„Ég byrjaði að æfa sund í október 2018 með virkilega „frábært“ viðhorf að leiðarljósi. Ég hata sund og mun aldrei geta lært það. Það kom fljótlega í ljós að það er ekki besta veganestið. Eina ástæðan fyrir því að ég fór að æfa sund var að ég ætlaði að taka Landvættinn 2019. Hann samanstendur af fjórum keppnisgreinum og ein af þeim er Urriðavatnssundið sem er 2.500 m vatnasund. Þegar ég skráði mig hafði ég lengst hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég hafði aldrei stigið á gönguskíði, hafði ekki hjólað úti í áratugi og ég vissi að ég gæti ekki synt,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir, fasteignasali og miðaldra kona, í sínum nýjasta pistli:
Ég var hins vegar harðákveðin í að geta þetta og eins og máltækið segir, hugurinn ber þig hálfa leið. Ég kláraði reyndar ekki Landvættinn 2019 þar sem viku fyrir Bláalónsþrautina fór ég óvart í gifs (var ranglega greind handleggsbrotin). Ég gat því ekki hjólað Bláalónsþrautina og ég treysti mér svo ekki í sundið vegna æfingaleysis. Ég fór því í plan B., klára Landvættinn 2020. Aukabónus, ég er loksins búin að læra að elska sund. Betra seint en aldrei ekki satt?
Þeir sem eru betri en þú hvetja þig áfram
Ég byrjaði að æfa með Þríkó (Þríþrautadeild Breiðabliks) haustið 2018. Þríþraut samanstendur af þremur greinum, sundi, hjólreiðum og hlaupi. Mér fannst því steinliggja að æfa með þeim því þá vantaði mig bara gönguskíðin til að tækla Landvættinn. Ég fór á innihjólaæfingar til að byggja upp þrek og svo tók ég sundæfingar þegar ég hafði ekkert annað að gera. Ég treysti mér ekki á hlaupaæfingar þar sem ég var sannfærð um að ég væri ekki nógu góð til að mæta á þær. Í haust byrjaði ég svo að æfa allar greinar með Þríkó og þá kom í ljós að ég er alveg nógu góð. Málið er einfalt. Annmarkarnir eru yfirleitt í hausnum á þér. Þú ert sú sem sannfærir þig um að þú getir ekki eitthvað. Annað sem ég hef lært er að þeir sem eru betri en þú eru hvetjandi. Þeir vilja hjálpa þér að ná markmiðum þínum. Þeir sem eru lélegri en þú. Þeir sjá oftar vandamálin. Oft vilja þeir hreinlega ekki að þú náir þínum markmiðum. Þá ertu búin að sanna að þetta sé hægt og þeir hafa ekki lengur neinar afsakanir til að taka ekki á sínum málum. Þríkó er stútfull af fólki sem er betra en ég og ég hef sjaldan fundið annan eins stuðning á minni vegferð og hjá þeim. Þetta var eins og að koma heim. Allir eru tilbúnir að leiðbeina, hjálpa, aðstoða og hvetja. Það er enginn sem segir: Þú ættir ekki að reyna þetta. Það er ekki sjens að þú getir þetta. Ég heyri frekar, ef þú vilt gera þetta þá er þetta það sem þú þarft að gera. Svo koma góð ráð um hvað þau gerðu þegar þau voru byrjendur. Það var einmitt annað sem kom mér skemmtilega á óvart. Þau hafa öll verið byrjendur á einhverjum tímapunkti. Þetta er ekkert flókið, ef þú vilt ná árangri þá verður þú að vera tilbúin að leggja á þig vinnuna og forgangsraða til að það gangi upp. Þetta snýst aldrei um heppni, eingöngu hvað þú ert tilbúin að leggja á þig.
Inga Dís Karlsdóttir er einn af töffurunum í Þríkó. Hún er mjög góður hlaupari og hjólari. Ég hélt að hún hefði alltaf verið svona svakalega góð. Hún væri með þetta í genunum og þyrfti því ekki að leggja jafnmikið á sig og við hin. Þess vegna varð ég mjög hissa þegar ég sá stöðufærslu frá henni á Facebook 19.desember 2019. „Fyrir 10 árum fagnaði ég þeim áfanga að geta hlaupið 10 km án þess að ganga og mætti svo galvösk í Gamlárshlaup ÍR tveimur dögum síðar ... ég var svo til dauð um gamlárskvöldið ... fæturnir loguðu og það tók nokkra daga að jafna sig. Þið vitið flest framhaldið.“... sumsé ... ef ég gat þá getur þú. Hvet ykkur til að skrá ykkur í Gamlárshlaup ÍR
„Montstatus dagsins!!! Ég hljóp 10 km á 1,06 í morgun.... ógisslega montin í ljósi þess að hlaupaferillinn hófst í lok september á því að hlaupa í 3 mín. og ganga í 3 mín. til skiptist. Ég hlýt að geta endurtekið þetta á gamlársdag.“
Í dag hefur Inga Dís hlaupið fleiri maraþon en ég hef hlaupið 10 km hlaup. Hún hefur líka verið hlaupastjóri í fjölmörgum hlaupum, þar með talið umræddu Gamlárshlaupi ÍR og hún fer reglulega með hópa utan í maraþon. Fyrir rúmum 10 árum gat hún hins vegar ekki hlaupið 10 km. Meira að segja besta fólkið hefur verið byrjandi einhvern tímann. Þess vegna eiga þau svo auðvelt með að leiðbeina og setja sig í þín spor, þau þekkja þessi spor. Mér fannst líka mjög jákvætt að sjá að við Inga Dís áttum nákvæmlega sama tíma í okkar fyrsta 10 km hlaupi.
Það er alltaf best að hafa góðan stuðning
Það var gífurlega stór ákvörðun fyrir mig að skrá mig í Landvættina. Ég hafði ekki neinn grunn í þessum íþróttum og allir sem ég þekkti sem höfðu tekið þátt voru rosalega góðir íþróttamenn. Ég var ekkert alveg viss um að þetta væri eitthvað fyrir mig. Það var ekki fyrr en ég hringdi í Örnu Torfadóttur sem hafði klárað Landvættinn fyrr um sumarið að ég ákvað að skrá mig. Ég hringdi í hana og spurði hvort hún héldi að ég myndi ráða við þetta. Hún sagði, „þú getur þetta ef þú vilt það“. Þetta er svo einfalt. Við getum það sem við einsetjum okkur að gera. Það sem við setjum í algjöran forgang. Annars finnum við afsakanir. Það er of mikið að gera, ég kemst ekki á æfingar. Þetta símtal við Örnu breytti öllu. Það sló allar afsakanir út af borðinu. Þú getur þetta ef þú vilt það. Akkúrat á þessari stundu vildi ég ekkert meira. Ég setti æfingar í forgang í fyrsta skipti á ævinni og með hverri viku varð ég betri og sterkari. Mín mesta gæfa var síðan að Hilda vinkona (Hrafnhildur Tryggvadóttir) ákvað að taka Landvættinn með mér. Hún er mikill reynslubolti þegar kemur að hlaupi og almennri hreyfingu og það munaði öllu að hafa æfingafélaga með sér.
Að ofmetnast og skrá sig sem lið í ólympíska þríþraut
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan ég skráði mig í Landvættinn. Núna eru komin ný og spennandi markmið fyrir 2020. Ég ætla reyndar enn þá að klára Landvættinn en ég er líka búin að skrá mig í ólympíska þríþraut og hálfan járnkarl. Þríkó er að fara í æfingaferð til Þýskalands í júní og þar er í boði að keppa bæði í hálfum járnkarli og ólympískri þríþraut. Reyndar er líka í boði að fara í svokallaða sprettþraut. Mér fannst augljóst að hún myndi henta mér langbest. Hæfilega langar vegalengdir og sundið ekki nema 500 metrar. Var næstum því búin að skrá mig þegar mér var bent á eitt smáatriði. Sprettþraut snýst að miklu leiti um að vera svakalega fljót að skipta á milli greina og jú líka að vera rosalega fljót í öllum þessum greinum. Ég sá fyrir mér að „Speedy Gonzales“ myndi smellapassa í sprettþrautina á meðan ég væri meira eins og Sylvester erkióvinur hans. Ég hef marga kosti og hef bætt mig gífurlega á mörgum sviðum. Að vera fljót að skipta á milli greina er ekki einn af þeim.
Hálfur járnkarl er 1,9 km sund, 84,1 km hjól og 21,0 km hlaup. Sprettþrautin er 500 m sund, 18,3 km hjól og 5,0 km hlaup. Ólympísk þríþraut er 1,5 km sund, 36,0 km hjól og 10,0 km hlaup. Mér fannst hálfur járnkall of stór biti fyrir mig á þessum tímapunkti, og eiginlega ólympísk þríþraut líka. Mér leist ekkert á blikuna. Ég er engan veginn nógu góð fyrir svona keppni. Svo hugsaði ég málið. Hverju skiptir það þó að ég skrái mig í þríþraut og klúðri þessu? Ég ætla ekki að líta til baka og hugsa. Ég vildi að ég hefði ... Ég ætla að líta til baka og hugsa. Mikið svakalega er ég stolt af því sem ég áorkaði. Öllum hindrunum sem ég ruddi úr vegi. Öllum áskorunum sem ég tæklaði. Það er svo miklu betra að reyna og mistakast heldur en að reyna ekki. Ég skellti mér því í djúpu laugina og skráði mig í ólympíska þríþraut. Tók mynd af skráningunni og setti í Facebook-hópinn hjá Þríkó. „já góðan daginn, mín langstærsta out of the comfortzone aðgerð í tæp 51 ár,“ það sem ég var montin af mér að hafa gert þetta ein og óstudd. Inga Dís kommentaði á núlleinni. „Dásamlegt. Ég sé hins vegar að þú hefur skráð þig í relay sem er „boðsveit“... þú vilt kannski laga það?“ Ég hugsaði einmitt þegar ég skráði mig hvað þetta væri rosalega skrýtið að þurfa að skrá mig í allar greinarnar. Ég hélt að þetta væri eitthvert þýskt skipulag. Fyrst kom nafn sundmanns. Ég setti Ásdís Ósk Valsdóttir. Nafn hjólara, en skrýtið að þurfa að skrá mig aftur, en ok, Ásdís Ósk Valsdóttir. Nafn hlaupara. Hvaða rugl er þetta, en ok, Ásdís Ósk Valsdóttir. Ég sendi neyðarpóst á skipuleggjendur Heilbronn. Núna á ég nýjan vin í Þýskalandi sem heitir Kai. Það tók Kai vin minn viku að redda þessu klúðri en það gekk og allir geta andað léttar. Ég hefði líklega orðið langsíðust sem lið.
Best að skrá sig líka í hálfan járnkarl til öryggis
Ég var að ræða við Hrafnhildi Georgsdóttur sem er að æfa með mér í Þríkó að ég væri búin að skrá mig í ólympíska þríþraut. Henni leist vel á það plan og sagði svo í framhaldi „það eru allir að fara í hálfan járnkarl til Ítalíu í september á næsta ári“. Í gegnum hausinn á mér fóru milljón hugsanir. Mér varð flökurt við tilhugsunina. Ítalía, þar sem Ítölsku alparnir eru. Alparnir þar sem eru ógeðslega miklar brekkur og ég er enn þá að vinna í lofthræðslunni á hjólinu. Nei, það er engin leið að ég geti þetta. Ég varð stressuð við tilhugsunina um að hjóla á fjallsbrún og fríka út í miðri brekku. Valda uppnámi í keppninni og vera dæmd úr leik þegar ég myndi þurfa að leiða hjólið niður einhverja brekkuna. Steig svo eitt skref til baka. Ásdís mín, ætlar þú að fara að láta einhvern brekkuótta stjórna ferðinni? Nei, veistu, þú skráir þig og finnur svo út úr þessu. Það var komin Facebook-hópur fyrir alla sem voru á leiðinni. Þá kom í ljós að ég þekkti ansi marga sem voru að fara. Arna Torfadóttir er að fara og Kjartan Long úr Landvættum. Eftir Heilbronn-klúðrið fannst mér öruggast að hringja í Örnu og fá leiðbeiningar með skráninguna. Þegar ég skráði mig kom í ljós að þetta FLAT BIKE. Sem sagt engir brekkusprettir í Ítölsku ölpunum. Þetta var eins og að vinna stóra lottóvinninginn.
Ég ræddi hálfa járnkarlinn betur við Hrafnhildi. Hún tók heilan járnkarl í Kaupmannahöfn í fyrra og veit hvað hún syngur. Veistu, mér finnst þetta virka svakalega mikið og flókið mál svona járnkarl. Hrafnhildur brosti og sagði. „Þetta er ein grein í einu. Fyrst syndir þú, svo skiptir þú um föt, svo hjólar þú, svo skiptir þú um föt, svo hleypur þú.“ Þetta er í alvörunni alltaf það sama. Setja annan fótinn fram fyrir hinn og endurtaka þar til þú kemur í mark. Nema þegar þú ert að synda, þá er það kannski meira aðra höndina fram fyrir hina. Þetta er nákvæmlega það sama og Hilda vinkona sagði alltaf fyrir hverja einustu keppni. Þær eru svo „meðetta“ þessar Hrafnhildar.
Að geta loksins synt 50 metra í einu
Þorláksmessusund Breiðabliks er einn af viðburðum ársins. Ég var sem betur fer í Miami í fyrra þannig að ég var löglega afsökuð. Þá var ég búin að æfa í 2 mánuði og ekki enn farin að geta synt 50 metra skriðsund án þess að þurfa að stoppa á leiðinni til að anda. Mér fannst það ekki virka mjög vænlegt til árangurs í sundkeppni að geta ekki synt 50 metra í einu. Það var einmitt í Miami sem ég gat loksins synt yfir heila ferð í sundlauginni án þess að stoppa til að anda. Sú sundlaug var reyndar 15 metrar á lengd en það er algjört aukaatriði. Í fyrsta skipti síðan ég byrjaði að synda skriðsund gat ég synt yfir heila umferð án þess að drukkna næstum því. Það markaði upphafið að mínum sundferli. Það að geta synt heila ferð yfir, hversu stutt sem hún var, fyllti mig af sjálfstrausti.
Ég vissi að það eina sem ég þyrfti að gera væri að auka lengdina og hraðann til að bæta mig. Þegar ég kom heim skellti ég mér í Salalaugina og komst líka yfir áfallalaust. Hvers vegna Salalaugina en ekki Sundlaug Kópavogs? Það er vegna þess að Salalaugin er 25 metrar en Sundlaug Kópavogs er 50 metrar. Eina sem pirraði mig var að fína Garmin-úrið mitt virkaði ekki í Salalauginni. Fannst þetta frekar glatað. Ég synti 500 metra og úrið sýndi tæpa 300 metra. Loksins þegar ég var farin að geta synt yfir þá virkaði ekki úrið. Það skánaði ekkert þótt ég færði mig yfir í Kópavogslaugina, úrið virkaði ekki heldur þar. Eftir mikla rannsóknarvinnu leystist málið.
Ég hafði notað það í fyrsta skipti í sundlauginni í Miami. Þá varð sjálfkrafa stillingin 15 metra laug. Úrið ákvað síðan að næsta laug væri líka 15 metrar og stal því af mér 10 metrum í hverri umferð. Það var samt ekkert miðað við Kópavogslaugina þar tapaði ég 35 metrum í hverri umferð. Það kom í ljós að þetta var einfalt stillingaratriði. Í dag kýs ég Kópavogslaugina fram yfir Salalaugina. Mér finnst Salalaugin einfaldlega of stutt.
Hvernig er skjaldbökusund?
Mitt vandamál í sundi er að ég er skjaldbakan. Ég hef ágætisúthald en ég er alveg rosalega lengi að synda. Eftir eina sundæfinguna var Þorláksmessumótið rætt í heita pottinum. „Ætla ekki allir að mæta í Þorláksmessusundið?“, „þetta er alveg svakalega gaman“. „Ég er svona aðeins að hugsa það,“ svaraði ég. Til að vera alveg hreinskilin var það á listanum, kannski einhvern tímann get ég það. Ég ákvað að kanna málið aðeins. „Hversu hægfara má vera? Hvenær lokar hreinlega brautin og fólk er rekið upp úr?“ spurði ég. „Það er alveg þangað til fólk klárar.“ „Já einmitt, hvað er hægasta fólkið lengi?“ spurði ég. „Það er alveg yfir 40 mínútur.“ „Nei nei,“ sagði önnur, alveg örugglega yfir 45 mín.“ „Já, þú meinar, ég er sko 48 mínútur að synda 1.500 m á góðum degi.“ Einn horfði á mig og fannst það ekki líklegt. „Hvað áttu best í 400 metrum?“ „Veit það ekki, hef aldrei mælt það.“ „Hvað ertu lengi að synda 100 m?“ „3.23.“ „Já þú meinar, 3.23 * 15 eru einmitt 48,45.“
Ég skoðaði tímana frá því í fyrra. Það var ein manneskja sem var lengur en 48 mínútur að synda, næsthægasta manneskjan var rúma 41 mínútu. Svo var það Siggi sundþjálfari, hann var rétt rúmar 17 mínútur eða álíka lengi og það tekur mig að þurrka á mér hárið. Ég ákvað að fórna mér fyrir heildina. Vera sú sem yrði síðust í Þorláksmessusundinu 2019 og setja mér svo markmið að bæta mig um 25% á milli ára. Ég skráði mig því í Þorláksmessusundið. Það gekk samt ekkert rosalega vel. Ég skráði mig en fann hvergi greiðsluupplýsingar fyrir sundið og sendi því neyðarkall á Facebook um hvernig ég ætti að greiða. Ásdís mín, það stendur efst á skráningarsíðunni, já takk, komið. Er eðlilegt að klúðra þremur skráningum í þrjár mismunandi keppnir í þremur löndum? Spyr fyrir vin.
Góður nætursvefn skiptir höfuðmáli fyrir mót
Ég svaf illa fyrir mótið. Það er eitthvað sem ég geri alltaf fyrir öll mót. Aldrei þessu vant var ég ekki stressuð. Það er eiginlega ekki hægt að klúðra 1.500 m sundi. Þetta eru allt þekktar stærðir. Laugin er 50 metrar á lengd. Það eru engar óvæntar brekkur sem koma allt einu. Ég var vel stemmd. Ég vissi að ég yrði síðust og var sátt við það. Ég ákvað að fara snemma að sofa. Mótið byrjaði 8:20 og ég vildi vera vel úthvíld. Fór í rúmið um 23:00. Ég náði ekki að sofna. Heilinn tók yfir. Jæja Ásdís mín, Þorláksmessa á morgun, ertu búin að öllu? Já, eiginlega, við eigum bara eftir að skreyta jólatréð, finna uppskrift fyrir ananasfrómas, ris a la mande og perutertu.
Ég misreiknaði mig aðeins með þetta jólatré. Í mörg ár hefur mig dreymt um að fara og höggva niður mitt eigið jólatré. Við fórum með Sigrúnu Tinnu að velja jólatré. Við löbbuðum lengi þar til hún sá hið fullkomna tré. Það virkaði voðalega passlegt þarna úti í náttúrunni. Það er mögulega vegna þess að hin trén voru líklega rúmir sex metrar á hæð. Tréð reyndist vera tæpir 3 metrar á lengd og ansi þungt. Ég og strákarnir ákváðum að setja tréð upp og skreyta kvöldið fyrir Þorláksmessu. Það var ekki sjens að koma því í fótinn. Það gekk álíka vel og að koma stjúpsystrunum í glerskóinn. Þannig að í staðinn fyrir að skreyta í ró og næði settum við upp plan B. Fara í BYKO eftir sundmótið, græja nýjan fót, saga það aðeins til og skreyta svo blessað tréð að framanverðu eins og skrautið dygði. Það var sko engin leið að við ættum nógu mikið jólaskraut til að skreyta það allan hringinn. Þetta yrði að reddast þar sem fréttir dagsins voru ekki til að bæta ástandið, klukkan 16.00 voru öll tré uppseld hjá Björgunarsveitunum. Sigrún Tinna spurði, „mamma hvað ef fólk horfir innum gluggann og sér að tréð er ekkert skreytt að aftan?“ „Veistu, það skiptir engu máli.“ Frelsið sem fylgir því að vera sama um hvað öðrum finnst er ólýsanlegt.
Ég ákvað að nota andvökutímann til að finna uppskriftirnar sem mig vantaði. Þá kom í ljós að það eru engar staðlaðar uppskriftir fyrir ananasfrómas, perutertur eða ris a la mande. Þær eru hins vegar allar næstum því eins. Ég ákvað að velja alltaf þessa efstu. Hún hlýtur að vera vinsælust og því best. Klukkan 02:00 gafst ég upp, náði mér í góða bók og sofnaði eftir fyrstu blaðsíðuna. Vaknaði svo þreytt og syfjuð um 6:30. Mætti samt ansi peppuð í mótið.
Best að gera öll byrjendamistökin strax
Það var gaman að mæta. Ég þekkti flesta sem tóku þátt og sumir voru að keppa á sínu fyrsta móti eins og ég. Þrátt fyrir að hafa lært að elska sund var þetta mitt fyrsta mót og ég klúðraði flestu sem var hægt að klúðra. Það var keppt á 10 brautum og keppendur voru ræstir á 5 sekúnda fresti. Ég var næstsíðust á minni braut. Það var flautað og ég synti af stað. Ég synti allt of hratt og eftir 200 metra leið mér ekki vel. Ég var andstutt og sá að ég yrði að hægja á mér ef ég ætlaði að lifa þetta sund af. Eftir 500 metra langaði mig að æla. Ég var með hausverk og mig verkjaði í augun. Ég náði sem betur fer að slaka á og ákvað að njóta að synda síðustu 1.000 m. Ég náði markmiðinu mínu. Ég kláraði mótið og ég lifði af. Ég var síðust en ég kláraði líka mitt lengsta skriðsund á ævinni. Ég skoðaði Strava. Þetta var mitt 3ja 1.500 m. skriðsund á ferlinum. Það var miklu erfiðara en ég hélt að synda á sundmóti og ég hefði getað gert þetta betur, farið hægar af stað og vandað mig meira. Þetta mót fer í reynslubankann. Það er nauðsynlegt að keppa á nokkrum mótum til að læra að taka þátt í mótum.
Eftir mótið hitti ég Bjarna Jakob sem er líka að æfa með Þríkó. Honum gekk mun betur en mér og synti á tæplega 26 mínútum. Ég spurði Bjarna hvað leynivopnið hans væri. Hann sagði, „ég hef verið mjög duglegur að mæta á æfingar og taka þessar löngu æfingar.“ Löngu æfingarnar eru yfirleitt milli 3 og 4 km, ég var meira að synda í kringum 900-1.200 m. Á þessum tímapunkti tók ég ákvörðun um að mæta meira og synda lengur. Það væri ekkert annað í stöðunni. Sigurður Örn Ragnarsson, sundþjálfarinn okkar í Þríkó, vann karlaflokkinn á 17.21 mínútu, Birna Íris Jónsdóttir,sem æfir líka með Þríkó, vann kvennaflokkinn á 23.53 mínútum. Ég fékk líka verðlaun. Ég fékk verðlaun fyrir bestu brautarnýtinguna. Ég var sem sagt lengst í brautinni af öllum keppendum. Minn tími var 49.31 mínúta. Ég vil reyndar meina að ég hafi líka verið hagsýnust af öllum keppendum og fengið langmest fyrir mitt þátttökugjald. Þátttökugjaldið var 2.000 kr. Þannig að ég borgaði ekki nema 40,50 kr. fyrir hverja mínútu sem ég var í lauginni á meðan Siggi greiddi 116,20 krónur fyrir hverja mínútu.
Fimm dögum eftir Þorláksmessumótið kom áskorun frá Sigga sundþjálfara um að synda 100x100 metra eða 10 km sund. Ég treysti mér ekki í 10 km en ákvað að taka 3.000 metra. Kannski frekar bratt fyrir konu sem 5 dögum áður hafði aldrei synt lengra en 1.500 metra. Það hafðist hins vegar nokkuð áfallalaust og það sem gerðist var að allt í einu var 1.500 metra sund ekkert svo langt. Þegar ég mætti á mína fyrstu sundæfingu eftir áramót synti ég 2.000 metra. Það gerist eitthvað í hvert skipti sem þú getur eitthvað sem þú varst sannfærð um að þú gætir ekki. Þægindaramminn stækkar og stækkar og allt í einu verður eitthvað sem var óyfirstíganlegt fyrir ekki svo löngu lítið mál.
Það eru líka ákveðin forréttindi að vera byrjandi. Það gerir enginn kröfur til þín. Þú ert algjörlega á þínum forsendum og það er sigur að klára. Ekki bíða með að skrá þig í mót þar til þú ert orðin rosalega góð. Þá nærðu aldrei þessum miklu framförum á milli móta og pressan verður miklu meiri. Fyrir mig var stórkostlegur sigur að klára mótið. Allt í einu hlakkaði ég gífurlega til að mæta á æfingar, bæta mig og halda áfram að sigra sjálfa mig.
Líklega var samt best að koma heim og sjá að pabbi, Viktor Logi og Ísak frændi voru búnir að græja jólatréð. Það þurfti reyndar stiga til að setja toppinn á en það hafðist.
Gamlárshlaup ÍR
Þrátt fyrir að eiga stuttan hlaupaferil að baki hef ég alltaf vitað af Gamlárshlaupi ÍR en aldrei langað til að taka þátt. Það eru allir í búningum og ég er ekkert mikið fyrir búningapartý. Í ár ákváðum við Viktor Logi sonur minn að taka þátt. Ég ákvað að hlaupa í skíðagöngugallanum sem ég keypti í Fjallakofanum fyrir Fossavatnið. Fannst það nógu mikill búningur. Þegar ég kom á staðinn kom nú í ljós að það voru alls ekkert allir í búningum þannig að þetta var í góðu lagi. Veðrið var ekkert sérstakt, kalt og rigning. Ég lagði snemma af stað þar sem það átti að loka götunum en eitthvað klikkaði tímastjórnunin hjá mér þar sem það var búið að loka Sæbrautinni þegar við komum og upphófst heljarinnar stress að finna leið á svæðið.
Loksins ákváðum við að leggja við Hallgrímskirkju og taka svo létt skokk niður að Hörpu sem upphitun. Þegar við komum út úr bílnum var skítakuldi þannig að ég ákvað að fara í eina peysu í viðbót. Ég var með tvær aukapeysur og ákvað að fara í þessa þykkari. Innst inni heyrði ég Sævar í Fjallakofanum segja, „ekki klæða þig of mikið.“ Það er betra að vera of kalt í startinu en stikna úr hita alla keppnina. Ég ákvað að hunsa þessa rödd, ég meina það var ansi kalt. Ég var sem betur fer með þykku hlaupavettlingana mína. Við komum niður í Hörpu kortér í ræsingu.
Hversu oft er hægt að gera sömu byrjendamistökin?
Ég var búin að hlakka mikið til. Þetta yrði mitt þriðja 10 km hlaup á ævinni og ég ætlaði að ná mínu besta hlaupi, 57.59. Við vorum með mjög gott plan. Byrja hægt og rólega og byggja svo undir og eiga svakalega góða endasprett. Við fórum því í 55 mínútna hólfið. Allt í einu sé ég Birnu Írisi í sama hólfi. Ég skildi ekki alveg hvað hún var að gera þarna þar sem hún er miklu betri hlaupari þar til ég sá að hún var merkt 55. Hún var sem sagt 55 mínútna blaðran. Hvað er 55 mínútna blaðran? Það er hlaupari sem hleypur á þessum hraða allt hlaupið þannig að aðrir hlauparar viti á hvaða hraða þeir þurfa að hlaupa til að ná sínum markmiðum. Hlaupið byrjaði og þetta gekk vel í smástund. Allt í einu sé ég hvar Viktor Logi tekur fram úr mér. Ég fer því að gefa í og hleyp allt of hratt.
Eftir 2 kílómetra er ég alveg sprungin. Ég er að stikna, (já ég veit, það hefði verið betra að sleppa þessari aukapeysu) og ég hægi á mér. Mér líður samt það illa að ég ákvað að labba smá stund. Þegar við erum búin með sirka 5 km hægi ég aftur niður í gönguhraða. Þegar ég kom að 6 kílómetra skiltinu var ég farin að selja hausnum á mér að nú séu rétt rúmir 3 kílómetrar eftir. Svona taldi ég niður þar til ég kom í mark. Mér leið ekki vel í hlaupinu, ég náði engum lokaspretti og flögutíminn sýndi 1.00.22, langt frá 57.59. Þetta er samt minn annar besti tími á ævinni og undir venjulegum kringumstæðum hefði ég verið mjög sátt við hann.
Gallinn við reynsluna er einmitt sá að þá er hægt að setja sér markmið byggt á fyrri reynslu og þá er hættan sú að ef þau nást ekki að svekkelsið taki völdin. Þess vegna er svo dásamlegt að vera byrjandi, engar væntingar og alltaf sigur að geta klárað.
Þetta hlaup fer í reynslubankann. Ég veit núna betur hvað ég á ekki að gera. Ég hlakka til að fara í næsta 10 km hlaup með þessa reynslu og læra af henni.
Ég tók þátt í tveimur mótum á einni viku. Hvernig þú upplifir þau er undir þér komið. Ég gæti velt mér upp úr því að hafa verið síðust á Þorláksmessumótinu og hafa verið langt yfir markmiðum mínum í Gamlárshlaupinu. Ég kýs að horfa á hversu langt ég er komin. Fyrir ári hefði ég ekki getað synt í Þorláksmessusundinu hversu mikið sem mig hefði langað til. Þetta var mitt lengsta skriðsund á ævinni og ég kláraði það. Fyrir ári hefði ég líka verið í skýjunum með þennan tíma í Gamlárshlaupi ÍR. Ég elska að sjá mínar framfarir hversu litlar sem þær eru því á einu ári verða þær oft ótrúlega miklar. Eina sem þarf að gera er að halda áfram og gefast ekki upp þó að á móti blási.
Ég get ekki mælt nógu mikið með því að takast á við áskoranir og stækka þægindarammann sinn. Það skiptir engu máli hvað öðrum finnst. Þetta er þitt líf.
Fyrir þá sem vilja fylgjast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á Instagram: