Hornstrandir eru draumalandið

Náttúrufegurðin á Hornströndum er óumdeilandlega falleg.
Náttúrufegurðin á Hornströndum er óumdeilandlega falleg. Ljósmynd/FÍ

Þetta er líklega eini staðurinn á Íslandi þar sem þú getur horfst í augu við heimskautaref af tveggja metra færi og hann lætur sér fátt um finnast enda á hann landið eins og hann gerði áður en maðurinn kom hingað fyrst.

Ferðafélag Íslands býður fjölmargar ferðir á Hornstrandir með reyndum fararstjórum. Það er afar mikilvægt þegar ferðast er um þetta eyðiland að leiðsögumenn þekki vel til því veður geta skipast á  fögrum sólarmorgni í jökulkaldan slyddusudda með útsýni sem nær ekki lengra en að nefinu. Ein þeirra ferða sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár er leidd af Ólöfu Sigurðardóttur sérkennara og kallast hún Hornstrandir – Saga, byggð og búseta, en með Ólöfu gengur Jón Örn Guðbjartsson vísindamiðlari frá Háskóla Íslands. 

Hér má sjá kort af Hornströndum en í ferðinni verða …
Hér má sjá kort af Hornströndum en í ferðinni verða meðal annars Hesteyri og Aðalvík sótt heim. Ljósmynd/Wikimedia

Þau eru bæði kunnug staðháttum og þekkja því leiðirnar eins og lófana sína. Í ferðinni eru tveir af helstu þéttbýliskjörnum Hornstranda heimsóttir, Aðalvík og Hesteyri. Í ferðinni er hugað að sögu, menningu og atvinnuháttum þessara yfirgefnu byggðakjarna.

Fór fyrst á Hornstrandir með bjargmönnum

„Ég fór fyrst á Hornstrandir vorið 1972,“  segir Ólöf, „en þá um veturinn hafði ég verið kennari á Ísafirði. Við vorum tvær vinkonur sem vildum endilega komast á Hornstrandir og höfðum fyrst í huga að ganga suður Strandir. Við fengum far með hópi af körlum sem fóru í eggjatökuleiðangur í hið hrikalega Hælavíkurbjarg. Þetta voru tveir hópar sem héldu til bæði í Stígshúsi og Frímannshúsi í Hornvík og við fengum að fljóta með öðrum hópnum,“ segir Ólöf sem kann endalausar sögur af svæðinu. Hún gaukar að göngufólki fróðleik af ábúendum, atburðum og framkvæmdum og líka sjóslysum. Sumar sögurnar sækir hún jafnvel yfir í annan heim enda eru fjölskrúðugar sögur af draugum og sæskrímslum á Hornströndum. Sumar sögurnar lærði hún meira að segja í fyrstu ferðinni sinni.
„Þegar við fórum með bjargmönnum þarna um vorið vorum við í rúma viku og ég heillaðist algjörlega af náttúrunni og umhverfinu. Mig minnir að það hafi verið gott veður allan tímann. Þá lærði ég nokkrar sögur og fáein örnefni sem rifjuðust svo upp aldarfjórðungi síðar þegar ég fór að leiða ferðir hingað.“
Þessi ferð þeirra vinkvenna átti eftir að hafa sögulegar afleiðingar á þann veg að samferðarkona Ólafar kynntist þarna mannsefninu sínu sem hún reyndar missti síðar í slysi í fuglabjargi á Hornströndum. 

Aðalvíkin er fyrsti áfangastaðurinn

Í ferðinni með þeim Ólöfu og Jóni Erni er fyrst siglt frá Ísafirði í Aðalvík og gist í húsi í Stakkadal. Það er margt að sjá í Aðalvík enda fjöldi húsa að Látrum sem vel er við haldið og segja þau mikla sögu. Þarna er fjaran gyllt og breiðir úr sér í magnaðri fegurð, afkróuð af fjöllum á þrjá vegu. Fyrir utan er svo úthafið og ef kastað yrði steinvölu af óþekktu afli út flóann næmi hún ekki staðar fyrr en í Grænlandsjökli. 

Staðarkirkja í Aðalvík.
Staðarkirkja í Aðalvík. Ljósmynd/Wikimedia

„Náttúran er bæði hrikaleg og fjölbreytt og það kemur mörgum á óvart hvað gróðurinn er fjölbreyttur og mikill á þessum slóðum,“ segir Ólöf og bætir því við að saga fólksins sem þarna bjó um aldir við erfið skilyrði hafi alltaf heillað hana. „Það er ekki annað hægt en að dást að dugnaði þessa fólks og útsjónarsemi þess við að lifa af en þetta er harðbýlt svæði þó svo að sjórinn og bjargið hafi gefið vel af sér.“

Rústir á Straumnesfjalli – Minjar um kalt stríð

Úr Aðalvík er gengið á Straumnesfjall þar sem mestu mannvirki Vestfjarða blasa við, hálfhruninn minnisvarði um kalda stríðið sem geisaði milli Bandaríkjamanna og gömlu Sovétríkjanna. Þarna var reist gríðarleg ratsjárstöð á sjötta áratugnum sem varð að sumra sögn í raun úrelt um leið og hún var tekin í notkun. Aðrir fullyrða að þarna hafi Kaninn reist ratsjárstöð til að fylgjast með flugi Rússa um norðlægar slóðir en þegar stöðin var opnuð höfðu Rússar ekki tæknilega burði til að fljúga hingað. Þá tækni öðluðust þeir hins vegar um leið og stöðinni var lokað. Allir sem sjá þessi miklu hús verða orðlausir og haka margra sígur alveg niður í hásléttuna. Í ferðinni eru raktar margar sögur af þessari mögnuðu framkvæmd, veru amerískra hermanna á fjallinu og tengslum þeirra við ábúendur og aðra Íslendinga. 


Hesteyrin himneska

Ólöf segir að hópurinn haldi svo yfir á Hesteyri í Jökulfjörðum eftir aðra næturgistingu í Stakkadal. „Gatan liggur greið á milli þessara stærstu fyrrverandi byggðakjarna friðlandsins. Heimsókn á Hesteyri er ógleymanleg lífsreynsla. Þarna hvílir lítið þorp undir fjallseggjum í miklum hvannarskógi.“

Frísklegir göngugarpar, nýbúnir að vaða yfir á sem varð á …
Frísklegir göngugarpar, nýbúnir að vaða yfir á sem varð á vegi þeirra. Ljósmynd/FÍ

Ólöf segir töfrandi að rölta um eyrina og njóta alls þess sem ber fyrir augu. Á sama tíma og selir stingi jafnvel upp kollinum í flæðarmálinu megi heyra gaggið í tófunni og jafnvel rekast á yrðlinga sem láta sér hvergi bregða þótt maðurinn sé að slæpast í miðju óðalinu þeirra. 
Ólöf segir að síðustu íbúarnir hafi flutt frá Hesteyri upp úr miðri síðustu öld en þarna var áður mikið mannlíf og skarkali frá hvalstöð sem reist var árið 1894. 
„Við göngum að hvalstöðinni,“ segir Ólöf, „en Hesteyri tengist sögu hvalveiða hér svo um munar. Þarna stendur enn síðasta vígi norskra hvalafangara ef svo má að orði komast. Norðmenn hófu hér fyrst hvalveiðar seint á 19. öld en þeir byggðu átta hvalstöðvar á Vestfjörðum, þar á meðal á Stekkeyri, skammt innan við Hesteyri. Reykháfurinn er hár og stendur enn.“

Minjar um norska hvalfangara

Hvalir hafa án efa verið í hafinu við Ísland í þúsundir ára en þeir hafa verið taldir til hlunninda á Íslandi frá landnámi. Ólöf hefur sérstakan áhuga á Íslendingasögum en í sautján þeirra eru lýsingar á samskiptum manna og hvala á fyrstu árum byggðar, m.a. í Fóstbræðrasögu þar sem sögusviðið er að hluta til á Hornströndum. Orðið hvalreki er enn notað um góðan feng en til forna þýddi það í raun að heilt búr af mat hefði rekið á land. Þekkt er sena af Hornströndum úr Fóstbræðrasögu þar sem Þorgeir Hávarsson drepur Gils bónda Másson vegna ágreinings um hvalreka. En Norðmenn á Hesteyri voru ekki að pæla í hvalreka, þeir vildu skutla hval. Á örfáum árum gengu þeir svo nærri hvalastofninum fyrir vestan að þeir fluttu veiðiflotann og vinnsluna til Austfjarða.

Frægasta Læknishúsið á Íslandi

 „Á Hesteyri eru nú um tíu hús frá fyrri hluta síðustu aldar og sum þau elstu voru reist fyrir aldamótin 1900,“ segir Ólöf. „Við gistum einmitt í einu því elsta, í Læknishúsinu en þegar inn er komið gengur maður eiginlega á vit hins liðna.“
Þar inni er urmull af lyfjakrukkum og krúsum frá velmegunarárunum. Ef losað er um tappa og nefið lagt við þessar kirnur mætir manni keimur af joði og jurtum og meðulum sem einu sinni hresstu við dugnaðarforka sem eru löngu gengnir til samfylgdar við forfeður sína. 
„Ég hef alltaf haft áhuga á jurtum og hvernig þær voru notaðar til lyfjagerðar, til matar og sem heilsudrykkir,“ segir Ólöf þegar talið berst að krukkum læknisins en hún bætir því við að hún pæli líka í því hvernig jurtir voru áður fyrr notaðar til litunar á garni. Það er því gaman að ganga með Ólöfu og greina með henni plönturnar við traðirnar sem eru gengnar. 
Margir sem lesið hafa bók Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig, eru spenntir að koma í Læknishúsið og vilja sjálfsagt vita hvort þar sé ekki reimt eins og í sögunni. Sumir fullyrða reyndar að í húsinu sé maður sem neiti að hverfa því einn læknirinn á eyrinni á að hafa fallið í snarbröttum stiganum og staðið upp aftur… en bara í öðrum heimi. Stundum þegar haustregnið lemur þakskeggið og saltbarða gluggana er læknirinn víst að rjátla við mortélið sitt og brúnar krukkurnar og gengur um trégólfin uppi tilbúinn að vitja sjúklinga sem hafa löngu lokið jarðvist sinni.

Andi liðinna tíma svífur yfir í elsta húsinu á Hesteyri, …
Andi liðinna tíma svífur yfir í elsta húsinu á Hesteyri, Læknishúsinu. Ljósmynd/FÍ

Ólöf segir að þessar sögur um reimleika séu stórlega ýktar og undir það tekur Birna Hjaltaín Pálsdóttir sem á Læknishúsið og hefur snúið við hundrað þúsund pönnukökum á gömlu eldavélinni í húsinu og fært þær svöngum ferðalöngum. 
„Líklegt er að við fáum pönnukökur í Læknishúsinu, en ekki frá Binnu heldur syni hennar Hrólfi sem tekur stundum upp á því líka að leika af stakri snilld á harmoniku fyrir okkur.“

Reynsla og gleði á göngu

Ólöf hefur stundað ferðalög og útivist fá því í æsku, fyrst með fjölskyldunni og síðan með Ferðafélagi Íslands. „Ég hef alla tíð haft gaman af því að ferðast og kynntist því sem barn að ferðalög voru sjálfsagður hluti af tilverunni,“ segir Ólöf. „Það fylgir því mikil vellíðan að ferðast úti í náttúrunni, bæði andleg og líkamleg. Að njóta fallegrar náttúru bæði þar sem hún er stórbrotin og hrikaleg en einnig þar sem hið smáa litar umhverfið. Það þarf ekki alltaf að fara langt til að njóta og finna óbyggðakyrrðina. Jafnvel innan borgarlandsins má finna staði þar sem fátt truflar.“
Ólöf hefur leitt fjölmarga hópa um Hornstrandir en minningin um ferðina 1972 var svo kröftug að hún fann ekki þörf fyrir að fara aftur fyrr en röskur aldarfjórðungur hafði liðið.

Pistlahöfundur nýtur umhverfisins í ljómandi góðu veðri.
Pistlahöfundur nýtur umhverfisins í ljómandi góðu veðri. Ljósmynd/FÍ

„Þá fór ég eina ferð með Ferðafélagi Íslands og ekki var aftur snúið. Ég held ég hafi farið nánast hvert sumar eftir það. Fyrst var það í hópi sem gekk með Guðmundi Hallvarðssyni Hornstrandajarli, en þessi hópur gekk saman ár eftir ár,“ segir Ólöf. 
Það fór svo á endanum að Ólöf tók sjálf að leiða göngur Ferðafélagsins og hefur henni þótt það afar ánægjulegt og einnig þeim sem gengið hafa með henni. 
„Það er gaman að kynnast fólki í svona ferðum, stundum á það einhver tengsl við svæðið, á ættir að rekja hingað á Hornstrandir og er að koma til að kynnast staðháttum sem það hefur e.t.v. heyrt um í fjölskyldu sinni. Það er líka mjög ánægjulegt að ferðast með fólki sem vill njóta náttúrunnar og leyfir sér að upplifa áhrifin sem falleg náttúra hefur á okkur mannfólkið.“  


Húsin á Hornströndum hafa öll sál

Þótt náttúran hafi firnasterk áhrif á göngufólk þá gera húsin á Hornströndum það líka enda öll með mikla sál. Verslunarhúsið á Hesteyri stendur í fjöruborðinu og er uppgert af smekkvísi en eyrin fékk löggildingu sem verslunarstaður árið 1881. Í búðinni er samt ekkert til sölu en slitinn búðardiskurinn spjarar sig vel og í hillunum handan við hann hafa eigendurnir raðað sumu því sem prýðir eldhús eins og við þekkjum þau í Reykjavík. 
Í skólahúsinu, sem er utar á Hesteyrinni, má enn sjá gömlu skólatöfluna og bekkina sem nemendurnir sátu á fyrir hundrað árum eða svo. Þarna eru margir bæir – hver með sín sögu. 

Ekki er óalgengt að rekast á rebba í fæðuleit.
Ekki er óalgengt að rekast á rebba í fæðuleit. Ljósmynd/Wikimedia

Kirkja Hesteyringa flutti reyndar burt eins og íbúarnir gerðu allir áður, hún var flutt til Súðavíkur en í kirkjugarðinum er klukkan sem þar hringdi eitt sinn í turninum. Nú má láta hana slá í takt við lóminn sem vælir úti á firðinum. 

Slástu í hópinn og komdu með á Hornstrandir

Framboð Ferðafélagsins á göngum á Hornstrandir er mikið eins og áður sagði enda hefur félagið aðgang að mjög góðum húsakosti á svæðinu. Þessar eru m.a. ferðir félagsins í sumar á Hornstrandir: Ylur og birta í Hornbjargsvita, sem er göngu- og vinnuferð við ysta haf, Bækistöðvaferð í Hlöðuvík sem helgast af náttúrufegurð og andrúmslofti liðinna tíma, Hinar sönnu Hornstrandir þar sem gengið er út frá Hornbjargsvita um Hornbjarg og Hornvík og svo Jógaferð í Hornbjargsvita þar sem náttúran er grannskoðuð í bland við að iðka jóga að sjálfsögðu.  
Ólöf er svo með sína ferð með Jón Erni, Saga, byggð og búseta og segir að enn séu örfá pláss laus í gönguna en upplýsingar um hana eru að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert