir Vala.  

Eftir fjögurra daga skíðagöngunámskeið fæðast fullkomnir skíðagöngugarpar.
Eftir fjögurra daga skíðagöngunámskeið fæðast fullkomnir skíðagöngugarpar. Ljósmynd/Vala

Skíðaganga er fyrir alla fjölskylduna

Skíðagöngunámskeiðin eru þó ekki einungis ætluð kvennpeningnum þó það hafi þróast þannig að þær séu oft í meirihluta. „Námskeiðin okkar eru að öllu jöfnu fjórir dagar þannig að við höfum nægan tíma með hverjum og einum og reynum að hafa hópana ekki stærri en 10-12 manns. Flestir hóparnir okkar eru kvennahópar en við erum líka með blandaða hópa og vinnustaði sem koma í árshátíðarferðir til okkar. Í vetur vorum við með fjölskyldubúðir þar sem við vorum með sérstaka hópa fyrir börn. Það var alveg svakalega skemmtilegt og sannaðist þar hvað skíðagangan er mikið fjölskylduíþrótt. Krakkarnir fóru í kennslu á morgnana með sínum þjálfara  og fullorðnir með sínum þjálfara og svo voru allir saman á æfingu seinnipartinn í leik og fjöri.“ Vala segir námskeiðin einkennast af leik, kátínu, hvíld og núvitund. „Við segjum oft að við getum ekki ábyrgst veðrið en við ábyrgjumst einstaka upplifun og mikla gleði.“

Vala segist ekki geta ábyrgst veðrið en ábyrgist einstaka upplifun …
Vala segist ekki geta ábyrgst veðrið en ábyrgist einstaka upplifun og kátínu. Ljósmynd/Aðsend

Á liðnum vetri hafa hátt í 400 konur komið á námskeið hjá Völu og hennar fólki og eru svokallaðar kvennahelgar langvinsælastar. „Þó að stelpurnar séu komnar hingað til að skíða þá er það ekki síður mikilvægt að slaka á, njóta þess að vera með góðum vinkonum og alls þess besta sem bærinn okkar hefur upp á að bjóða. Þær sem koma skrá sig gjarnan að ári um leið og þær tékka sig út og  eru þá búnar að stækka vinahópinn og vilja þá vera í sama hóp og á sama tíma að ári,“ segir Vala að lokum áður en hún rýkur upp í Dal að sinna þátttakendum á námskeiðinu sem bíða í ofvæni eftir því að renna sér af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka