Förum út að leika frekar en að taka til

Eftir 50 kílómetra í Fossavatnsgöngu 2016. Allar komust í mark …
Eftir 50 kílómetra í Fossavatnsgöngu 2016. Allar komust í mark en um 100 manns hættukeppni þetta ár vegna aðstæðna. Ljósmynd/Aðsend

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, kennari á Ísafirði, er ein Gullrilla. Hún segir hópinn hafa orðið til haustið 2015 í kjölfar þess að nokkrar úr hópnum skipulögðu ráðstefnu um stöðu jafnréttismála.

„Stórhugur var í mörgum eftir eflandi dagskrá dagsins og var því kastað fram að fara 50 kílómetra í Fossavatnsgöngunni. Það var svo bara ákveðið, þjálfari ráðinn og hópur stofnaður.“

Hún segir að eftir það hafi ekki verið aftur snúið og allar skráðu sig í gönguna. Reynsla kvennanna af gönguskíðum var þá mismikil, allt frá keppniskonum yfir í aðrar sem aldrei höfðu stigið fæti á gönguskíði.

Stelpurnar kjósa frekar að fara út að leika en að …
Stelpurnar kjósa frekar að fara út að leika en að sinna heimilisstörfum. Ljósmynd/Aðsend

„Við tók stíft æfingaprógramm sem fyrrverandi Ólympíufari á gönguskíðum deildi með okkur. Við lögðum okkur fram við að æfa okkur með því að taka þátt í sem flestum keppnum. Einu sinni vorum við stoppaðar á ráslínunni og okkur bent á að konurnar ættu að ganga 10 kílómetra á eftir körlunum en við létum það ekki stoppa okkur og brunuðum 20 kílómetra með körlunum,“ segir Ólöf.

Geta alltaf treyst á æfingafélaga hver í annarri

Gullrillurnar æfa ekki reglulega saman en eru duglegar að leita hver til annarrar. „Við erum margar að æfa saman Crossfit í nýju fínu Crossfit-stöðinni á Ísafirði. Svo erum við að hlaupa, ganga, hjóla, skíða, synda, sörfa og svo má ekki gleyma mikilvægustu æfingunum sem eru svokallaðar rauðvínsæfingar. Við erum duglegar að láta hver aðra vita þegar við förum út að hreyfa okkur og getum alltaf treyst á að fá félagsskap hver af annarri,“ útskýrir Ólöf. Hún segir þær jafnframt reyna að fara saman í ferðir tvisvar á ári en á haustin er farið í árlega æfingaferð þar sem er hjólað, synt í sjónum og allt gert sem umhverfið hverju sinni býður upp á. „Við erum svo heppnar að ein okkar rekur ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures og fórum við t.d. í frábæra fjallaskíðaferð í Jökulfirðina á vegum þess. Svo hefur hluti af hópnum farið saman til útlanda í hjólaferð og eiga þær eflaust eftir að verða fleiri í framtíðinni,“ segir Ólöf.

Ungir sem aldnir á gönguskíðum á Ísafirði

Að sögn Ólafar fer útivistarsenan fyrir vestan sífellt stækkandi enda aðstæður mjög ákjósanlegar fyrir fjölbreytta íþróttaiðkun. „Senan er alltaf að stækka og breytast en nýlega var ein Górillan (eiginmenn Gullrilla eru Górillur) að smíða fjallahjólabraut og hefur fengið í lið með sér okkur Gullrillurnar og áhugafólk um hjólamennsku. Nýstofnaður hjólaklúbbur Vestfjarða er með stór plön um að bæta aðstöðu hjólreiðafólks á svæðinu enda mikill áhugi fyrir því. Fjallaskíðamennska og sjósund hefur líka eflst síðastliðin ár og tóku nokkrar úr okkar hópi þátt í Sæunnarsundinu síðastliðið sumar en það var haldið í fyrsta sinn og var þá Önundarfjörðurinn þveraður,“ útskýrir Ólöf. „Svæðið er náttúrulega útivistaparadís og Ísfirðingar mjög duglegir við að nýta sér það sem svæðið hefur upp á að bjóða. Á dalnum eru ungir sem aldnir á gönguskíðum og svo er göngustígurinn meðfram hraðbrautinni vel nýttur. Ísfirðingar eru ótrúlega flottar fyrirmyndir hvað varðar hreyfingu,“ segir Ólöf.

Hópurinn er samhentur.
Hópurinn er samhentur. Ljósmynd/Aðsend

Uppskrift að útivist í Ísafjarðarbæ

Flestir hafa heyrt um skíðaiðkun á Ísafirði en mörgum er líklegast ekki kunnugt um sjósundið og fjallahjólamenninguna sem þar hefur nýverið sprottið upp. Ólöf deilir með okkur eftirfarandi dagskrá fyrir góðan útivistardag á svæðinu: „Gott er að byrja daginn á góðri göngu eða hlaupi um bæinn með smá útsýnisfléttu. Á Ísafirði, Flateyri og í Bolungarvík eru flottir varnargarðar með útsýni sem hægt er að ganga uppi á. Í hádeginu gæti verið möguleiki á „sörfi“ á Costa del Bolungarvík en í versta falli er hægt að taka gott sjósund í sandfjörunni þar eða í Holti í Önundarfirði, sem gæti verið góð æfing fyrir Sæunnarsundið. Seinni partinn myndum við að vetrarlagi fara á skíði og höfum við þetta fína val því Dalirnir tveir eru með besta gönguskíðasvæði á landinu og svo ágætis svigskíðasvæði fyrir utan öll fjöllin þar sem má renna sér á fjallaskíðum. Á sumrin er það hjólabrautin sem kallar og er best að leggja við Vegagerðina í Dagverðardal en þaðan er hægt að hjóla eða keyra upp á Botnsheiði þar sem brautin hefst. Við endum alla góða útivistadaga á góðum mat og drykk svo þá er bara að rölta á næsta veitingastað og njóta. Svo eru ótal möguleikar fyrir fjallahlaup, fjallahjól, kajak, klifur og ýmislegt annað sem gerir svæðið að mekka útivistar.“

Vinkonurnar í lok Jökulsárhlaupsins.
Vinkonurnar í lok Jökulsárhlaupsins. Ljósmynd/Aðsend

Byrjendur þurfa ekki að kaupa allt nýtt

Margir eru smeykir við að byrja að stunda nýja íþrótt og vita hreinlega ekki hvar bera eigi niður. Ólöf hvetur byrjendur til að finna sér félaga til að hvetja sig áfram og fá ráð hjá öðrum. „Vertu óhræddur við að taka þátt í keppnum og spjalla við fólk sem er þér reyndara. Það þarf ekki að kaupa allan búnað þegar þú ert að byrja og gott að fá lánað eða nota það sem þú átt, sem dæmi fórum við með línuskautahlífar í fyrstu hjólaferðina okkar til Slóveníu. Hugaðu að andlega þættinum með því að trúa því og sjá fyrir þér að þú náir markmiðum þínum. Finndu góðan „peppara“ sem styður þig áfram, við fundum ótrúlegan styrk í því að vera margar saman og hvetja hver aðra áfram í því sem við tökum okkur fyrir hendur.“

„Fyrir upptekna forelda mæli ég með að nýta hvert tækifæri til að taka börnin með á skíði, hjólið, sjósundið eða sörfið eða einfaldlega redda pössun. Við erum duglegar að passa fyrir hver aðra því sumar eru ekki með fjölskyldu á svæðinu. Ein góð regla sem við förum t.d. eftir er að fara út að leika sér í stað þess að taka til,“ segir Ólöf glöð í bragði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert