Miðaldra konan kolfellur fyrir Þorvaldi

Pistlahöfundur í góðu stuði í Þorvaldsskokkinu.
Pistlahöfundur í góðu stuði í Þorvaldsskokkinu. Ljósmynd/Hrafnhildur Tryggvadóttir

Hugmyndin að Þorvaldsdalsskokkinu kviknaði hjá Bjarna E. Guðleifssyni eftir að hann varð vitni að skosku fjallahlaupi upp á hæsta fjall Skotlands, Ben Nevis. Á heimasíðu Þorvaldsskokksins er mjög skemmtileg lýsing frá Bjarna þar sem hann segir frá hvernig hugmyndin vaknaði og ber saman á mjög skemmtilegan hátt fjallahlaup í Skotlandi og rúllustigahlaup í verslunarmiðstöðvum í Glasgow. Ég tengdi mjög vel við þessa lýsingu. Gamla ég, átti virkilega góða spretti í verslunarmiðstöðvum á árum áður. Það er ansi dapurt að hugsa til þess að ég fór í 3ja daga helgarferð og stórum hluta hennar var eytt í einhverri verslunarmiðstöð, kaupandi hluti sem engan vantaði. Réttlætingin var alltaf, þetta er svo hagstætt, kostar sama og ekkert. Svo var farið heim með töskurnar stútfullar af dóti og fötum sem engan vantaði og í næstu tiltekt fór eitthvað jafnvel ónotað í Rauða Krossinn. Þegar ég fer í helgarferðir erlendis í dag, dugar yfirleitt ein lítil taska. Ég þarf bara að passa að koma fyrir hlaupafötunum mínum því að í staðinn fyrir að eyða deginum í rúllustigum í verslunarmiðstöðvum, þá byrja ég hann á góðu hlaupi og nýt þess svo að upplifa og skoða.

Með Visa ég ráfa um í verslanahöllum
og veit ekki fyrr en ég skulda þar öllum.
Ég feginn varð þá er fékk ég að sjá
fegurð alls Skotlands af Ben Nevis fjöllum.

Bjarni E. Guðlaugsson

Hvað kemur til að miðaldra kona skellir sér í elsta utanvegahlaup landsins?

Ég hef alltaf vitað af Þorvaldsdalsskokkinu. Ég er frá Dalvík og þetta er því í túngarðinum heima. Það hefur bara aldrei hvarflað að mér að taka þátt. Í fyrsta lagi var ég alltaf í ömurlegu formi og hefði ekki getað þetta og í öðru lagi þá er þetta ekki ég. Ég bara skildi ekki þetta. Hvernig í ósköpunum dettur fólki í hug að fara í einhverja fjallgöngu eða hlaup sem tekur marga klukkutíma? Fara þangað sjálfviljugt og borga meira að segja fyrir það. Þetta var einfaldlega eitthvað sem ég hafði ekki nokkurn áhuga á að gera og eiginlega skildi ekki fólk sem gerði þetta reglulega. Ég vissi alveg að ég myndi aldrei geta þetta. Meira að segja í fyrra þegar ég hóf minn hlaupaferil var þetta svo sannarlega ekki á Mig Langar Að Gera Listanum.

Ég byrjaði að hlaupa í lok apríl 2018 með það markmið að geta hlaupið 5 km reglulega skammlaust og svo var draumamarkmiðið að geta hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Mér fannst það frábært markmið og þegar fólk fór að senda mér ábendingar eins og ég ætti næst að stefna að 21 km þá hunsaði ég þær allar með bros á vör og orðinum, ég er ekki manísk, ég þarf ekkert meira, þetta er bara ekki ég, ég er ekki hlaupari og eitthvað fleira sniðugt sem mér datt í hug. Starri Heiðmarsson skólabróðir minn úr MA er einn af forsvarsmönnum Þorvaldsdalsskokkins, sendi mér línu þegar hann sá að ég ætlaði að gerast hlaupari. Vel gert, svo er það bara Þorvaldsdalsskokkið næst. Ég svaraði um hæl, „over my dead body, ég er ekki geðveik“. Það var sem sagt nokkuð á hreinu að ég ætlaði ALDREI að hlaupa lengra en 10 km og ALDREI að fara í Þorvaldsdalsskokkið. Þetta breyttist allt þegar ég ákvað að skrá mig í FÍ Landvættina og byrjaði að æfa fyrir það.

Pistlahöfundur ásamt vinkonum sínum, þeim Hrafnhildi, Elvu og Guðrúnu.
Pistlahöfundur ásamt vinkonum sínum, þeim Hrafnhildi, Elvu og Guðrúnu. Ljósmynd/Hrafnhildur Tryggvadóttir

Það eru fjórar greinar og ein af þeim er Jökulsárhlaupið sem er 33 km utanvegahlaup. Ég get svo sem alveg viðurkennt að það stóð aðeins í mér þegar ég skráði mig. Ég hafði aldrei prófað utanvegahlaup, hvað þá látið hvarfla að mér að ég gæti nokkurn tíma hlaupið 33 km. Mig vantaði bara eitthvað markmið til að keppa að eftir að ég kláraði 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og fannst FÍ Landvættir steinliggja. Í gegnum Landvætta prógrammið hef ég sigrast á ótrúlegustu hlutum. Sem dæmi mætti nefna: Farið úr því að kunna ekki að ganga á gönguskíðum í að taka þátt í 42 km gönguskíðakeppni. Farið í fjallgöngur og komist í gegnum það með mína lofthræðslu og eignast gífurlega mikið af frábærum vinum sem allir eru að gera það sama. Jökulsárhlaupið var farið að stressa mig aðeins.

Brynhildur Ólafsdóttir forsvarsmaður Landvættaprógramsins sendir svo póst á okkur og bendir á að það sé tilvalið að skrá sig í Þorvaldsdalsskokkið. Þetta er eina þrautin sem má velja á milli 2ja hlaupa, Þorvaldsdalsskokksins og Jökulárshlaupsins. Hægari hlauparar geti því tryggt sig inn sem Landvættir og svo sé þetta frábær æfing fyrir Jökulsárhlaupið. Ég var ekki lengi að skrá mig. Samdi við Hildu vinkonu að hlaupa með mér. Hún var búin að fara tvisvar í hlaupið. Hún er líka búin að fara tvisvar í Jökulsárhlaupið held ég og tvisvar Laugaveginn, auk óteljandi annara hlaupa bæði innanlands sem og erlendis. Mér fannst rosalega gott að hafa hana með. Ég er villugjörn og fannst bara pínu glatað að villast í skokkinu þó að ég væri í minni heimabyggð og þekkti annan hvern björgunarsveitarmann persónulega.

Tímamörkin rýmkuð og þetta lítur allt bara mjög vel út

Það er ekki einleikið hvað ég hef verið heppin í þessu Landvættaprógrammi. Fossavatnsgangan var fyrir fram búin að stressa mig mikið og valda nokkrum andvökunóttum. Það voru mjög stíf tímamörk og 7 km brunbrekka sem hentaði loft- og hraðahræddum miðaldra konum illa, hún breyttist á einni nóttu í 42 km skíðagöngu með engin tímamörk og enga dauðabrekku vegna snjóleysis. Vikuna fyrir hlaupið kom svo tilkynning frá Þorvaldsdalsskokkinu. Tímamörkin hafa verið rýmkuð úr 4 klst. í 5 klst. Þetta voru algjörlega frábærar fréttir. Ég er enn þá að læra á þetta allt saman og ég veit ekkert hvað ég get eða þoli. Hver einasta keppni er í raun mín fyrsta keppni og þá er gott að hafa smá slaka í tíma. Ég missti reyndar af Bláalónsþrautinni þar sem ég fór í gifs viku fyrir keppni og náði ekki að hjóla og þá datt út Urriðavatnssundið líka þar sem handleggurinn var ansi lengi að jafna sig eftir gifsið. Ég var orðin stressuð og úrill að geta ekki byrjað að æfa þannig að ég ákvað bara að taka það sund 2020. Ég mun því klára Landvættaprógrammið 2020 en það er fínt að byrja á því að klára bara hlaupið. Þú hefur 12 mánuði til að klára Landvættaprógrammið og það skiptir í raun engu máli á hvaða þraut þú byrjar. Það sem er einna skemmtilegast við íþróttaiðkun og útiveru, eru allir vinirnir sem þú eignast. Ferðin norður fór því að vinda upp á sig og breyttist í spennandi stelpuferð. Við vorum fjórar sem fórum saman. Ég, Elva Tryggvadóttir, Guðrún Eiríksdóttir og Ása Bergsdóttir Sandholt. Við fórum á mínum bíl, eða sko, Elva keyrði minn bíl þar sem ég keyri ekki ennþá út á land vegna lofthræðslu, bara frýs í ákveðnum brekkum sem þykir víst ekki smart. Ég hef samt sett mér það sem markmið að keyra Kambana 4. maí 2020 og ljúka þessu máli endanlega. Hvers vegna 4. maí? Jú vegna þess að þá tek ég Loga og Yoda með mér og fæ extra orku frá þeim, „may the force be with you“.

Við pöntuðum gistingu á hótel mömmu og þetta varð eitt besta húsmæðraorlof sem við höfum farið í. Fengum uppbúin rúm og foreldradekur. Einhver kann að spyrja, hvar er Hilda? Hún var komin til Akureyrar og ætlaði að hitta okkur um morguninn við rásmarkið.

Í hverju á ég að vera stressið og hvað á ég að taka með?

Vikuna fyrir hlaupið fóru Landvættir að velta fyrir sér veðurspám. Ég hef aldrei verið mikið í þessu. Læt bara veðurklúbbinn á Dalvík duga sem sérfræðing en þegar þú ert að fara að hlaupa í 4-5 klst. skiptir höfuðmáli að vera rétt klæddur. Af tvennu illu er skárra að verða kalt en of heitt. Þetta lærði ég á gönguskíðunum. Það er betra að vera kalt í startinu en að stikna í 4-5 tíma. Þetta leit ekkert rosalega vel út í upphafi. 1. júlí var fyrsta spáin skoðuð. Þá var spáð 4 stiga hita og rigningu. 2. júlí voru komin 8 stig og þurrt og 4. júlí var spáð 9 stigum og sól. Sem sagt dæmigerð íslensk veðurspá og ekki nokkur leið að treysta á neitt. Hvað gerir þá miðaldrakona sem á 1 hlaupabuxur, 1 hlaupajakka, 1 hlaupaflíspeysu og svo nokkrar þunnar peysur. Hún brunar í Fjallakofann og hittir Sævar Birgisson, sinn helsta ráðgjafa þegar kemur að hreyfingu og fatnaði. Ég fór yfir vandamálið með Sævari. Ég bara veit ekkert í hverju ég á að vera. Það er spáð alls konar veðri og ég á voðalega lítið. Sævar ráðlagði mér fyrir Fossavatnsgönguna og það var fullkomið. Ég ákvað því að treysta honum í blindni núna. Ég tók hlaupabuxur, bol, hlýrabol, topp, hlaupastuttbuxur, eyrnaband, hlaupaskó, hlaupasokka úr ullarblöndu, skóhlífar, hlaupapoka og hlaupajakka. Sem sagt klár í allt nema haglél. Kosturinn við Sævar er að hann hefur endalausa þolinmæði og er stútfullur af fróðleik. Miðaldra kona sem veit enn þá voðalega lítið hefur mjög mikið af, hvað ef og hvers vegna spurningum sem hann á mjög auðvelt með að svara og líka rökstyðja hvers vegna þetta en ekki hitt. Ég var nýbúin að kaupa mér hlaupabakpoka sem ég var ekki alveg nógu ánægð með. Ég þurfti alltaf að taka vatnsbrúsann upp sem tafði mig og hann tók ekki nema 300 ml. Þessum bakpoka fylgdu stærri brúsar og þeir voru með drykkjastútum sem sparaði hellings tíma. Hlaupajakkinn var regn- og vatnsheldur með öndun á réttum stöðum og það sem mér fannst best við hann, var að það var komið plast á ermina þar sem úrið er þannig að ég gat alltaf séð á úrið án þess að þurfa eitthvað að tosa ermina upp. Buxurnar voru úr sama merki og gönguskíðagallinn minn sem var algjör snilld því þegar kona á lítið af útivistarfötum en vill samt vera pínu lekkert þá er mjög hagkvæmt að geta blandað saman fötum úr mismunandi íþróttagreinum. Ég tók nýja utanvegaskó þar sem hinir voru byrjaðir að gefa sig en ákvað að nota þá ekki fyrir hlaupið þar sem ég átti eftir að kynnast þeim. Ég veit nú ekki mikið um þetta allt saman en þó það, að það er ekki skynsamlegt að fara í 25 km hlaup á nýjum ónotuðum skóm. Veðrið reyndist svo vera fullkomið og fötin sem Sævar valdi hentuðu frábærlega.

Hlaupaleiðin er ægifögur, eins og sjá má.
Hlaupaleiðin er ægifögur, eins og sjá má. Ljósmynd/Hrafnhildur Tryggvadóttir

Ég var reyndar að ræða þetta við vin minn að morgni hlaupsins. Hann spurði hvernig ég væri stemmd, bara fín, er bara að glíma við þetta dæmigerða fatastress. Hann sendi til baka, mér finnst nú frekar fyndið að þú sért stressaðri fyrir fatavalinu heldur en hlaupinu. Það tók mig smá stund að átta mig á hvað hann átti við. Ég hélt að ég myndi pissa á mig þegar ég sá að hann hélt að ég væri að hafa áhyggjur af því hvernig ég tæki mig út í gallanum (svona eins og að fara á djammið). Auðvitað vill miðaldra konan líta almennilega út en stressið tengdist nú samt veðurfarslegum áhyggjum. Það eru tvö megin áhyggjuefni fyrir hverja keppni. Stressið að verða of kalt eða heitt og stressið að verða of svöng eða orkulaus. Ég var svo heppin að vera með Starra Heiðmarsson á beinni línu fyrir hlaupið. Hann fékk tvenn skilaboð, önnur kl. 17:11 á föstudeginum: Hvernig er veðrið á morgun og í hverju á ég að vera og hitt að morgni laugardags, en núna? Eftir ráðleggingar Starra fór ég í síðar hlaupabuxur og nýja bolinn og setti svo eftir mínar ráðleggingar, regnjakkann, hlaupastuttbuxur, buff, vettlinga, derhúfu og skóhlífar í nýja hlaupapokann. Fyllti á vatnsbrúsana, 4 orkugel, 2 próteinstykki, Snickers, súkkulaðirúsínur, bar á mig sólarvörn og vaselín og ég var klár í hlaupið. Hlaupabolurinn reyndist vera algjör snilld. Það eru vasar framan á fyrir orkugel. Það er vasi aftan á fyrir bæði síma og eitthvað meira. Svo var eitthvað band á honum. Það reyndist vera til að festa keppnisnúmerið á. Buxurnar eru með litlum vösum fyrir lykla. Það er einhvern veginn gert ráð fyrir öllu í þessum fatnaði í dag. Ég var eins klár í slaginn og ég gat orðið.

Þorvaldsdalsskokkið sjálft

Ég var reyndar pínu stressuð fyrir hlaupið því þremur dögum fyrir hlaup byrjaði ég að finna fyrir flensueinkennum, hálsbólga, kvef og hausverkur. Drakk Panodil Hot eins og enginn væri morgundagurinn og að morgni hlaupsins var ég orðin nokkuð hress. Við byrjuðum morguninn á því að fá okkur omelettur og taka lokatékk fyrir hlaupið.

Við mættum tímanlega í Árskógsskóla til að sækja keppnisgögn og þess háttar. Þá kom í ljós að þessi forláta keppnisbolur fylgdi með skráningunni. Við hittum aðra Landvætti en við vorum ansi mörg sem ætluðum að nota þetta annað hvort sem æfingu eða hreinlega sem Landvættahlaup. Þetta var metþáttaka, 96 skráðir. Frá Árskógsskóla var keyrt með rútu í rásmarkið. Hlaupið sjálft hófst síðan kl. 12:00 rétt sunnan við brúna við Ytri-Tungu í Hörgárdal milli bæjanna Dagverðartungu og Fornhaga. Við hittum Starra fyrir keppni og hann tjáði okkur að annar skólabróðir okkar Sigurður Kiernan væri líka að hlaupa. Sáum hann reyndar aldrei enda hefur hann líklega bara verið að koma í mark á sama tíma og ræst var. Siggi er nefnilega ofurhlaupari og reimar helst ekki á sig skó fyrir minna en 100 km. Mér fannst ég nú verða orðin pínu fullorðins að vera að hlaupa í sama hlaupi og hann. Allt í einu er ég bara farin að hlaupa með öllum flottustu hlaupurunum. Siggi í Þorvaldsdalsskokkinu og Elísabet Margeirsdóttir í Árstíðahlaupinu. Byrjendastimpillinn minn er byrjaður að flagna af.

Ég hafði margar leiðir til að kynna mér hlaupið áður en lagt var af stað. Á heimasíðu hlaupsins eru mjög góðar leiðbeiningar. Hilda hafði skrifað forláta blogg um sína reynslu og rétt fyrir hlaupið fór Starri yfir allskonar öryggisreglur og nauðsynlegar upplýsingar. Ég valdi að kynna mér ekkert af þessu. Það kemur til af nokkrum ástæðum. Ef ég set mig of mikið inn í planið þá stressast ég upp. Ég fer að kvíða einhverjum bröttum hlíðum sem ég gæti frosið í og mér finnst betra að taka bara á því þegar að því kemur. Ég nota regluna hennar Hildu. Undirbúa mig, mæta og setja svo annan fótinn fram fyrir hinn þar til ég kem í mark. Hefur ekki klikkað hingað til. Síðan var ég að hlaupa með Hildu og Elvu. Hilda er þaulvanur hlaupari og vinkona mín. Hún myndi aldrei skilja mig eftir. Elva er í björgunarsveit. Hún er formaður svæðisstjórnar á höfuðborgarsvæðinu og er í aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins. Hún er með þyrluna á hraðvali í símanum sínum og það róar miðaldra konur. Hún má pottþétt ekki skilja neinn eftir, það hlýtur að stangast á við siðareglur björgunarfólks. Ég vissi að ég yrði í mjög góðum höndum. Við vorum fjórar sem hlupum saman. Hilda, ég, Elva og Guðrún. Hilda var auðvitað sjálfvalin vegna reynslu og fyrri hlaupa. Elva vegna sérfræðiþekkingar á björgunaraðgerðum og að finna villt fólk í náttúrunni og við Guðrún, já við vorum bara sætar og skemmtilegar og það er nú ekki vanmetið í svona löngum hlaupum.

Smá hvíld á milli átaka.
Smá hvíld á milli átaka. Ljósmynd/Hrafnhildur Ægisdóttir

Ég vinn eftir mjög einfaldri möntru, ekki hugsa, bara gera og þetta hefur bara alltaf reddast hingað til. Starri reyndar lagði ofuráherslu á ef það kæmi þoka að hætta að pæla í hlaupinu og koma sér bara niður og í næsta byggða ból. Fyrir þá sem vilja kynna sér hlutina þá er ein grunnregla. Á meðan þú ert með ána á vinstri hönd og fjallið á hægri þá ertu á réttri leið. Við vorum búnar að ákveða að nýta okkur rýmri tímamörk og njóta en ekki þjóta. Við Elva vorum að fara í okkar fyrsta langa utanvegahlaup og ég átti lengst 18,60 km og Elva 15 km. Elva var að auki búin að setja hlaupaleiðina inn í Garmin úrið sitt (ég reyndi það en það bara gekk ekki, ég og tæknin eigum ekki alltaf samleið), þannig að við vorum klárar, það gat ekkert klikkað. Okkar markmið voru einföld: klára þetta saman, vera undir tímamörkum, engin kona skilin eftir og koma óslasaðar í mark. Þessum markmiðum náðum við öllum og við áttum meira að segja magnaðan endasprett, áttum bara nóg inni. Við Elva fögnuðum líka stórum áfanga, okkar fyrsta hálfmaraþon á leiðinni.

Hlaupið er alveg gífurlega fallegt, kannski má meira kalla þetta gönguhlaup. Fyrsti klukkutíminn var upp í móti og gengið/hlaupið upp allskonar kindastíga og götur. Það er hellingur af mýri og margir litlir lækir þarna og ég lærði hratt að það er ekki hægt að vera með pjatt. Þú bara sekkur og blotnar í fæturnar en síðan þornar allt furðulega hratt. Ekki frá því að ullarsokkarnir sem Sævar lét mig kaupa hafi hjálpað heilmikið til þarna. Náttúran þarna er stórbrotin og það var mjög auðvelt að gleyma sér bara og njóta. Hilda sem er sérstakur ljósmyndari minn tók mikið af frábærum myndum. Það eru nokkrar drykkjarstöðvar og á þeirri fyrstu gerði ég þau mistök að fá mér Powerade sem þýddi að ég gat ekki tekið orkugel. Það er víst ávísun á magavesen að gera það samhliða. Mér fannst óþarfi að sannreyna það í miðju hlaupi. Átti nóg með kvefið mitt, ég vissi ekki að það væri hægt að snýta sér svona oft á 5 klst. Sem betur fer var ég búin að læra náttúrusnýtingar en ég stoppaði samt alltaf til að gera það. Elva benti á að það væri gott að uppfæra þá færni í að snýta sér á hlaupum. Við Hrafnagilsá þurfti að ferja okkur yfir á, á jeppa. Það kom skemmtilega á óvart að ökumaðurinn var Konni frændi.

Hlaupið er mjög skemmtileg leið og það bíður upp á alla flóruna. Þetta er frábært hlaup fyrir flesta sem geta hlaupið í lengri tíma. Ég byrjaði að hlaupa fyrir rúmi ári og aldrei hefði mér dottið í hug að ég gæti þetta á ekki lengri tíma. Skokkið kom mér á óvart. Mér leið vel allan tímann og fannst þetta gífurlega gaman, miklu skemmtilegra en ég átti von á og auðveldara Það er líklega vegna þess að við vorum ekki að keppa við tíma. Margir Landvættir höfðu orð á því hvað þetta var erfitt hlaup. Það var mögulega vegna þess að þeirra tími var klst. betri en okkar.

Þorvaldsskokkið, frábært fyrir lofthrædda?

Mér leið vel allan tímann í skokkinu, missteig mig aldrei eða fann fyrir miklum líkamlegum einkennum, nema vöðvaþreytu í lærunum og svo í hendinni undir lokin. Annars bara stálslegin, jú svo þreytt í ökklunum en annars mjög mjög góð. Við vorum komnar langleiðina þegar ég hugsaði. Þetta er nú meira snilldarhlaupið. Þrátt fyrir að við séum að hlaupa í fjalladal þá er engin hluti af leiðinni þannig að ég finni fyrir vott af lofthræðslu. Ég ákvað að titillinn á blogginu yrði, Þorvaldsdalsskokkið, frábært fyrir lofthrædda. Það var fullt af stígum sem voru mjóir og bratt niður. Mér fannst ekkert mál að horfa niður. Þetta truflað mig ekki vitund. Það var eiginlega ekki fyrr en ég kom í mark og fór að ræða við aðra Landvætti sem spurðu hvernig mér hefði tekist að tækla stígana. Sumir fundu fyrir töluverðri lofthræðslu og höfðu því eðlilega áhyggjur af mér. Lofthræðsluflokkunin í Landvættum hefur alltaf verið. Pínu lofthræddur, lofthræddur og svo Ásdís, ég hef alltaf verið ein í flokki. Flokknum sem heitir, sturluð af lofthræðslu. Það var þá sem ég áttaði mig á því að þessir 3 tímar sem ég hef tekið í meðferðinni við lofthræðslu voru að svínvirka. Hilda og Elva höfðu báðar vit á því að segja ekkert þegar þær vissu að ég hefði átt að verða lofthrædd og leyfa mér að biðja um aðstoð. Ég þurfti ekki að biðja um hana. Frelsistilfinningin sem ég upplifði var engri lík. Að vera lofthrædd er gífurlega heftandi og þetta var yndislegt að geta tekið stígana án þess að vera í taugaáfalli. Er ég útskrifuð? ekki alveg. Næstu helgi fara Landvættir Fimmvörðuhálsinn sem æfingu fyrir Jökulsárhlaupið. Þar eru víst einhver svæði sem mun reyna á þetta. Nokkrir Landvættir voru að ræða þetta eftir hlaupið og ég fann stressið magnast upp og setti því umræðubann á þetta málefni. Ég tek þetta bara eins og allt annað, ekki hugsa, bara gera því þetta reddast. Að auki er Ragnar björgunarsveitarmaður búinn að lofa að koma mér í gegnum þetta. Hann lofaði því fyrir framan konuna sína hana Ástu þannig að ég lít á það sem meitlað í stein.

Hlaupaleiðin getur verið áskorun fyrir þá sem þjást af mikilli …
Hlaupaleiðin getur verið áskorun fyrir þá sem þjást af mikilli lofthræðslu. Ljósmynd/Hrafnhildur Tryggvadóttir

Það er pínu fyndið að fatta eftir á að þú ert ekki lengur lofthrædd, eða miklu minna lofthrædd en þú hélst. Þetta minnti mig á þegar ég áttaði mig á því einn daginn að ég skildi spænsku. Ég var skiptinemi í Honduras og talaði ekki stakt orð í spænsku þegar ég kom. Bjó hjá yndislegri fjölskyldu og ég og litli bróðir minn höfðum það fyrir reglu að horfa saman á suður amerískar sápuóperur þegar hann kom heim úr skóla. Þetta er hágæðasjónvarpsefni og ekki verra þegar þú skilur ekki múkk og nýtur þess að sjá hvern leiksigurinn á fætur öðrum. Einn daginn uppgvötaði ég hins vegar að ég skildi allt sem leikararnir sögðu og hafði örugglega gert það í einhvern tímann. Ég var bara ekki búin að tengja þetta saman. Stundum hefði verið betra að skilja meira til að byrja með. Í fyrsta skipti sem ég fór í bíó í Honduras þá fékk ég mér nachos með ostasósu og kók að drekka. Svo sagði stúlkan eitthvað sem ég skildi ekki og ég sagði bara si. Þetta hljómaði bara fínt það sem hún bauð. Ég settist inn í myrkaðan salinn og fór að gæða mér á nachos. Setti hendina í boxið, náði mér í flögu og á núll einni logaði munnurinn á mér og ég náði ekki andanum. Aumingja fólkið í kringum mig heyrði ekkert fyrir hóstaköstum. Allt heimsins kók gat ekki slökkt í þessum hryllingi. Hvað var í gangi? Það sem ég skildi ekki var sem sagt, má ekki bjóða þér gróft skorinn ferskan jalapeno ofan á nachos. Já, einmitt, það var ekki alveg málið sá ég.

Eftir hlaupið skelltum við okkur í heitu pottana á Hauganesi. Það er ótrúlega flott aðstaða og auðvitað greiddum við okkar gjald. Vorum að spjalla við aðra Landvætti. Þarna voru hjón á mínum aldri sem voru að klára hlaupið. Þegar þau byrjuðu að hlaupa síðasta haust þá gátu þau 2.5 km. Það hættir ekki að koma mér á óvart hvað er hægt að bæta sig mikið á stuttum tíma. Eftir pottana var ég orðin ansi framlág, þreytt og orkulaus. Við renndum því á Dalvík í forláta lambalæri og nutum foreldradekursins áfram.

Hvernig tilfinning er að gera 11 börn móðurlaus?

Við vöknuðum pínu stirðar en ótrúlega hressar og enn þá í skýjunum með þetta afrek okkar. Fengum okkur morgunmat og lögðum svo í hann. Sigrún Tinna 10 ára dóttir mín hafði verið í ömmu og afa dekri á Dalvík í viku og kom með okkur. Ferðin suður sóttist vel. Það var fínt veður og ekki mikil umferð þar sem við lögðum snemma af stað. Við tókum nokkur teygjustopp á leiðinni. Það var yfirleitt enginn fyrir aftan okkur en við mættum stundum litlum bílalestum. Við Grábrók kom á móti okkur smá bílalest. Við vorum í góðum gír enda einar okkar megin. Á örskotsstundu sjáum við síðan að bíll tekur sig út úr lestinni til að taka fram úr. Elva er vel vakandi og fer með okkur út í kant þannig að í smá stund eru þrír bílar akandi samhliða á veginum. Við, bíllinn sem var fremstur og hvíti bíllinn sem tók fram úr. Ég hef oft verið nálægt því að lenda í árekstri vegna framúraksturs en aldrei neitt í líkingu við þetta. Þessi tilfinning þegar bíllinn á móti nánast strýkst við bílinn þinn er eitthvað sem mig langar ekki að upplifa aftur. Ef Elva hefði ekki verið svona vakandi og snögg að hugsa, sæti ég ekki og skrifaði þetta blogg. Við vorum fjórar mæður í bílnum sem eigum samtals 11 börn. Kæri bílstjóri á hvíta bílnum. Lá þér svona rosalega mikið á? Það var enginn fyrir aftan okkur og því auðvelt að taka fram úr, á eftir okkur. Þegar þú tekur framúr erum við næstum því samhliða bílnum á undan þér. Það var engin leið fyrir þig að sjá okkur ekki ef þú hefðir verið búinn að kanna aðeins aðstæður, áður en þú tókst fram úr bílnum fyrir fram þig. Ég áttaði mig líka á því að fólk er almennt glötuð vitni. Við vorum svo nálægt bílnum að við hefðum getað séð augnlitinn í bílstjóranum. Eina sem við munum er að þetta var hvítur bíll, ekki tegundina, ekki hver var að keyra eða hversu margir voru í bílnum. Enda set ég þetta ekki inn til að vera með nornaveiðar. Þetta var bara frábær áminning hversu stutt og hverfult lífið er og að muna að njóta hvers dags og vera góð við hvert annað.

Mæli ég með Þorvaldsdalsskokkinu, 150%. Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert á ævinni. Stækkaði þægindarammann og bætti við, Þetta Gat Ég Listann Minn. Langar þig að taka þátt í Þorvaldsdalsskokkinu og ert ekki í neinu formi. Þá er þetta fullkominn tími að byrja að hlaupa núna.

Ef þú ert að glíma við lofthræðslu eins og ég þá ekki hika við að senda mér skilaboð og ég skal fara yfir hvað ég gerði. Lífið er núna og það er ömurlegt að láta fóbíur stoppa sig. Þetta veit ég þar sem ég er líka búin að fara á flughræðslunámskeið. Ég neita að láta ótta stoppa mig í að lifa lífinu.

3 góð ráð

1. Vanda valið á utanvegaskóm og öðrum fatnaði.

2. Þú stjórnar alltaf ferðinni. Ef þú ert með fóbíur þá er það þín ákvörðun að láta þær stoppa þig frá því að lifa lífinu til fulls.

3. Það getur allt klikkað, stundum þarf bara að stökkva út í djúpu laugina og taka áhættur.

Það sem virkaði best fyrir mig var að breyta úr, guð minn góður hvað var ég að hugsa, yfir í en spennandi, hvernig geri ég þetta. Það er svo einfalt að því meira sem ég get og því meira sem ég sigrast á, því auðveldara er að tækla næsta verkefni. Eina sem ég þarf að gera er að kynna mér ekki of mikið fyrirfram og mæta á staðinn með þá staðföstu trú að þetta reddist allt einhvern veginn.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á Instagram: asdisoskval

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka