Markmiðið alltaf að koma heil heim

Inga Dagmar í sínu náttúrulega umhverfi uppi á fjalli.
Inga Dagmar í sínu náttúrulega umhverfi uppi á fjalli. Ljósmynd/Aðsend

Um helgar má oftar en ekki finna hana uppi á fjöllum, þá annaðhvort á fjallaskíðum eða á göngu þar sem hún sinnir gönguleiðsögn undir merkjum Herðubreiðar, en það er fyrirtæki hennar sem sérhæfir sig í ferðaskipulagningu. „Ég hef alla tíð verðið mikið á skíðum frá því ég var unglingur. Þegar ég var 17 ára gömul fór ég í Hjálparsveit skáta í Reykjavík og byrjaði að stunda útivist af fullum krafti og þá var ekki aftur snúið. Við skíðuðum rosalega mikið í Hjálparsveitinni og fórum út um allt á utanbrautargönguskíðum hvort sem það var upp á Hvannadalshnúk, yfir Vatnajökul eða inn á hálendið. Í mörg ár var ég eingöngu á Telemark-skíðum af því að mér þótti það frekar kúl. Síðar ákvað ég að prófa fjallaskíði og síðan þá hefur fjallaskíðamennska verið mín ástríða,“ segir Inga Dagmar.

Eina stelpan á Íslandi

Ástríðan ýtti henni áfram á fjallaskíðabrautina og fór Inga Dagmar smám saman að bæta við sig þekkingu sem þurfti til að geta skíðað og kennt öðrum af öryggi, því hætturnar leynast víða í þessari íþrótt. „Ég vann lengi vel fyrir Íslenska fjallaleiðsögumenn og hafði alltaf langað til að fara að leiðsegja fjallaskíðaferðir vegna þess að mér þótti það bæði heillandi og skemmtilegt. En það krefst fagþekkingar.  Hjá Fjallaleiðsögumönnunum bauðst mér að fara á alvörusnjóflóðanámskeiðið Level 1. Í kjölfarið á því fór ég að sækja mér meiri menntun á sviði skíðaleiðsagnar og tók tvö sérhæfð námskeið hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna sem heita Skíðaleiðsögn 1 og 2 . Það eru miklar forkröfur til að komast inn á þessi námskeið enda eru þau líka mjög krefjandi. Maður er meðal annars metinn í skíðafærni, leiðarvali, staðar- og veðurþekkingu, hópstjórnun, áhættustýringu, sprungubjörgun, mati á snjóflóðahættu, ýlaleit og kennslu ásamt fullt af öðrum þáttum skíðaleiðsagnar. Þegar upp var staðið voru þetta frábær námskeið og góð reynsla. Þekkingin sem ég fékk ýtti mér af stað. Líklega er ég eina stelpan a Íslandi sem hef klárað þessi námskeið enn sem komið erMér finnst líka mjög gefandi og gaman að kenna fólki að taka sín fyrstu skref í fjallaskíðamennsku.“

Hættur geta leynst víða á fjöllum og því borgar sig …
Hættur geta leynst víða á fjöllum og því borgar sig að fara varlega. Ljósmynd/Aðsend

Hættur leynast víða

Inga Dagmar fann að áhugi á íþróttinni var sífellt meiri og mikil spurn eftir kennslu og þjálfun, og þá sérstaklega á Suðurlandinu. Í kjölfarið stofnaði hún fyrirtækið Fjallaskíðun þar sem einstaklingar og hópar geta sótt námskeið og í þá þekkingu sem Inga Dagmar býr yfir. „Eftir að ég gerði samstarfssamning við Fjallakofann í fyrra gerði það mér kleift að opna heimasíðu fyrir fyrirtækið, þetta allt saman hefur hjálpað mér mikið og hvatt áfram.“

Inga Dagmar segir hættur leynast víða ef ekki er vel að gáð og því borgi sig að fara vel þjálfaður á fjöll. „Það getur verið hættulegt að skíða utanbrautar ef maður þekkir ekki umhverfið og getur ekki lesið í aðstæður eins og snjóflóðahættu, mjög mikinn bratta í fjalllendi eða sprungur á jökli. Ég segi hiklaust að þeir sem hafa áhuga á að fara út í fjallaskíðamennsku verði fyrst að geta skíðað í flestöllum brekkum skíðasvæða áreynslulaust og í breytilegum snjóaðstæðum. Það er mun erfiðara að skíða utanbrautar en í troðinni braut, erfiðara en margir halda. Það er líka mjög mikilvægt að vera í góðu líkamlegu formi og að maður geti verið á skíðum allan daginn án þess að örmagnast,“ segir hún og bætir við að það sé mjög mikilvægt að  fara í fjallaskíðaferðir með reyndum leiðsögumanni hafi maður ekki þessa þekkingu sjálfur.

Í brekkum sem þessari er gott að vera þrautþjálfaður á …
Í brekkum sem þessari er gott að vera þrautþjálfaður á fjallaskíðum. Ljósmynd/Aðsend

Fram undan er vertíð

Á Íslandi er að finna heilmikið af spennandi stöðum til að stunda fjallaskíðin og fyrir þá sem eru komnir lengra í íþróttinni mælir Inga Dagmar hiklaust með Super Troll Race á Siglufirði. „Mjög skemmtilegt mót og virkilega vel að því staðið í frábæru umhverfi. Það er alltaf gaman að fara aðeins út fyrir þægindarammann. Svo er Tröllaskaginn og norðanvert Snæfellsnes í algeru uppáhaldi hjá mér. Þar er að finna fjölbreyttar og skemmtilegar skíðabrekkur í stórkostlegu umhverfi.“

Fram undan er vertíð hjá Ingu Dagmar enda besti tíminn til fjallaskíða á vorin. „Í vor er ég á fullu með fjallaskíðahópinn minn sem heitir Skíðatoppar og við förum í margar skemmtilegar skíðaferðir og endum tímabilið í maí á því að fara norður á Tröllaskagann, í fjallaskíðaparadísina sem verður toppurinn hjá mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert