Hjólaraunir miðaldra konu  

Pistlahöfundur alsæll á nýja hjólinu.
Pistlahöfundur alsæll á nýja hjólinu. Ljósmynd/Hrafnhildur Tryggvadóttir

Ég hafði hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og nú var bara næsta verkefni að finna út úr þessu. Ég hafði fyrirfram minnstar áhyggjur af hjólinu, ég hafði átt nokkur hjól og þó að ég hafi ekki hjólað síðan snemma á þessari öld þá var þetta nú nokkuð basic, 2 dekk, stýri og hreyfa fæturnar. Það kom á daginn að svo var ekki.

Óþægileg hjólaföt

Ég sá nú ekki fyrir mér að ég væri að fara að hjóla úti í snjó og kulda og komst að því að Þríþrautardeild Breiðabliks væri með innihjólaæfingar sem gæti nú bara verið frábært til að koma mér í form. Ég skráði mig því í félagið og spurði hvað ég þyrfti að kaupa, jú hjólaskó, hjólabuxur og hjólabol. Mér fannst þetta ógurlega mikið snobb, þar sem ég átti fínustu íþróttabuxur og strigaskó en ákvað samt að fara í sérstaka hjólabúð og kanna með svona græjur. Þá kom nú í ljós að þetta eru í alvörunni sérstakir hjólaskór og það þarf að skrúfa eitthvað dót undir sólann sem síðan er festur á pedalanna, já eimitt, það hefur eitthvað breyst á þessum 15 árum síðan ég hjólaði síðast. Ég fann mér ógurlega sæta skó, var búin að ákveða að hafa þá bleika og stelpulega enda bara fjörutíuogeitthvað. Það gekk nú bara ekkert sérstaklega vel að kaupa þessa skó. Ég fann enga bleika en eina svarta með bleiku í. Ég bað um þá í 38.5. Viltu ekki prófa þessa sagði afgreiðslumaðurinn og rétti mér dökkbláa í stærð 40. Nei takk, ég ætla að fá þessa í 38.5, en þessa viltu ekki prófa þá, nei þessir eru blágrænir í stærð 39, ég ætla að fá þessa þarna. Eftir ansi margar tilraunir þá fékk ég loksins að prófa skóna og þeir voru bara svona ansi passlegir, afgreiðslumaðurinn setti járnadótið undir skóna og ég var tilbúin, hélt ég. Svo bætti ég við, ég þarf víst hjólabuxur og bol líka. Ég þurfti að fara í nokkrar búðir þar sem mér fannst þetta bara ekki nógu krúttlegir gallar. Fékk aldrei það sem ég vildi fyrr en ég fór að segja, ég ætla að fá hjólabuxur sem þú myndir kaupa handa kærustunni þinni. Fann mjög fínar buxur en þær voru bæði óþægilegar og stuttar. Það kom á daginn að allar hjólabuxur eru með massívum púðum í klofinu til að koma í veg fyrir óæskileg særindi á þessu svæði og svo lærði ég töluvert seinna að það má ekki vera í nærbuxum og fyrir lengri ferðir þarf víst að kaupa sér ákveðin krem fyrir ákveðin svæði. Ég reyndi mikið að kaupa mér síðari hjólabuxur, hafði lítinn áhuga á að mæta hálfnakinn í fyrsta tímann. Mér var bent á að það yrði allt of heitt. Það kom heldur betur á daginn að konu verður ekki kalt í þessum tímum. Mér er þetta sérstaklega minnisstætt þegar ég sé ekki fyrir svita og móðu.

Fyrsti innihjóladagurinn og ýmislegt skrýtið kom í ljós

Svo rann dagurinn upp og ég mætti í fyrsta innihjólatímann minn hjá Þríþrautardeild Breiðabliks. Valdi mér hjól og settist á það. Fyrsta ábending, það er hægt að stilla allskonar á hjólinu og fyrir lágvaxnar konur þá er mjög gott að byrja á því. Þegar hjólið var komið þá byrjaði ég að hjóla. Þá kom ábending 2, ég snéri pedulunum vitlaust, járndótið undir skónum átti að festast í járndótið á pedulunum. Já há, það bara gerðist ekki. Ég var búin að reyna og reyna og leist bara ekkert á blikuna. Loksins gafst einn æfingafélaginn minn upp á að horfa á þessar hörmunartilraunir, stökk af hjólinu sínu og festi mig. Þannig að fyrsti tíminn gekk bara ansi vel. Ég var samt meira að fókusa á að lifa hann af en að einhverja tækni eða hraða. Svona gengu tímarnir fyrir sig fyrstu vikurnar. Ég var óratíma að festa mig en það hafðist nú alltaf á endanum, og ég gat byrjað að æfa. Eftir nokkra tíma segir kennarinn, núna tökum við Single leg, allir að hjóla á vinstri. Þetta gekk svo hratt fyrir sig að ég var ennþá að reyna að losa mig af pedalanum (já það er sko eitt að festa sig, annað að losa sig) þegar liðið

var búið að skipta yfir á hægri. Loksins þegar ég náði að losa mig og hjólaði Single leg þá gat ég bara ekkert fest mig aftur þannig að í nokkrar vikur hunsaði ég bara þennan hluta æfingarinnar. Þetta var svolítið valið um að hjóla single leg og svo bara ekki meira eða hjóla bara á báðum. Það tók mig næstum mánuð að ná tökum á þessu að festa skóna og losa þá á eðlilegum tíma. Ég íhugaði að hætta í þessum tímum áður en ég yrði rekin með skömm en bæði Þríþrautardeild Breiðabliks og Landvættir taka svo rosalega vel á móti týndu fólki eins og mér að ég fékk ekki einu sinni gula spjaldið. Ég ræddi þetta einu sinni við Hildu vinkonu mína. Ég sagði, ég hef bara aldrei kynnst svona stórum hóp af fólki þar sem allir eru svona ánægðir og hjálpsamir. Hún sagði, fólk sem hreyfir sig reglulega er bara ánægðara. Þetta minnti mig á quote úr Legally blonde: "Exercise gives you endorphins. Endorphins make you happy. Happy people just don't kill their husbands. They just don't."

Svei mér þá ef þetta er ekki rétt, því meira sem ég hreyfi mig því ánægðari verð ég.

Hjólinu stolið

Í desember 2018 var svo komið að stóru stundinni, ég ákvað að kaupa mér hjól. Mér fannst þetta nú ekki flókið, ég þurfti hjól til að hjóla innan bæjar og svo í Bláa Lóns þrautin. Eitt hjól sem sagt. Mig grunaði að gamla hjólið mitt sem var keypt 1998 myndi líklega ekki duga. Ég valdi það afþví að það var rautt, Moongoose Pro með 7 gírum sem er nú bara hellingur af gírum, bögglabera og standara. Einu sinni var því hjóli stolið og þegar ég fór á lögreglustöðina til að tilkynna þjófnaðinn, þá lenti ég nú bara í yfirheyrslu. Hvaða stafir eru á slánni, æi man það ekki alveg en þeir eru hvítir. Hvernig er hjólið á litinn, það er rautt. Er það hárrautt eða meira svona vínrautt. Já, kannski meira út í vínrautt, þarna hugsaði ég, en fyndið og pínu furðulegt að ég lendi á svona mansískri tískulöggu, ekki nóg að segja bara rautt, heldur þurfti hann að greina litatónana. Þegar hann var búinn að greina hjólið í öreindir sagði hann, komdu hérna á bakvið, ég held að hjólið sé hjá okkur. Þarna beið fákurinn eftir mér, segir kannski eitthvað um gæðin á því að enginn vildi það 

Gamla hjólið sem fékk að fjúka.
Gamla hjólið sem fékk að fjúka. Ljósmynd/Aðsend

Hversu flókið getur verið að kaupa hjól ?

Ég var nýbúin að kaupa mér gönguskíði og það var dásamlega einfalt, maðurinn vildi vita hæð, skóstærð og þyngd, mér fannst það nú ansi mikið hnýsni í honum að vilja vita hvað ég væri þung en þetta var víst eitthvað með rennsli á skíðunum þannig að hann lagði mjög mikla áherslu á að ég gæfi upp rétta tölu. Ég ákvað að það væri best að nota sömu tækni við hjólabúð.

Fór inn í búð og sagði, ég þarf að kaupa mér hjól, ég veit ekkert um hjól og þarf bara eitt ágætt sem ég get hjólað á innanbæjar og svo Bláalónsþrautina. Já ekkert mál, þetta hjól hérna gæti hentað vel, frábært ég tek það. En svo bætti hann við, svo erum við með þetta hjól, munurinn á A og B er .... svo taldi hann upp endalaus tækniatriði um dempara, bremsur, stýri, sæti, þyngd og eitthvað meira, mér leið eins og ég væri komin í eðlisfræðipróf sem ég gleymdi að lesa fyrir. Hvað með bara rautt hjól, áttu ekki eitthvað svoleiðis handa mér? Þessi ferð var ekki til fjár, eða jú, ég hélt öllu mínu fé.

Fór í plan 2. Ég er búin að kynnast fullt af hjólakennurum og hjólasérfræðingum. Ég fæ þá bara til að velja eitt hjól handa mér. Þarna fór ég úr öskunni í eldinn, ef afgreiðslumaðurinn var klár þá var ég komin í nóbelsverðlaunahafana í eðlisfræði núna. Tækniatriðin sem þeir voru með á hreinu voru bara alls ekki svo fá, eina sem allir voru sammála um að ég yrði að fá 2 hjól. Ég var bara ekki alveg tilbúin í það, þrátt fyrir að ég sé búin að skrá mig í Bláalónsþrautina þá fannst mér nú alveg nóg að kaupa eitt hjól. Ráðið sem allir gáfu mér var, farðu í nokkrar búðir og mátaðu hjólin og prófaðu þau. Til að það gengi upp þá þurfti ég pínu að vita að hverju ég var að leita, mér fannst nú nógu stressandi að vita hvort að ég gæti yfirleitt haldið jafnvægi á hjólinu, hvað þá að vita hvort að þetta væri þægilegra eða

auðveldara að skipta gírum etc. Ég get farið og mátað hælaskó og veit hvort að þeir séu þægilegir eða ekki, þannig að á endanum sagði ég. Það er álíka gagnlegt fyrir ykkur að segja mér að máta hjól og bera saman og mig að biðja ykkur að máta hælaskól í ykkar stærð.

Þegar vinkona reddar konu

Ég fór í minn fyrsta útihjólatíma á lánshjóli þann 15. Apríl 2019. Fannst kominn tími á að prófa þetta, ég var skíthrædd um að ég myndi ekki geta haldið jafnvægi á hjólinu enda ekki hjólað úti í 15 ár og það verður að segjast að innihjólin eru bara svo stöðug. Ég fékk allt lánað hjá Sissu meðeiganda mínum. Hjólið hennar, hjálminn hennar, hjólafötin hennar og jú Andra manninn hennar. Fyrsta ferðin gekk bara ansi vel þó að ég segi sjálf frá, ég datt aldrei, ég lærði mjög vel á bremsurnar því ég er með smá meinloku að ég er bæði lofthrædd og hraðahrædd, þannig að ég þarf að venjast aðstæðum í smá skömmtum. Þegar Andri sagði, núna hjólum við bara niður brekkurnar, þá æfði ég bremsurnar og jafnvægið. Ég fékk krampa í hendurnar þar sem ég hélt svo fast í stýrið og neitaði að drekka úr brúsa á ferð. Hjóluðum 13 km og ég var heldur betur ánægð með þetta, bæði lengdina og tímann, alveg þar við komum til baka og Sissa spurði, hvernig gekk, jú bara frábærlega sagði ég. Ég hef reyndar aldrei hjólað svona hægt, sagði Andri. Þetta minnti mig óþægilega á hann Gunnar Erling Vagnsson sem er með mér í Landvættaprógramminu. Hann tók einn hring með mér í Bláfjöllum og kenndi mér á brekkurnar þannig að ég stórbætti tímann minn. Þegar ég sagði honum að ég hefði aldrei farið hringinn svona hratt, sagði hann, já ég hef nú reyndar aldrei farið svona hægt.

Loksins fann ég hjólið

Þann 7. maí var loksins komið að því. Ég varð að fá mér hjól. Farið að styttast óþægilega í Bláalónsþrautina og hún yrði ekki sigruð hjólalaus. Ákvað að taka mér frí hálfan dag úr vinnu og rúnta milli hjólabúða. Var næstum því búin að kaupa mér eitt hjól sem virkaði ansi fínt þegar ég hringdi sem lokatékk í Hákon Hrafn Sigurðsson, þjálfara hjá Breiðablik. Nei nei Ásdís, þú getur ekki keypt malarhjól, nú, hvers vegna ekki. Þú ert að fara á götuhjólaæfingar, já og, þau fara miklu hægar en götuhjólin. Já ok, ég var sem sagt búin að skrá mig á hjólaæfingar hjá Breiðablik í allt sumar og valdi flokk C. Það er flokkurinn fyrir byrjendur. Vissi sem var að ég yrði hægust þannig að það yrði nú ekki á bætandi að vera líka á hjóli sem hægði á mér. Algjörlega buguð eftir hjólabúðirnar hringdi ég í Hildu vinkonu. Hún hefur alltaf ráð undir rifi hverju. Hún lagðist í smá vefrannsóknir enda einn besti bókasafnsfræðingur landsins. Þá kom í ljós að ég var ekki búin að fara í allar búðirnar og ekki nóg með það. Þessi var opin til klukkan 19:00. Rúsínan í pylsuendandanum, þeir voru með ofurtilboð á hjólum síðasta árs. Þau voru ekki bara flott og smellpössuðu við skíðagallann sem ég hafði keypt í Fjallakofanum og nýtist líka sem sumaríþróttaföt, heldur var hjólið á 50% afslætti. Hún sendi mér gps hnitin á búðinni í símann, ég keyrði beina leið og rauk inn og sagði, eitt svona hjól takk. Viltu ekki prófa hjólið sagði Kári í Pelotonbúðinni. Jú, jú, setti veskið í pant og tók einn hring á planinu. Fékk svo í kaupbæti vatnsbrúsa í stíl við hjólið. Svo fjárfesti ég auðvitað í hjálmi. Þegar ég var að borga tók ég eftir því að það voru engir pedalar á hjólinu. Bíddu, er þetta ekki staðalbúnaðar. Nei alls ekki. Fólk hefur miklar skoðanir á því hvernig pedalar eiga að vera. Jesús minn, er ekkert einfalt við þessi hjól? Hann sá að ég var greinilega ekki í neinum pedala sértrúarsöfnuði þannig að hann smellti sýningarpedulunum bara undir í kaupbæti. Það hvarflaði sko ekki að mér að taka hjólaskó til að festa við pedalana. Málið er einfalt, þó að ég sé búin að mastera að festa og losa skó af hjóli sem er fast inn í sal er ég bara ekkert svo viss um að það sé jafnauðvelt þegar þú ert komin á fulla ferð úti á götu. Þannig að eitt skref í einu, verða ein með hjólinu, geta sleppt því að bremsa niður brekkur og svo kaupa pedala og skó.

Tók svo 15 km hring með Hildu í Elliðarárdalnum um kvöldið og hjólið var bara alveg fullkomið.

Málið er að þegar þú ert að stíga þín fyrstu skref á hjóli og veist kannski ekki alveg hvað þú vilt þá er dýrt að kaupa hjól á mörg hundruð þúsund sem endar svo kannski bara inn í geymslu eða á sölusíðum á facebook fyrir notuð hjól.

Hvernig í ósköpunum á að flytja hjólið á milli staða?

Þegar ég var búin að kaupa mér hjól þá byrjaði næsti hausverkur. Ég þurfti einhvern veginn að selflytja hjólið, því æfingar geta byrjað hvar sem er og ekki var ég að fara að hjóla í Bláalónsþrautina. Það eru allskonar möguleikar í boði. Setja grind á toppinn eða aftan á bílinn, bæði til að festa á hlerann sem og á kúlu. Minn bíll var ekki með kúlu, enda var kúla fyrir mér alltaf til að draga hjólhýsi út á land í útilegur og kona sem keyrir ekki Kambana vegna lofthræðslu var sannarlega ekki á leiðinni út á land með hjólhýsi. Þarna fyrst byrjaði hausverkurinn, ég meina ég á ekki einu sinni bílinn minn. Hann er í rekstarleigu hjá Lykli. Fyrir mér eru bílar leið til að komast á milli A og B. Mér er eiginlega alveg sama hvað þeir heita. Ég var búin að vera á sama bílnum síðan 2007 og fannst hann mjög þægilegur. Alveg þangað til að hann fór að gera bara það sem hann vildi þegar hann vildi, eins og að drepa á sér í hringtorgum. Það var ekki alveg að virka fyrir mig þannig að ég vissi að það var komið að því að velja mér nýjan bíl. Ég hef oft mátað bíla og veit aldrei hvað ég vil. Mér finnst eiginlega meira mál að velja mér bíl en nöfn á börnin mín. Það voru margir búnir að leggja til að ég fengi mér Mitsubishi Outlander. Ég hélt nú ekki, þetta væri svona eldri borgara bíll. Pabbi á svona og bara rosalega margir sem ég þekki sem eru komnir á eftirlaun. Mig langar í sætan skvísulega rauðan bíl, ekki gráan. Þeir eru eitthvað svo litlausir og venjulegur. Svo einn daginn þegar bíllinn bugaði mig og ég bara gaf hann, þá poppar upp auglýsing frá Lykli um rekstarleigu. Ég setti dæmið upp í excel og þegar ég var búin að taka inn í viðgerðir á gamla bílnum sem voru orðnar ansi drjúgar, tryggingar og almennan rekstur, svo sem dekk og þjónustuskoðanir þá kom þetta út á pari. Skuldlausi bíllinn minn kostaði jafnmikið og rekstarleiga hjá Lykli. Fór og tók einn gráan Mitsubishi Outlander, jú það var bíllinn sem var á tilboðinu. Kom í ljós að ég hreinlega elska þennan bíl.

Ég ákvað því að senda póst á Lykil og kanna hvað ég mætti gera. Sko, ég er búin að skipta um lífstíl, mig vantar svona kúlu á bílinn. Má eitthvað eiga við þessa bíla hjá ykkur. Fékk svar um hæl. Já ekkert mál, við látum bara skella á kúlu fyrir þig og dreifum kostnaðinum á leigutímann. Þetta fannst mér algjör snilld, enda fer allt budgetið mitt núna í allskonar íþróttadót og föt.

Glaður hjólahópur saman kominn á æfingu hjá Breiðablik.
Glaður hjólahópur saman kominn á æfingu hjá Breiðablik. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsti hjólatíminn hjá Breiðablik

Loksins var ég klár í slaginn. Komin með hjólið og búin að finna út hvenær æfingar hjá Breiðablik væru og setja í dagatalið. Ég hafði smá áhyggjur af því að ég væri ekki nógu góð enda búin að hjóla úti þrisvar á þessari öld og samtals 49 km í heildina. Hins vegar var ég búin að vera á innihjólaæfingum síðan í október og það kom í ljós að þær áttu eftir að skila sínu. Ég viðraði þessar áhyggjur við Hákon Hrafn þjálfara hjá Breiðablik. Hann sagði orðrétt: „sæl Ásdís, ég var að lesa það sem þú skrifar. Í gegnum Landvættina hef ég tileinkað mér möntruna: Ekki hugsa, bara gera.“ Hann sló öll vopnin úr höndunum á mér og fimmtudaginn 9. maí mætti ég á mína fyrstu hjólaæfingu. Ég hjólaði meira að segja á æfinguna. Fannst ég hrikalega dugleg, enda aldrei hjólað ein á þessari öld, fínn hraði þangað til 5 ára barnið með hjálpardekkin tók framúr mér. Ætli það megi taka Bláalónsþrautina á hjálpardekkjum? Þegar ég mætti leit þetta ekki vel út, ég var strax tekin afsíðis. Ásdís mín, við þurfum aðeins að laga þetta. Ég var ennþá með plast á hjólinu og hjálmurinn var ekki réttur á mér. Annars leit þetta bara vel út. Ég var búin að skoða planið. Það var í stuttu máli, hjólum bara allt

höfuðborgarsvæðið. Í C flokki voru 2 þjálfarar, einn fyrir mig og einn fyrir hina. Það er alltaf einn aftast og það er mitt svæði. Kosturinn við að vera aftast er að þú færð fullt af leiðbeiningum og ég lærði gífurlega mikið á þessum tíma. Lifði af brekkurnar og lærði (næstum því) hvaða gíra á að nota við hvaða aðstæður. Það er sem betur fer búið að bjóða mér einkatíma í gíramálum. Við fórum upp einhverjar brekkur og þá var búið að fara yfir grunnatriðin, ég var svona hálfnuð upp brekkuna og alveg að bugast þegar María þjálfari sem hjólaði fyrir aftan mig, benti mér á að ég ætti ennþá inni 3 niðurskiptingar. Verð að viðurkenna að brekkan léttist ansi mikið við þessar upplýsingar. Fyrstu æfinguna hjólaði ég rúma 34 km á 2 tímum og var ennþá bara nokkuð hress. Get ekki beðið eftir næstu æfingu.

Ég er klár í slaginn. Ég er búin að fá Fjallahjól lánað fyrir Bláalónsþrautina, skrá mig í hjólaæfingar hjá Þríþrautafélagi Kópavogs og ennþá eru margar vikur í Bláalónsþrautina. Það er því nægur tími til að ná tökum á bremsum og brekkum.

Fimm ráð fyrir nýgræðinga í hjólamennsku.

1. Ákveða hvernig hjól þarftu. Viltu hjóla bara á götum, komast á malarstíga eða komast hvert sem er?

2. Ákveða verðbilið. Hvað ertu tilbúin/n að eyða miklum peningum í hjólið

3. Hver verður notkunin? Þarftu í raun allt það nýjasta og flottasta til að byrja með?

4. Þegar 1-3 er komið á hreint þá er fínt að skoða vefsíður og velja bara hjólið sem endurspeglar þig á réttu verðbili.

5. Ekki ofhugsa þetta. Ég eyddi gífurlega mörgum klukkustundum í að reyna að finna fullkomið hjól og endaði svo á því að kaupa hjólið sem var á tilboði.

Málið er nefnilega einfalt. Þegar þú ert að byrja þá skiptir engu máli þó að það sé komin ný týpa af bremsum eða stýri. Þú veist ekki muninn og eldri týpan dugar alveg, sérstaklega 

Fyrir þá sem vilja fylgjast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á Instagram: asdisoskvals

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert