Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar

Hjónin Matti og Dalla, umsjónarmenn Ferðafélags barnanna.
Hjónin Matti og Dalla, umsjónarmenn Ferðafélags barnanna. Ljósmynd/Aðsend

Verkefnið hlaut mjög góðar viðtökur í fyrra og það voru um 100 börn sem gengu á sex fjöll í nágrenni höfuðborgarinnar í bráðskemmtilegum göngum. Markmiðið með verkefninu er að skapa skemmtilega samveru fyrir börn og fjölskyldur þeirra þar sem allir fá að reyna á sig og njóta náttúrunnar. „Það var ótrúlega gaman að sjá dugnaðinn í öllum krökkunum í fjallgöngunum í fyrra. Þau voru mjög einbeitt að klára allar göngurnar sex og ef þau komust ekki þá fengum við stundum sendingar um að þau hefðu bara farið á öðrum tíma með fjölskyldunni sinni,“ segir Dalla Ólafsdóttir, annar umsjónarmanna Ferðafélags barnanna. Hún og Matthías Sigurðarson eiginmaður hennar halda utan um verkefnið og segja að það sé augljóst að fjallgöngurnar séu tilvaldar til að efla með börnunum seiglu og sjálfstraust en umfram allt sé gaman að vera úti með stórum hópi annarra barna og sigrast á sjálfum sér.

Samrýnd fjölskylda hvílir lúin bein eftir göngu með Ferðafélagi barnanna.
Samrýnd fjölskylda hvílir lúin bein eftir göngu með Ferðafélagi barnanna. Ljósmynd/FÍ

Fyrir börnunum sé hvert fjall, hvort sem það er á hæð við fimm eða átta Hallgrímskirkjuturna, alvöruáskorun sem þau gleðjast innilega yfir að komast á toppinn á. „Svo finnst krökkunum ómissandi að taka með íslenska fánann og taka toppamynd eins og alvörufjallagarpar gera,“ segir Matthías.


Fyrsta gangan 9. maí

Eins og áður sagði hefst verkefnið með göngu á Selfjall fimmtudaginn 9. maí næstkomandi. Sunnudaginn 26. maí verður svo gengið á fallega Keili á Reykjanesi og fimmtudaginn 6. júní verður ganga á Skálafell á Hellisheiði. Að afloknu sumarfríi barnanna verður svo tekinn upp þráðurinn með skemmtilegri göngu á Ásfjall í Hafnarfirði 15. ágúst en Ásfjall lætur lítið yfir sér en býður upp á skemmtilegt útsýni yfir höfuðborgina. Vífilfell verður svo toppað 29. ágúst og lokahátíð verður svo uppganga á fallegu Móskarðshnúka sunnudaginn 22. september. Þar fá börnin afhent viðurkenningarskjal fyrir að klára allar göngurnar og titilinn Fjallagarpur Ferðafélags barnanna auk þess sem pylsur verða grillaðar að hefðbundnum íslenskum sið!

Gönguferðir á vegum Ferðafélags barnanna eru sívinsælar.
Gönguferðir á vegum Ferðafélags barnanna eru sívinsælar. Ljósmynd/FÍ


Verkefnið er ætlað duglegum börnum allt frá 4-5 ára aldri og fjölskyldum þeirra og geta allar þær fjölskyldur sem eiga félagsmenn í Ferðafélagi Íslands tekið þátt. Fjallagarpaverkefnið hefst 9. maí eins og áður sagði með göngu á Selfjall og verður brottför frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6, kl. 16:30. Hver ferð verður svo sérstaklega kynnt á Fésbókarsíðu Ferðafélags barnanna og þá er upplýsingar að finna á heimasíðu FÍ um hverja göngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert