Viltu ekki fróðleik í fararnesti?

Með fróðleik í fararnesti er samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands, Ferðafélags barnanna og Háskóla Íslands þar sem mörg þúsund manns, ungir og aldnir, hafa gengið í borgarlandinu og hlotið þrennt: góða útivist, fína hreyfingu og fróðleik í fararnesti frá mögnuðum vísindamönnum Háskólans. Jón Örn Guðbjartsson, sviðsstjóri hjá Háskóla Íslands, hefur leitt þessar göngur ásamt hjónunum Döllu Ólafsdóttur og Matthíasi Sigurðarsyni.

Þetta verkefni byrjaði fyrir tæpum tíu árum og hefur að sögn Jóns Arnar aukið áhuga almennings á vísindum og fræðum og á íslenskri náttúru í borgarlandinu.

„Markmiðið með Ferðafélagi barnanna hefur ávallt verið að skapa skemmtilegan vettvang fyrir börn og fjölskyldur þeirra til að njóta útiveru, takast á við nýjar og spennandi áskoranir og hafa einfaldlega gaman af því að leika sér úti,“ segir Dalla frá Ferðafélagi barnanna og bætir því við að verkefnið með Háskóla Íslands hafi heppnast gríðarlega vel. Þarna mæti flinkir og flottir vísindamenn sem bjóði upp á fróðleiksgöngur um t.d. fugla, skordýr, sveppi, fjöruna, eldfjöll, stríðsminjar og stjörnurnar. „Þetta eru gríðarlega vinsælar göngur og mjög ánægjulegt að geta boðið börnum upp á að njóta náttúrunnar og fá fróðleikinn samhliða. Vísindamenn Háskólans hafa vakið mikla athygli fyrir að draga fram mikilvægi vísindastarfs fyrir íslenskt samfélag, fyrir lífríkið okkar og umhverfið.“

Nú er búið að raða upp fróðleiksgöngum fyrir allt árið og er næsta ganga í apríl. Þá eru farfuglarnir að flykkjast til landsins og verður farið í fuglaskoðun. Fjaran er auðvitað besti staðurinn til að skoða fugla snemma vors og verður líklegast farið í Grafarvoginn. Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, mun leiða fuglaferðina eins og hann hefur gert frá upphafi með miklum tilþrifum. Hann veit enda nánast allt um fugla.

„Minn uppáhaldsfugl er spói,“ segir Tómas Grétar spurður um þann fugl sem heillar hann mest. „Fuglar eru frísklegir og áberandi. Það er líka eitthvað heillandi við flugið sjálft. Ætli tilhneiging fólks til að velja sér uppáhaldsfugl sé ekki eins og að halda með fótboltaliði,“ segir Tómas Grétar.

Fjaran er heillandi heimur

Það er hægt að fara í fjöru allt árið um kring en vorið er frábær tími til rannsókna í flæðarmálinu. Fjöruferð í Gróttu er þess vegna áformuð í lok apríl. Grótta er algjör perla en þar verða ýmsar lífverur skoðaðar, grúskað og leitað að kröbbum í fjörunni og öðrum smádýrum í skemmtilegri rannsóknaferð.

Gríðarlegur fjöldi hefur notið þekkingar vísindamanna Háskólans í þessum fjöruferðum en í þeim eigum við von á að sjá gnótt af fjörusniglum eins og klettadoppu, þangdoppu og nákuðungi en einnig beitukóng, sem yfirleitt lifir að mestu leyti neðan fjöru. Í fjöruferð má ekki gleyma að kíkja milli steina og undir klapparþangið og klóþangið, þar sem leynast marflær, litlir krabbar og jafnvel sprettfiskar, en einnig fallegir gulir svampar.

Pöddur, oj bara! Nei, alls ekki, þær eru magnaðar

Margir hafa ímugust á skordýrum en pöddur hafa samt heillað unga fólkið svo um munar undanfarin ár. Pödduskoðun í Elliðaárdal er því árviss viðburður á hverju sumri. Skordýr eru fjölbreyttasti flokkur dýra á jörðinni og á Íslandi hefur skordýrum fjölgað undanfarin ár af ýmsum ástæðum. Nýjar tegundir hafa líka bæst við. Gísli Már Gíslason, skordýrasérfræðingur frá Háskóla Íslands, hefur verið fremstur í flokki við að fræða göngufólk um heim skordýranna en hann hefur líka verið áberandi í fjölmiðlum þar sem hann hefur m.a. talað um nýja tegund sem enginn fagnar, en það er lúsmýið sem bítur fólk. Gísli Már segir að skordýr séu helsti keppinautur mannsins um fæðu og hartnær fjórðungur af nytjaplöntum fari beint í skordýr, m.a. hveiti, bygg, maís og ýmsar aðrar plöntur sem menn nýti sér sem fæðu. „Miklum fjármunum er varið í heiminum á ári hverju í að halda skordýrum niðri.“

Gísli Már segir að skordýr séu engu að síður gríðarlega mikilvæg í lífríkinu. „Skordýr frjóvga allar blómplöntur, og ef þeirra nyti ekki við væru blómplöntur ekki til.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka