Öll ferðalög snúast um mannlegar tilfinningar

„Allt fór þetta því vel á endanum,“ segir hún skælbrosandi, „en ég gleymi aldrei þeirri tilfinningu að grípa í tómt þegar ég ætlaði að taka fram gönguskóna.

„Í göngum erum við að auka þol og styrk og oft reynum talsvert á okkur og náum púlsinum vel upp. Ávinningurinn er betra þol, sterkara stoðkerfi, meira jafnvægi og vellíðan. Í jóga gerum við það gagnstæða, leitumst við að finna innri ró, náum tökum á huganum og stundum andlega iðkun ásamt því að styrkja líkamann með æfingum.“

Þetta segir fararstjórinn Edith Gunnarsdóttir, sem hefur getið sér gott orð fyrir jógaferðir á vegum FÍ undanfarin ár. Edith er enginn nýgræðingur í fararstjórn því hún hefur leitt stóra hópa í fjallaverkefninu Alla leið. Í aðdraganda þess hafði hún auk þess gengið með Ferðafélaginu í mörg ár.

Alla leið er verkefni á vegum FÍ sem helgast af útivist, fræðslu og göngum þar sem reynir æ meira á göngufólk eftir því sem nær líður lokum verkefnisins. Lokahnykkurinn er svo ganga á einn af hæstu tindum landsins. Alla leið hefur eiginlega tvenns konar merkingu fyrir Edith. Í því verkefni hefur hún nefnilega ekki bara gengið alla leið á marga af hæstu tindum landsins heldur kynntist hún þar líka kærasta sínum, Örlygi Steini Sigurjónssyni, í einni ferðinni. Það hagar þannig til að hann er líka fararstjóri hjá Ferðafélaginu.

„Það er ótvíræður kostur að hinn helmingurinn sé líka í þessu,“ segir Edith, „því maður er oft að vinna á óreglulegum tíma, um helgar, á kvöldin og yfir sumartímann. Þá er gott að mæta skilningi en oft erum við einnig að vinna saman í ferðum.“

Jóga, leiðsögn og sálfræði

Edith hefur lokið hluta af grunnþjálfun í Flugbjörgunarsveitinni og öðrum námskeiðum sem tengjast leiðsögn og vetrarfjallamennsku. Hún er því traust og ábyrg og áberandi brosmild að auki. Hún er menntuð í sálfræði og vel að sér um geðheilbrigði. Hún er líka með kennararéttindi í jóga og djúpslökun.

„Þegar ég tók fyrstu kennsluréttindin mín í jóga fékk ég fljótlega þá hugmynd að flétta saman jóga og göngum. Ég hafði stundað útivist í mörg ár og var alltaf með annan fótinn í jóga og hugleiðslu. Þessi áhugamál eru hvort á sínum endanum en samt lík á einstakan hátt. Bæði þessi áhugamál stuðla að jafnvægi og vellíðan og það er gott að hafa í huga að það er ekki nóg að rækta einungis líkamann heldur verðum við líka að rækta hugann,“ segir Edith og bætir við, „já og sálina líka.“

Margir gætu nú ætlað að hugurinn og sálin séu eitt og hið sama, en ó nei, segir Edith og hún veit sko hvað hún syngur. „Þetta snýst allt um jafnvægi, yin og yang, ida og pingala, hægri og vinstri hlið líkamans,“ segir hún og brosir. „Það er mikilvægt fyrir okkur að fá kyrrð og innri ró alveg eins og það er mikilvægt fyrir okkur að fá hreyfingu þar sem púlsinn fer upp eins og t.d. í fjallgöngu. Með því að stunda bæði jóga og fjallgöngur erum við að koma jafnvægi á líkamann.“

Ekki gleyma andlegu hliðinni

Edith, sem er Reykvíkingur í húð og hár, segir að ávinningurinn af jóga sé sterkara ónæmis- og taugakerfi, hugarró, meiri liðleiki og stöðugleiki, betri svefn og meira jafnvægi og vellíðan. „Í jógafræðunum er talað um að ef það er ekki jafnvægi á milli þessara þriggja þátta, líkama, huga og sálar, getum við byrjað að þróa með okkur sjúkdóma eða heilsubresti.“

Hún segir að allt of margir hlúi einungis að líkamanum og sinni ekki hinum tveimur þáttunum. Edith er ekki bara að bauna orðum út í loftið, hún talar af reynslu. Hún hefur oft verið undir miklu álagi og þolað ótrúlega streitu eins og flest okkar, því miður. En hún bognaði ekki bara undan streitunni, hún brotnaði og endaði í kulnun. Kulnun er gríðarlega alvarlegt andlegt áfall og í raun endastöðin á langvinnri og alvarlegri streitu.

„Ég hef líka lent í tveimur mjög alvarlegum bílslysum,“ segir hún og verður ögn alvarlegri. „Seinna slysið orsakaði það að stoðkerfi mitt hrundi, ég fékk bæði byrjunareinkenni af brjósklosi í baki og hálsi, vefjagigt, klemmdar taugar og mikla verki í baki og bólgur ásamt því að hægri hlið líkamans var nánast alltaf dofin,“ segir Edith. „Þessu fylgdu að sjálfsögu miklir verkir og lítill svefn.“

Leiðin út úr þessu var jóga og fjallgöngur, sem færðu henni ótrúlegan bata.

„Þetta snýst ekki einungis um líkamlegu hliðina heldur einnig þá andlegu, það skiptir miklu máli að temja sér jákvæðar hugsanir, sérstaklega ef maður er að ganga í gegnum endurhæfingu af einhverju tagi eða glíma við lífsins verkefni og þar kemur jóga og andleg iðkun svo sterkt inn,“ segir Edith. „Jóga snýst nefnilega ekki um liðleika eða að komast í fullkomnar jógastöður heldur leiðina í stöðuna, það er ekki áfangastaðurinn sem skiptir máli heldur ferðalagið, alveg eins og með göngurnar.“

Líður alltaf vel eftir göngu

Edith er á því að ef við fengjum enn fleiri til að ganga myndum við draga snarlega úr neyslu á bólgueyðandi og verkjastillandi lyfjum á Íslandi.

„Fjallgöngur eru mjög heilsueflandi og ein besta útivist sem við getum stundað allt árið. Að fara í fjallgöngu er allra meina bót og það er ekkert sem toppar útsýni af íslenskum fjöllum. Það skiptir eiginlega ekki máli hvernig viðrar, það hefur enginn sagt eftir göngu: ég hefði ekki átt að fara í göngu í dag vegna veðurs. Manni líður alltaf vel eftir göngu,“ segir Edith og er ákveðin í tali.

Hún segir að fjöllin færi sér jarðtengingu, hún finni meiri skýrleika, upplifi vellíðan og sofi betur eftir fjallgöngu. „Það er t.d ekkert eins dásamlegt og að hugleiða úti í íslenskri náttúru, það er svo mikil og sterk tenging sem maður finnur fyrir strax því við eigum svo óspillta náttúru sem er uppfull af jákvæðri orku. Þess vegna finnst mér jóga og göngur passa einstaklega vel saman. Ástríða mín er að hjálpa öðrum að sjá ljósið og leiðina í átt að jafnvægi, vellíðan og innri friði,“ segir hún og hugsar eitt andartak. „Ekki setja lykilinn að hamingjunni í vasann hjá öðrum, því lykillinn að hamingjunni býr innra með þér.“

Þurfum að vera hvetjandi og sýna skilning

Edith hefur vegna menntunar og starfs síns sem ráðgjafi og jógakennari skoðað mannlegt atferli í meira en áratug og unnið með fólki úr öllum víddum samfélagsins. „Sú reynsla nýtist mér í allri leiðsögn, við fáum alls konar fólk í ferðir til okkar í misjöfnu ástandi, bæði andlega og líkamlega,“ segir hún. „Við þurfum að vera hvetjandi, hafa áhuga á félagslegum samskiptum, sýna samvinnu í verki og skilning og hafa áhuga á velferð og heilsu fólks.“

Edith segir að öll reynsla sé góð, fyrir lífið sjálft og ekki síður fyrir starf leiðsögumannsins. „En nám mitt í sálfræði,“ segir hún, „og í heilbrigðisvísindum og jógafræðum hefur gefið mér betri skilning á hugsun, hegðun og tilfinningum fólks. Öll ferðalög snúast um mannlegar tilfinningar og þá er nú gott að vera með góðan grunn sem getur nýst manni endrum og eins.“

Með náttúruna tengda í taugakerfið

Þótt Edith sé af mölinni eða malbikinu er hún ekkert sérstaklega bundin steinsteypunni eða borgarlandinu tilfinningalega. Hún fékk þennan þráð sem tengdi hana beint í samband við náttúruna og sumarið í sinni tærustu mynd með því að fá að fara í sveit á sumrin hjá ættingjum.

„Ég náði strax tengingu við náttúruna sem barn, það var eitthvað svo heillandi við náttúruöflin og alla þessa fjallasýn. Ég man eftir frelsinu sem fylgdi því að fá að vera úti í náttúrunni allan liðlangan daginn, hlaupandi um í gúmmítúttum um grasi vaxin tún, frjáls eins og fuglinn.“

Spurð um uppáhaldsstaðina kemur svarið snöggt. „Lónsöræfi, Fjallabak og Langisjór!“ Og svo fer hún auðvitað næst yfir í þann stað sem er ekki bara vandlega merktur á landakortum heldur líka andlega merktur. „Snæfellsjökull og nágrenni eru líka í fremstu röð,“ segir hún. „Það er einhver óútskýranleg orka sem kemur frá jöklinum. Ef maður dvelur í nágrenni við Snæfellsjökul í lengri tíma finnur maður þessi jákvæðu áhrif frá jöklinum sem orsaka vellíðan á svo margan hátt. Enda er stundum talað um að Snæfellsjökull sé ein af sjö orkustöðvum heimsins. Ég hef unnið við að ganga upp á Snæfellsjökul yfir sumartímann með ferðamenn og þvílík vellíðan í þeirri vinnu. Þótt maður færi upp á jökulinn nokkra daga í viku var maður ekkert að spá í það vegna þess að manni leið alltaf svo vel. Bárður Snæfellsás hugsar líka vel um sína. Ég gæti örugglega búið á Arnarstapa miðað við hvað manni líður vel þar.“

Edith er eins og allir fjallaleiðsögumenn verndari og talsmaður íslenskrar náttúru. „Við erum hluti af henni og ég vona að fólk sé farið að finna meira fyrir aðdráttarafli hennar. Það hefur gildi fyrir okkur mannfólkið að komast í kyrrð og frið í ósnortna náttúru þar sem hægt er að njóta án truflana og sums staðar jafnvel án vélknúinna ökutækja.“

Aldrei leiðinlegt fólk á fjöllum

„Það er aldrei leiðinlegt fólk á fjöllum,“ segir Edith spurð hvað heilli mest við að starfa sem fararstjóri. Og svo hlær hún.

„Þetta er meiriháttar og ótrúlega þroskandi og gefandi starf. Það er oft mikið um gleði og hlátur. Maður kynnist alltaf frábæru fólki alls staðar úr þjóðfélaginu. Ég segi alltaf: það er ekki áfangastaðurinn sem skiptir máli, eða að toppa tindinn, heldur ferðalagið og fólkið sem maður kynnist á leiðinni, samveran og félagsskapurinn.“

Hún segist vera einstaklega heppin að fá tækifæri til þess að vinna við áhugamálin sín, ástríðuna, og sér finnist í rauninni hún aldrei vera í vinnunni. „En auðvitað er þetta líka mikil ábyrgð og mikilvæg ákvarðanataka fyrir hverja ferð. Það er áríðandi að vera með hausinn á réttum stað. Það getur oft verið vandmeðfarið að snúa við fyrr en seinna og meta aðstæður rétt. En við hjá FÍ erum alltaf með öryggið á oddinum.“

Gleymdi gönguskónum í bænum

Fjallafólk sem fer ótroðnar slóðir lendir oft í áskorunum sem festast vandlega í minninu en sú sem Edith man best eftir gerðist bara við galopið farangursrýmið á langferðabíl.

„Versta martröð leiðsögumannsins er að gleyma gönguskónum heima þegar haldið er í langferð. Það hefur gerst einu sinni og mun bara gerast einu sinni í mínu tilfelli,“ segir hún og skellihlær. „Það síðasta sem ég segi við alla fyrir langferð er að tryggja að gönguskórnir séu örugglega með í för.“

Edith uppgötvaði nefnilega sjálf, aðeins átta tímum fyrir brottför í fimm daga göngu með allt á bakinu um óbyggðir Íslands, að gönguskórnir hefðu orðið eftir í bílskotti í Reykjavík, í aðeins 455 kílómetra fjarlægð.

„Nú voru góð ráð dýr, hvernig í ósköpunum átti ég að redda þessu?“ segir hún og hlær. „Ekki gat ég sent hópinn leiðsögumannslausan í fimm daga ferð um óbyggðir Íslands. Ekki gat ég farið bara á strigaskónum, eða keyrt í bæinn og til baka, ekkert flug fáanlegt og engin búð í næsta nágrenni. Ég trúði eiginlega ekki að þetta væri að gerast!“

En forsjónin var á bandi Edithar því frændi hennar var á leiðinni úr bænum í sömu göngu og var bara kominn hálfa leið á áfangastað. Hann var alveg til í að snúa til baka drjúgan spöl til að mæta bróður Edithar sem tók að sér að vera einkabílstjóri Scarpa-skópars langan veg meðfram mestallri suðurströnd landsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka