Fyrir nokkrum árum ákvað Eyrún Ásgeirsdóttir að venda kvæði sínu í kross og flytja norður á Akureyri. Þar fékk hún smjörþefinn af lífinu á fjöllum og líf hennar tók stakkaskiptum. Fljótlega var hún farin að renna sér á fjallaskíðum í fyrsta sinn og fór reglulega út fyrir þægindarammann. Í dag eiga hreyfing og útivist hug hennar allan.
„Fjölskyldan á sumarbústað í Leirufirði í Jökulfjörðum og sumrin einkenndust því oft af fjallgöngum og ýmiskonar útiveru þar. Ég byrjaði líka snemma á skíðum og var virk á þeim framan af,“ segir Eyrún.
Hún fór til höfuðborgarinnar í háskóla eins og gengur og starfaði í banka eftir nám. Hún fann að sig vantaði breytingu og hafði verið í ákveðinni lægð er kom að hreyfingu og útiveru. „Það var ekki fyrr en ég flutti norður árið 2015 sem ég fór að enduruppgötva útivistina og fjallgöngur. Systir mín og fjölskylda hennar búa á Akureyri og eru þau mikið á skíðum, Til að byrja með elti ég þau og fór að vera með þeim í fjallinu. Þau voru að kaupa sér fjallaskíði og ég ákvað að vera með í partíinu, en þá má segja að hafi opnast alveg nýjar dyr fyrir mér.“
Fljótlega eftir að hún keypti skíðin kynnist hún svo kærastanum sínum sem er einnig mikið í útivist.
„Fjallaskíðin og útivistin almennt er því okkar sameiginlega áhugamál sem er dásamlegt. Síðastliðið haust byrjaði ég svo í nýliðaprógrammi hjá Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri en þar hef ég lært ýmislegt nýtt og skemmtilegt sem tengist útivist.“
Eyrún segir að lífið hafi sannarlega breyst í kjölfar útivistaráhugans. „Ég fór frá því að eiga mikinn frítíma yfir í að vera mjög upptekinn einstaklingur. Ég hef heldur aldrei verið jafn dugleg við að skoða veðurspá! Flestar helgar yfir vetrarmánuðina síðustu ár hafa verið nýttar á skíðum, þá bæði fjallaskíðum og utanbrautargönguskíðum. Ég er mjög heppin með fólkið í kringum mig og hef lært mikið af því, tekið töluverðum bætingum og kynnst fullt af nýjungum í þessu. Eitt það skemmtilegasta við útivistina er þegar ég næ að toppa sjálfa mig, þegar maður sparkar hugsuninni „nei ég get þetta ekkert“ svo langt í burtu að maður þekkir hana ekki lengur.“
Þegar Eyrún er spurð um eftirminnilegan dag uppi á fjöllum er hún fljót að nefna þegar hún gekk ein milli fjarða á Hornströndum. „Sumarið eftir að ég flutti norður stökk ég á tækifæri til að fara í fjögurra daga göngu á Hornströndum með systrum pabba og fleiri vel völdum konum. Ég hafði nokkra aukadaga eftir þá göngu og ákvað því að ef það myndi spá sæmilegu veðri dagana eftir göngu myndi ég bæta einum göngudegi við og enda í sumarbústaðnum okkar í Leirufirði. Veðrið var gott svo ég sló til. Við enduðum gönguna í Miðkjós í Lónafirði þar sem við vorum sóttar. Ég fékk aukabúnað og tjald og var skutlað á bátnum yfir í Sópanda í Lónafirði meðan aðrir fóru til byggða. Ég gisti þá nótt ein í tjaldi í Sópanda og labbaði yfir Hrafnfjörð og þaðan yfir í Leirufjörð. Allt heppnaðist vel þrátt fyrir smá þoku og myrkfælni. Þetta var kannski ekki svo langur tími eða löng leið en þetta var stórt skref fyrir mig.“
Eyrún segist þó ekki aðeins hafa eignast nýtt áhugamál heldur hafi líðan hennar breyst til hins betra.
„Ég tengi bætta andlega líðan mikið við aukna hreyfingu og útiveru. Ég er farin að stunda útihlaup allt árið og þau eru auðvitað góð undirstaða fyrir alla aðra útivist. Mér finnst líka gott að halda mér í fínu líkamlegu formi en þá er maður betur tilbúinn að stökkva til ef það kemur gott tilboð um ferð með litlum fyrirvara. Mér finnst ég hreinlega funkera betur andlega þegar ég stunda mikla hreyfingu en þegar ég var sófakartafla.“
En hvað myndi Eyrún ráðleggja þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í útivist líkt og hún gerði fyrir ekki svo löngu? „Láta vaða! Það er kannski klisjukennt en þetta er satt, allavega fyrir mína parta. Það er mikil gróska í útivist þessa dagana og fullt af námskeiðum og hópum sem hægt er að sækja í til að kynnast því sporti sem þú hefur áhuga á. Það hefur reynst mér vel að vera með öðrum sem eru aðeins betri í sportinu en ég, læra af þeim og þeirra þekkingu. Svo er það bara æfingin sem skapar meistarann, það er enginn meistari í fyrstu tilraun svo maður þarf ekkert að hafa áhyggjur af því að vera ekki bestur. “