Takmarkið er að virkja fólk með okkur

Félagarnir saman komnir í einni af ævintýraferðunum.
Félagarnir saman komnir í einni af ævintýraferðunum. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Við viljum sýna að ef hugur fylgir máli þá sé allt hægt, jafnvel þó að markmiðið virðist stórt og mikið í byrjun. Þetta er líka partur af andlegu ferðalagi okkar vinanna að fara í gegnum þetta saman með hæðum og lægðum. Þetta gengur út að njóta og gera sitt besta, við sjáum ekki fram á að vinna ólympíuverðlaun úr þessu. En að klára okkur í gegnum þetta ferli er okkar sigur. Takmarkið er að virkja fólk með okkur, fá það upp úr sófanum. Þetta byrjar jú alltaf á einu skrefi, einni ferð í sundlaugina eða einum léttum göngutúr og áður enn þú veist af ertu kominn á fullt.“

Spurður að því hvernig þetta verkefni kom til segir Sölvi að hugmyndin hafi komið eftir Youtube-gláp. „Við vorum að horfa á myndbönd af utanvegahlaupum hjá Kristni Sævari Thorarensen hafði stundað hlaup í nokkur ár og klárað fjögur marathon á hraða snigilsins. Það hafði alltaf blundað í honum að fara í Laugavegshlaupið einhvern daginn. Hann bar hugmyndina undir okkur vinina, mig og Gumma, Guðmund Inga Þorvaldsson, og son sinn Eið Andra að gera þetta saman. Eðlilega voru menn skeptískir i byrjun, því enginn af þeim hafði neinn hlaupagrunn að ráði. En allir erum við menn sem höfum gaman af áskorunum og það tók ekki langan tíma að sannfæra hópinn. Einnig fannst Kristni mikilvægt sem faðir að gera þetta með elsta syni sínum til að eiga þessa minningu saman.“

Félagarnir hafa farið í gegnum margt saman.
Félagarnir hafa farið í gegnum margt saman. Ljósmynd/Úr einkasafni

Undirbúningurinn hjá félögunum hefur gengið upp og ofan en að sama skapi verið mikið ævintýri. „Við byrjuðum í janúar en þá voru utanvegahlaup alveg ný fyrir okkur en þetta var ný reynsla og mikið ævintýri. Það er allt annað að skoppast upp og niður halla heldur en að hlaupa á malbiki. Það tók oft á að henda sér í hlaupagallann í verstu veðrunum, en við létum okkur hafa það og það er að skila sér núna. Eftir að hafa vaðið skafla og safnað kílómetrum í lappir þá er ástandið núna mánuði fyrir hlaup þokkalega gott. Auðvitað hafa líka komið bakslög, menn hafa dottið í pestir og meiðsli, en það fylgir þessu og allir sem stunda mikla hreyfingu þekkja þessar hindranir. Oft hefur maður samt hugsað hvort verkefnið sé of stórt og mikið, en með því að leggja inn vinnuna og treysta á þjálfunarprógrammið og ráð góðra manna eins og Bigga Klikk og Gunna Möller sem eru margreyndir hlauparar og hafa reynst okkur gríðarlega vel, ásamt öllum þeim yndislegu styrktaraðillum sem hafa trú á okkur, erum við orðnir nokkuð bjartsýnir.“

Það tók oft á að fara í hlaupagallann í alls …
Það tók oft á að fara í hlaupagallann í alls kyns veðrum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fram undan hjá félögunum er að finna nýtt markmið fyrir næsta ár en að sögn Sölva er það enn óákveðið en næsta víst er að það verði spennandi. „Það er nefnilega þannig að ef maður setur sér stórt markmið eins og maraþon, utanvegahlaup, Ironman eða hvað sem þetta allt heitir, þá neyðist maður til að æfa fyrir það og ferðalagið er á endanum það sem gefur manni mest. Við félagarnir erum góðir vinir sem höfum gengið í gegnum ýmislegt saman í gegnum tíðina og verið til staðar fyrir hver annan. Það að hlaupa Laugaveginn er okkar vafurlogi og ákveðinn endir á ákveðnu andlegu ferðalagi okkar og í framhaldi upphaf að einhverju stórfenglegu. Það sem gerir þetta líka svo skemmtilegt er að við höfum allir ólíkan æfingarbakgrunn. Kristinn hefur verið í hlaupum, Eiður í fótbolta og líkamsrækt, Gummi í Mjölni og ég í öllu frá yoga og movement yfir í alls kyns styrktarþjálfun.“

Hægt er að fylgjast með ævintýrum félaganna á Facebook-síðu hópsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka