,,Ég fór í ferð sem heitir sleðaferðir á ströndum. Þetta er vélsleðaferð þar sem keyrt er frá Hólmavík og yfir til Djúpuvíkur, ofsalega fallegs bæjar. Þar gistum við á Hótel Djúpavík sem var afskaplega notalegt og kósý,” segir Brynja sem í dag þjáist af harðsperrum um allan líkama. „Ég fór á vegum Ellingsen með ótrúlega skemmtilegum krökkum og við hittum svo restina af um það bil 30 manna hópi á Hólmavík þar sem ferðin byrjar. Þaðan er svo farið strax á sleðum yfir til Djúpavíkur.“
Þrátt fyrir brösuglega byrjun á vélsleðanum fór allt vel og Brynja náði góðum tökum á tryllitækinu. „Ferðin yfir er smá spotti og ég velti sleðanum eða datt fjórum sinnum en allir svo hjálplegir og maður hendir sér bara aftur á bak! No nonsense og áfram með smjörið,“ segir Brynja hlæjandi.
„Á laugardeginum er svo aðalferðin, þá er farið í dagsferð yfir í Reykjarfjörð, um það bil það fallegasta sem ég hef séð! Ég er enn þá með stjörnur í augunum. Leiðin þangað var frekar brött svo krakkarnir hjálpuðu mér erfiðasta hjallann og tóku mig með á sinn sleða, ég gólandi af hræðslu en samt svo skemmtilegt.“
Því miður er það oft þannig að aldrei er of varlega farið og slysin gera svo sannarlega ekki boð á undan sér. „Við reyndar lentum svo í því að tvennt slasaðist, eins og fólk kannski sá í fréttum og þyrla kom að sækja þau, auðvitað er svona alltaf smá sjokk og allir smá andlega fjarverandi í smá stund en við þurftum að klára daginn og komast heim. Allir þó örlítið varkárari,“ segir Brynja.
Veðrið um helgina var eins og það væri sérhannað fyrir hópinn og útsýnið yfir svæðið eftir því. „Þetta er mögnuð upplifun og að finna að maður verður öruggari með hverjum klukkutímanum! Bara þú, sleðinn og þetta fallega umhverfi! Ég hef samt sjaldan fundið fyrir svona frelsi! Ekki skemmdi svo fyrir að sleðinn sem ég var á er glænýr frá Ski-Doo og svo fallegur og skemmtilegur, ég er alveg veik fyrir honum eftir að hafa kynnst honum og helgargamaninu okkar.“ Á öðrum degi var Brynja komin með nokkuð góð tök á vélsleðanum. „Ég fór upp alls konar brekkur og hóla sem ég hefði aldrei trúað að ég gæti og að fara hratt er svo gaman. Að sigra sjálfan sig er svo geggjuð tilfinning. Geggjuð segi ég!“
Færri konur en karlmenn stunda íþróttina en það stendur til að breyta því með nokkurs konar átaki í því að fá konur til að vera með. „Ég er sjálf skráð á námskeið í lok mars og er mjög spennt að læra meira. Ég mæli svo hiklaust með þessari ferð. Fólkið, bærinn, söngurinn, maturinn, allt eins yndislegt og það verður. Ég er marin og bólgin og alls konar en svo endurnærð á líkama og sál.“