„Þetta er nokkurs konar mini Landvættur ef svo má segja, eina sem vantar er sundið,“ segir Einar Ólafsson, einn af skipuleggjendum keppninnar. „Gengnir verða 10 km á gönguskíðum í tiltölulegra léttri braut. Fyrst er genginn einn 6 km hringur á gönguskíðasvæðinu út frá skála Ullar í Bláfjöllum. Síðan rennir fólk sér við hliðina á veginum um 4 km langa leið niður að afleggjara Bláfjallavegar. Þar er skipt yfir í hjól og hjólað sem leið liggur niður Bláfjallaveginn í átt að Ásvallahverfinu í Hafnarfirði um 22 km langa leið. Að lokum er stokkið af hjólinu og hlaupið um 5 km langa leið á hlaupastíg og í kringum Ástjörn og komið í mark við Ásvallalaug.“ Eftir keppnina er verðlaunaafhending og fá allir keppendur frítt í sund í Ásvallalaug að lokinni keppni.
„Þetta er í fyrsta sinn sem svona keppni er haldin á Íslandi. Fyrir allmörgum árum var haldin svipuð keppni á Akureyri þar sem keppt var í sundi í stað hjóls, þannig að þessi þríþraut sameinar svo sannarlega vetrar- og sumaríþróttir.“ Mikill áhugi er á keppninni en verið er að svara eftirspurn þar sem hundruð hlaupara og hjólara hafa einnig heillast af skíðagönguíþróttinni undanfarin ár og því er þetta tilvalin keppni fyrir þetta fólk að sameina þessar þrjár íþróttagreinar. „Keppnin er til styrktar okkar besta skíðagöngumanni, Snorra Einarssyni, sem var einungis 18 sekúndur frá því að lenda í verðlaunasæti í 50 km göngunni á heimsmeistaramótinu i Seefeld í Austurríki í vetur,“ segir Einar.
Áhugasamir geta skráð sig hér en opið er fyrir skráningar til 5. apríl.