Ljóð Andra Snæs prýða skíðin

Andri Snær með fallegu fjallaskíðin.
Andri Snær með fallegu fjallaskíðin. Ljósmynd/Aðsend

,,Það eru nokkrir framtakssamir skíðakappar sem hafa verið að hanna og þróa skíði og annan búnað. Þeir höfðu samband og spurðu hvort ég vildi hjálpa þeim að sérhanna skíði, þeir vildu fá texta um íslenska náttúru og svo mátti ég ráða litnum. Ég sendi þeim náttúruljóð sem ég hafði einhverju sinni ort mjög ungur undir áhrifum frá skólaljóðum og þetta ljóð var prentað á skíðin og ég fékk að ráða litnum á botninum. Hárauður varð fyrir valinu. Ég hef nefnilega einu sinni lent í sjálfheldu þar sem ég var á skíðum utanbrautar. Og þá fór gegnum huga minn að þótt svarti jakkinn minn væri flottur, þá gæti hann verið felulitur. Og ef maður þyrfti að grafa sig í fönn, væri gott að geta stillt upp einhverjum áberandi lit fyrir utan snjóhúsið. Þannig að eldrauður varð fyrir valinu.

Andri og félagi skoða aðstæður í Eilífsdal.
Andri og félagi skoða aðstæður í Eilífsdal. Ljósmynd/Aðsend

Sjálfur er Andri Snær mikill útivistarmaður og stundar fjallaskíðin af kappi. „Ég er gamall skíðamaður, æfði sem strákur en hafði aldrei náð að þróa áhugamálið út fyrir troðnu brekkurnar. Ég skildi hvorki gönguskíðasportið né hvað menn voru að þramma heilt fjall fyrir fimm mínútna bunu. En þetta freistaði þannig að ég keypti mér græjur fyrir nokkrum árum og fór Jökulfirðina með Sigurði Jónssyni á Áróru. Það er eiginlega ein allra fallegasta ferð sem ég hef farið. Þá siglir hann inn til dæmis Veiðileysufjörð, við klifrum upp, rennum okkur niður hinum megin þar sem hann bíður okkar. Ég hef síðan farið öðru hvoru eitthvað, Snæfellsjökul, Móskarðshnjúka og síðan á gönguskíðum á Grænlandi. Annars hef ég ekki farið oft til útlanda á skíði.“

Andri Snær hvergi banginn í brekkunum.
Andri Snær hvergi banginn í brekkunum. Ljósmynd/Sigtryggur Ari Jóhannsson

Stærsta áskorunin

Að vanda er mikið um að vera hjá Andra Snæ en hann er nýkominn frá Denver í Bandaríkjunum þar sem hann fékk í hendurnar fyrstu eintökin af bók sinni Tímakistunni á ensku. „Hún er núna komin út á að ég held 12 tungumálum. Ég var að fá kínversku útgáfuna um daginn og hún virðist ganga vel í Grikklandi og Portúgal. Bækurnar mínar eru komnar út á ca. 35 tungumálum. Núna er ég að ganga frá bók sem á að koma út á þessu ári. Þannig að það er í mörg horn að líta,“ segir Andri Snær.

Á göngu á Skeiðarárjökli.
Á göngu á Skeiðarárjökli. Ljósmynd/Aðsend

Í kvöld heldur hann erindi á opnum fyrirlestri í Háskólabíói þar sem umhverfismál á Íslandi verða tekin fyrir og rædd út frá mismunandi sjónarhornum. ,,Ég kalla erindið Að kveðja hvítan risa. Raxi mun vera með aðalatriðið og segja frá sínum mögnuðu myndum sem hann hefur tekið af ís og jöklum. Ég ætla meðal annars að segja frá ferð yfir Skeiðarárjökul sem er eitthvert sérstæðasta landslag sem ég hef komist í tæri við og hvað það er erfitt að gera sér í hugarlund að þessi mikli massi geti horfið á einni mannsævi. Hvernig þessi mál eru á einhvern hátt handan skilnings fyrir okkur. Síðan fer ég aðeins út í hvað vísindamenn hafa sagt að við þurfum að gera á næstu árum til að sporna við enn meiri breytingum. Við þurfum að hafa stöðvað alla losun á 30 árum og það hljómar eins og fullkomið óraunsæi. Ef við hugsum síðan um krakkana sem eru í loftslagsverkfalli þá hafa mörg þeirra kynnt sér málin mjög vel og það er erfitt að tala um þetta án þess að slökkva glóðina í augum þeirra. Ég er búinn að spinna þráð um það mál, hvað er hægt að gera á 30 árum. Þetta er einhver stærsta áskorun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir og það á þar með við um sjálfan mig, sem hluta af þessu mannkyni.“

Ýkta Ísland

Ó! Ísland þú ert þvílíkt flott

með þúfur og jökla og geggjaða fossa

þótt veðrið sé reyndar grátlega gott

með gjafmilda himna á rennblauta kossa

þá ertu Ísland indælt sker

ýktasti staður á jörðu er hér.

Já! Land mitt þú ert ágætis eyja

æðislegt finnst mér hérna að lifa

og að lokum sjálfsagt dýrðlegt að deyja

einn daginn er lífsklukkan hættir að tifa

þá hvíli ég í þinni mergjuðu mold

móðir mín góða, Ísafold.

eftir Andra Snæ

Ljóðið er frá 1994, samið í tilefni af lýðveldisafmælinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert