Þau hafa ferðast víða og tekið þátt í ótrúlegustu ævintýrum saman og ásamt börnum sínum fjórum sem erft hafa ævintýraþránna frá foreldrum sínum. Sem barn bjó Ólafur Már í Svíþjóð þar sem faðir hans var í sérnámi í augnlækningum.„Við bjuggum í Falun sem er rétt sunnan við Sälen, þar sem Vasa skíðagöngukeppnin er haldin. Ég bjó þarna frá 8-12 ára aldurs og komst ekki hjá því að kynnast gönguskíðum.“ Björn Már, faðir Ólafs Más, er mikill skíðagöngumaður og stundar íþróttina af krafti þrátt fyrir að vera kominn á áttræðisaldur. „Pabbi fór í sína fyrstu Vasa göngu árið 1980 en hann hefur líklega verið fjórði eða fimmti íslendingurinn sem hefur tekið þátt frá upphafi keppninnar. Einn besti vinur hans úti varð síðar stjórnarformaður keppninnar og er nýhættur þar en hann hefur stýrt keppninni öll þessi ár og stuðlað að aukinni þátttöku Íslendinga í keppninni.“
Börnin alin upp á gönguskíðum
Hjónin bjuggu í Noregi í tæp tíu ár þar sem Ólafur Már fetaði í fótspor föður síns og fór í sérfræðinám í augnlækningum. „Við stunduðum svigskíði af krafti en kynntumst ekki skíðagönguíþróttinni fyrr en undir það síðasta. Þá stálumst við stundum einn hring í skóginum, aðeins til að komast frá krökkunum, það var mjög huggulegt,“ segir Ólafur Már. Í Noregi er það svo að það er skylda að læra á gönguskíði í grunnskólum landsins. „Þegar það er leikfimi í skólanum þá þurfa þau að taka skíðin með sér, ef þau eiga ekki skíði þá eru þau til í skólanum,“ segir Þóra og bætir við að þetta sé bara hluti af þeirra menningu. „Það er svo áhugavert að Norðmenn vilja ekki kenna börnunum á svigskíði fyrr en þau hafa náð tökum á skíðagöngu. Börnin eru send með gönguskíðin í leikskólann án stafa eða út í sleðabrekku og þar ganga börnin upp á skíðunum og renna niður, fara í eltingaleiki og ná góðum tökum skíðunum, þú getur ímyndað þér tæknina sem þau læra. Þannig að börnin okkar eru nánast alin upp á gönguskíðum,“ segir Þóra.
Þrjár kynslóðir í Vasa
Fyrir tíu árum síðan, þegar elsti sonur hjónanna var á nítjánda ári, fóru þeir feðgarnir ásamt föður Ólafs Más í Vasa skíðagöngukeppnina. Síðan þá hafa elstu þrjú börnin öll farið nokkrum sinnum í þessa keppni, yngsta er ekki enn komið með aldur en bíður spennt. Fyrir þá sem ekki þekkja til keppninnar þá er þetta 90 kílómetra löng skíðagöngukeppni þar sem um 16 þúsund manns taka þátt í árlega. „Það var eftir þá keppni að ég fór að hvetja Þóru til að koma með á gönguskíði. Við vorum búin að vera að fara í skíðaferðir til Trysil með stórum vinahópum sem sum hver sýndu Vasa keppninni áhuga. Það var þá sem áhuginn fór að kvikna hjá Þóru.“
Þóra byrjaði á því að kaupa sér gönguskíði og prófa á jafnsléttu. „Ég kunni ekki neitt en byrjaði á því að skrá mig í 25 km keppni í Fossavatnsgöngunni á Ísafirði. Ég hringdi svo beint í vinkonu mína og tilkynnti henni að ég væri búin að skrá mig í keppnina.“ Vinkonan var að líkindum hissa yfir þessu framtaki Þóru og spurði hvort hún þyrfti nú ekki að kunna eitthvað á skíðin áður en hún hæfi keppni? „Ég sagði henni að þess gerðist ekki þörf því þegar ég væri búin með þessa 25 kílómetra þá kynni ég á skíðin, þannig ég fór þá leið ásamt vinkonunni. Á þessum tíma, fyrir 4 árum, þá var lítil aðsókn í keppnina og ég endaði í þriðja sæti í mínum aldursflokki,“ segir Þóra og hlær. „Hún er eina manneskjan í fjölskyldunni sem hefur staðið á verðlaunapalli úr Fossavatnsgöngunni,“ segir Ólafur Már.
Ári síðar tóku hjónin þátt saman í Vasa skíðagöngunni en þá hafði Þóra aldrei gengið lengra en þessa 25 kílómetra í Fossavatnsgöngunni. Aðspurð hvernig það hefði verið að ljúka 90 km keppni segir Þóra að þetta snúist mikið og axlir og að hún sé alveg nautsterk. „Ég var búin að æfa mig þannig að ég var góð á jafnsléttu og gat alveg ýtt mér langa leið, þetta snýst meira um úthald en tæknilega séð var ég ekki mjög góð.“ Annað skiptið sem þau hjónin tóku þátt saman í Vasa göngunni fóru þau í nætur Vasa. „Það var algjör ævintýraganga og einungis 1500 manns sem fórum í þá keppni eða 750 pör. Það voru allir með höfuðljós og öll önnur ljós voru slökkt. Þetta var mjög rómantískt,“ segir Þóra.
Skemmtilegra að upplifa hlutina saman
Hjónin eru mjög samrýnd og takast á við verkefnin saman tvö eða ásamt börnunum sem heild.„Mig langar ekki að fara út í eitthvað sem hún hefur ekki áhuga á. Eins og það er skemmtilegt að fara eitthvað með strákunum þá finnst mér ekki síðri dýnamík þegar bæði kynin eru með,“ segir Ólafur Már. Eftirvæntingin og undirbúningurinn er líka stór hluti af verkefnunum og segir Þóra það ekki síður vera skemmtilegt en viðburðurinn sjálfur. „Við erum að tala saman um hvernig eigi að gera þetta og hvernig þetta verði, þannig að það er skemmtilegra að upplifa þetta allt saman sérílagi góðum vinum,“ segir Þóra.
Fjölskyldan fór saman í skíðagöngukeppnina víðfrægu, Birkebeinerennet í Lillehammer, á dögunum. Keppnin er 54 km og nú gátu öll börnin tekið þátt og luku keppni með glæsibrag. Einnig gekk faðir Ólafs gönguna. Aðstæður voru frábærar, blár himinn og gott færi. Í þessari keppni er farið yfir tvö fjöll og heiðar þannig að útsýnið er stórkostlegt en að sama skapi meiri brekkur.
Framundan er heilmikið um að vera hjá hjónunum. Þau fagna bæði fimmtugsafmæli á árinu og eru með mörg járn í eldinum þegar kemur að útivistinni. „Við verðum fyrir norðan um páskana á fjallaskíðum með okkar stóra og skemmtilega ferðahópi Ísbjörnum. Stefnan er svo tekin á Hvannadalshnjúk með Ferðafélagi Íslands á afmæli Þóru í júní. Svo eru ýmsar hjólaferðir, göngur og ævintýraferðir,“ segir Óli. Það er ekki laust við að maður fyllist aðdáun við það að hlusta á og fylgjast með þessum ævintýrahjónum sem láta fátt eitt stöðva sig í leit að næstu ævintýrum. Þess má geta svona rétt í lokin að Ólafur Már er ansi lunkinn ljósmyndari og má skoða myndbönd hér og ljósmyndir hér.